Færslur: Kórónuveirufaraldurinn

„Miklu meira sannfærandi áætlanir“ varðandi bóluefnin
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir ákveðin tímamót hafa orðið hjá bóluefnaframleiðendum og stjórnvöld sjái nú „miklu meira sannfærandi áætlanir“ frá þeim. Þetta geri ríkisstjórninni kleift að horfa til lengri tíma. „Við vitum hvar við teljum að við verðum stödd um mitt ár.“ Hún sagðist þó ekki öfunda marga kollega sína af þeirri stöðu sem þeir væru í dag; að vera fyrst núna að opna skóla eða hleypa fólki í klippingu.
Hafði áhyggjur af lagastoð eftir ríkisstjórnarfund
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, fékk áhyggjur af því að ekki væri nægileg lagastoð fyrir því að skikka farþega, sem búsettir væru hér á landi, í sóttkvíarhótel við Þórunnartún eftir fund ríkisstjórnarinnar þann 30. mars. Hún lét því ráðuneytið útbúa álitsgerð þar sem komu fram efasemdir um lagastoðina. Álitsgerðin var send heilbrigðisráðuneytinu laugardaginn 3. apríl eða sama dag og ljóst var að látið yrði reyna á dvölina fyrir dómstólum.
8.200 bólusettir með Pfizer í þessari viku
8.200 verða bólusettir með Pfizer í þessari viku, samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis. Byrjað verður að bólusetja fólk með undirliggjandi áhættuþætti. Búið er að fullbólusetja 1 af hverjum 10 sem stjórnvöld ætla að bólusetja en það eru allir Íslendingar, 16 ára og eldri. Von er á fyrstu skömmtunum frá lyfjaframleiðandanum Janssen á miðvikudag.
Vonar að hægt verði að slaka á aðgerðum
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, reiknar með að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag með tillögum að næstu skrefum varðandi aðgerðir innanlands. Ráðherra mun væntanlega kynna drög að nýrri reglugerð á ríkisstjórnarfundi á morgun. Hann vonar að hægt verði að slaka eitthvað á. Áfram greinist fólk utan sóttkvíar sem Þórólfur segir að sýna að veiran sé enn í gangi þótt hún hafi ekki náð sér á flug. „Við þurfum að fara að öllu með gát.“
Ekkert hefur bólað á nýju rakningarappi
Tafir hafa orðið á útgáfu uppfærðs smitrakningarapps Landlæknisembættisins. Persónuvernd segir appið hafa skilað sér seinna þangað en Landlæknisembættið hélt fram opinberlega. Líklega styttist þó í útgáfu þess. 
Tvö smit greindust utan sóttkvíar í gær
Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, bæði utan sóttkvíar. Eitt smit greindist á landamærunum. Óljóst er hvort smitin sem greindust utan sóttkvíar tengjast. Rakning stendur yfir og því gæti það skýrst þegar líður á daginn. Þá á raðgreining eftir að leiða í ljós af hvaða afbrigði smitin voru.
11.04.2021 - 10:51
Nærri jafn mörg smit á landamærum og innanlands
Frá 1. febrúar til 1. apríl greindust næstum því jafn mörg smit á landamærunum og innanlands. Þetta kemur fram í minnisblaði smitrakningateymis almannavarna sem sent var heilbrigðisráðuneytinu þann 7. apríl. Nærri helmingur smitanna á landamærunum greindust í fyrstu skimun, 29 í seinni skimun og 20 eftir að hafa pantað sér sýnatöku áður en sóttkví lauk.
Taldi engan vafa leika á lagaheimild sóttkvíarhótels
Páll Þórhallsson, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, sagði í minnisblaði sínu til forsætisráðherra að hann teldi engan vafa leika á því að lagaheimild væri til staðar um að ferðamenn skyldu vera í sóttkví í húsnæði þar sem hægt væri að hafa með þeim eftirlit og uppfyllti sóttvarnakröfur. Hann benti þó á að skilgreining sóttvarnahúss væri fullþröng því þar væri ekki gert ráð fyrir að sóttvarnahús væri notað fyrir alla ferðamenn sem kæmu til landsins frá tilteknum svæðum.
Ný fyrirmæli um sóttkvíarbrot væntanleg á næstu dögum
Von er á nýjum fyrirmælum frá ríkissaksóknara um sekt fyrir rjúfa sóttkví á næstu dögum. Þetta segir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, í skriflegu svari til fréttastofu. Tillögur sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra sneru að því að hækka sektir til muna eða að minnsta kosti tryggja að sektarheimildir væru fullnýttar.
Segir ferð sína til Spánar ekki hafa verið óþarfa
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að ferð sín til Spánar hafi verið fjarri því að vera óþörf þótt deila megi um hvort hún hafi verið bráðnauðsynleg. Hann hafi viljað létta undir með bróður sínum sem er búsettur á Spáni eftir að eiginkona hans fékk alvarlegt heilablóð fyrir ári síðan og gefa honum færi á að eiga stund með bróður þeirra sem glímir við Alzheimer „áður en hugurinn fer alveg.“
Fólk í heimasóttkví gæti fengið heimsókn
Fyrsta verkefni Víðis Reynissonar eftir tveggja vikna sumarfrí var að koma með tillögur um hvernig herða megi eftirlit með þeim sem eru heima í sóttkví. Starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands eru byrjaðir að skoða nýja reglugerðina sem tekur gildi á miðnætti og forstjórinn segir hugsanlegt að bæta þurfi við nýjum herbergjum. 190 farþegar eru nú í sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún.
Hærri sektir fyrir að rjúfa sóttkví og strangari reglur
Þeir sem ætla að vera í sóttkví í heimahúsi eiga helst að vera einir á dvalarstað. Ef það eru fleiri á þeim stað þurfa þeir allir að sæta sömu skilyrðum sóttkvíar. Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir hafa komið þeim skilaboðum áleiðis til ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra um að hækka eigi sektir fyrir að rjúfa sóttkví til muna. Reglugerðin tekur gildi strax á morgun.
Myndskeið
Þórólfur búinn að senda nýtt minnisblað til ráðherra
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sent heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað um aðgerðir á landamærunum. Landsréttur vísaði í gær frá kæru hans vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki væri lagastoð fyrir því að skikka þá sem gætu verið í sóttkví heima hjá sér í sérstakt sóttkvíarhótel. Í minnsblaðinu er lagt til hvernig megi skerpa á reglum um heimasóttkví. Nýju aðgerðirnar verða ekki jafn áhrifaríkar, segir Þórólfur.
Fjórir greindust innanlands í gær - allir í sóttkví
Fjórir greindust með kórónuveiruna í gær og voru þeir allir í sóttkví. Þrír greindust með veiruna á landamærununum. Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa heldur áfram að lækka og er nú 21,5 og þeim fækkar sem eru í einangrun og sóttkví. 110 eru nú með virkt smit en þeir voru 132 í gær og 101 eru í sóttkví en þeir voru 127 í gær.
Myndskeið
Upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19
Upplýsingafundur almannavarna vegna COVID-19 var haldinn fyrir hádegi. Á fundinum voru þeir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymisins, og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Hægt var að fylgjast með beinni textalýsingu hér að neðan og upptaka af fundinum er hér að ofan.
Myndskeið
Mæta og biðja um sprautu
Talsvert er um að fólk, sem ekki er skráð í kórónuveirubólusetningu, mæti á bólusetningarstaði og biðji um sprautu. Ekki er orðið við slíkum beiðnum, en þegar bóluefni verður afgangs er það boðið fólki á lista farsóttarnefndar Landspítala.
Myndskeið
Bólusetningin eins og ferming og jól
Þetta er eins og að vera nýfermd, sagði kona sem fékk seinni kórónuveirubólusetninguna í dag. Um tíu þúsund verða bólusett í vikunni með þremur bóluefnum og aldrei hafa fleiri verið bólusettir á einum degi á Akureyri. Um 4.000 fengu bólusetningu með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll.
Fólkið sem kærði reyndist neikvætt í seinni skimun
Landsréttur komst síðdegis að þeirri niðurstöðu að sóttvarnalækni hefði skort lögvarða hagsmuni af því að dómurinn leysti úr kæru vegna sóttvarnahótelsins í Þórunnartúni. Horfði dómurinn meðal annars til þess að fólkið sem kærði hefði yfirgefið sóttvarnahúsið, heilbrigðisráðuneytið hefði brugðist við úrskurði héraðsdóms með því að gera þeim sem þar dvöldu grein fyrir því að þeir mættu fara og að sóttkví fólksins væri lokið. Þá gekkst það undir seinni skimun í morgun og reyndist neikvætt.
76 prósent virkra smita eru á höfuðborgarsvæðinu
Þótt smit hafi ekki verið jafnmörg síðan í lok mars hefur nýgengi engu að síður lækkað frá því á mánudag þegar það var 24 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Það er nú 22,6. 76 prósent þeirra sem eru með virkt smit eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Myndskeið
Fullbólusettir gengu út úr Höllinni í dag
Von er á um 4.000 manns í kórónuveirubólusetningu með bóluefni Pfizer í Laugardalshöll í dag. Sumir eru að fá sína fyrstu sprautu og aðrir þá síðari. Þetta er 58. dagurinn sem er bólusett gegn COVID-19 hér á landi síðan bólusetningar hófust hér í lok desember.
Myndskeið
Viðbúið að Landsréttur úrskurði um sóttkví á morgun
Viðbúið er að Landsréttur dæmi á morgun um lögmæti þess að skikka fólk á sóttkvíarhótel. Sárafáir völdu að fara á hótelið í dag þegar það var ekki lengur skylda. Mál fjögurra af þeim sjö sem Héraðsdómur dæmdi í hag í gær fara fyrir Landsrétt. Hin þrjú mál gera það ekki vegna þess að þeir sem þau höfðuðu eru lausir úr sóttkví og hafa því ekki lögvarða hagsmuni af málinu.
Fólk utan Schengen má nú koma til landsins
Reglur á landamærum voru rýmkaðar á miðnætti. Fyrstu farþegarnir frá löndum utan Schengen komu í morgun frá Boston. Fólk frá þessum löndum verður að sýna vottorð um að það sé með mótefni gegn kórónuveirunni. Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli segir erfitt að vinna við það að reglur breytist milli daga. Engir verða skikkaðir í sóttkvíarhótel í dag nema erlendir ferðamenn frá hárauðum löndum sem ekki hafa bókað hér hótel.
Myndskeið
20% hafa fengið hlutabætur
Meira en 4.300 fyrirtæki hafa nýtt sér stuðningsaðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins og 20% allra á vinnumarkaði hafa fengið hlutabætur. Um 90% þess stuðnings sem stjórnvöld hafa greitt vegna launa á uppsagnarfresti hafa runnið til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Lokað þinghald í sóttkvíarmálinu
Klukkan þrjú hófst fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem krafa Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um staðfestingu ákvörðunar um sóttkví í sóttvarnahúsi var tekin fyrir. Fjórar kærur fólks sem dvelst á sóttkvíarhótelinu hafa borist og eru nú þrjá þeirra til meðferðar. Þinghaldið er lokað að kröfu Reimar Péturssonar, eins lögmannanna, en hinir tveir lögmennirnir þeir Jón Magnússon og Ómar R. Valdimarsson höfðu sammælst um að þinghaldið yrði opið.
Hjón með þriggja mánaða barn kæra skyldusóttkví
Hjón með þriggja mánaða gamalt barn hafa kært þá ákvörðun stjórnvalda að vera skikkuð í sóttkví í sóttvarnahúsi er þau komu til landsins. Fólkið krefst þess að því verði birt ákvörðun sóttvarnalæknis um að þau skulu vera í sóttvarnahúsi og að sú ákvörðun verði borin undir héraðsdóm.