Færslur: Kórónaveira

Ekkert COVID-19 andlát á Spáni - 111 á Bretlandi
Átta dauðsföll af völdum COVID-19 voru skráð í Svíþjóð síðasta sólarhringinn. Þetta kemur fram í nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum. Í Bretlandi voru skráð 111 dauðsföll og hafa þau ekki verið færri í tvo mánuði. Ekkert andlát af völdum COVID-19 var á Spáni síðasta sólarhringinn en þar hafa rúmlega 27 þúsund látist í farsóttinni.
01.06.2020 - 16:48
Bann við fjöldasamkomum lykillinn að fækkun smita
Svokallaðir „ofursmitberar“ og fjöldasamkomur eru orsök flestra COVID-19 smita í Danmörku. Þetta kemur fram í nýrri danskri rannsókn. Vísindamenn telja þetta vera skýringuna á af hverju smitum í Danmörku hefur ekki fjölgað að neinu ráði eftir að slakað var á aðgerðum yfirvalda. Bann við fjöldasamkomum leiki þar lykilhlutverk.
01.06.2020 - 14:32
Blaðamaður New Yorker fékk undanþágu fyrir Íslandsferð
Elizabeth Kolbert, blaðamaður á bandaríska blaðinu New Yorker, fékk undanþágu frá því að fara í tveggja vikna sóttkví vegna greinar sem hún skrifaði fyrir blaðið. Hún fékk þó nei hjá utanríkisráðuneytinu en eftir að hafa leitað til Kára Stefánssonar, forstjóra deCode, breyttist nei-ið fljótlega í já. „Að sjá Íslendinga sitja þétt saman á kaffihúsum og veitingastöðum er jafn framandi fyrir ferðamenn og eldfjöllin og hvalaskoðunarferðirnar.“
01.06.2020 - 11:40
Fjórða smitið í röð utan sóttkvíar
Einn greindist með kórónuveiruna í gær. Viðkomandi var ekki í sóttkví. Þetta er fjórða slíka tilfellið á skömmum tíma. Smitið greindist hjá íslenskri erfðagreiningu, þar sem 464 sýni voru tekin. Auk þess voru um 70 sýni tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Tvö virk smit eru nú í samfélaginu og tveir þar af leiðandi í einangrun. Enginn er á sjúkrahúsi.
30.05.2020 - 13:08
Trump tekur Kína til bæna - slítur á samskiptin við WHO
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór hörðum orðum um Kína og kínversk stjórnvöld á blaðamannafundi nú síðdegis. Kínverskir háskólanemar sem teljast ógn við þjóðaröryggi fá ekki að koma til landsins og sérstökum viðskiptasamningi við Hong Kong verður slitið. Hann sagði Kínverja ábyrga fyrir kórónuveirufaraldrinum og tilkynnti að ríkisstjórn hans hefði slitið á öll tengsl við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina þar sem Kínverjar hefðu á henni tangarhald.
29.05.2020 - 19:13
Svíar svekktir og finnst þeir settir út í horn
Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, er svekkt að landið skuli ekki vera hluti af samkomulagi Danmerkur og Noregs um ferðir milli landanna. „Við höfðum vonast eftir sameiginlegri, norræni lausn en það varð ekki. Eftir sem áður eigum við í virku samtali við ráðamenn í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Íslandi og erum með nokkrar hugmyndir.“
29.05.2020 - 16:03
Ekkert nýtt smit og aðeins einn í einangrun
Enginn greindist með kórónuveiruna í gær. Nærri 400 sýni voru tekin hjá veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu. Aðeins er einn í einangrun og er hann í aldurshópnum 13 til 17 ára. Þeim hefur fjölgað verulega sem eru í sóttkví, eru nú 1.111 en það má væntanlega rekja til þeirra sem hafa verið að koma til landsins.
29.05.2020 - 13:05
Ekkert smit greindist í gær
Enginn greindist með kórónuveiruna í gær, hvorki hjá veirufræðideild Landspítalans né Íslenskri erfðagreiningu. Rúmlega 500 sýni voru tekin. Áfram eru því aðeins þrjú virk smit á landinu. Alls hafa 1.805 greinst með COVID-19 hér á landi en 1.792 hafa náð bata. 947 eru í sóttkví en 20.517 hafa lokið sóttkví. Nú er búið að taka rúmlega 60 þúsund sýni. 16 dagar eru síðan síðast greindist jákvætt sýni hjá veirufræðideildinni.
28.05.2020 - 13:05
Hefði ekki trúað að til væri veira sem þessi
Vísindamenn geta breytt þekktum veirum. Þeir geta aftur á móti ekki búið til veiru frá grunni. Þetta segir Erna Magnúsdóttir, dósent í lífeinda- og líffærafræði við læknadeild HÍ. Erna segir að Novel coronavirus 2019-nCoV, kórónaveiran sem veldur COVID-19, sé það einstök að ekki hefði verið hægt að búa hana til úr annarri veiru á rannsóknarstofu. Hún segir að fyrir ári síðan hefði hún vart getað trúað því að til væri veira með þessa eiginleika.
Starmer segir Boris Johnson hafa fallið á prófinu
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafa fallið á prófinu á stöðufundi stjórnvalda í dag. Johnson kom þar Dominic Cummings, aðalráðgjafa sínum, til varnar. „Það er móðgun við þá fórn sem breskur almenningur hefur fært að Boris Johnson skuli ekki ætla að gera neitt í máli Cummings.“
24.05.2020 - 21:03
Ekkert smit og mjög fá sýni tekin
Ekkert smit greindist í gær, samkvæmt nýjum tölum á covid.is. Aðeins voru 58 sýni tekin, öll hjá veirufræðideild Landspítalans. Þar hefur ekki greinst smit síðan 12. maí eða í ellefu daga. 789 eru í sóttkví og þrír eru með virkan sjúkdóm. Enginn er á sjúkrahúsi. Stórt skref verður stigið í afléttingu samkomutakmarkana á morgun; líkamsræktarstöðvar verða opnaðar og tveggja metra reglan verður valkvæð. Þá verður 200 leyft að koma saman en ekki 50 eins og nú.
24.05.2020 - 12:58
Segir frumvarp ráðherra ekki nýtast Airport Associates
Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associa­tes sem sinnir þjónustu fyrir 20 flugfélög á Keflavíkurflugvelli, segir félagið ekki geta nýtt sér frumvarp fjármálaráðherra um greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Þetta kemur fram í umsögn forstjórans við frumvarpið.
Lýsa notkun á Remdesivir við COVID sem uppgötvun ársins
Bráðabirgðarannsókn á meira en þúsund COVID-19 sjúklingum í 22 löndum bendir til þess að ebólulyfið Remdesivir minnki líkur á dauðsfalli um 80 prósent. Lyfið er til hér á landi en hefur ekki verið notað.„Þetta eru góðar fréttir. Það er alltaf þannig ef eitthvað virkar,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Danskir kollegar hans lýsa þessu sem uppgötvun ársins.
23.05.2020 - 15:40
Eitt smit greindist í gær - var ekki í sóttkví
Einn greindist með kórónuveiruna í gær í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hann var ekki í sóttkví. Nú er því þrír með virkan sjúkdóm en alls hafa 1.804 greinst með veiruna.
23.05.2020 - 13:19
Valkvæð 2 metra regla og helst að koma með vatn sjálfur
Tveggja metra reglan svokallaða verður valkvæð þegar líkamsræktarstöðvar opna á mánudag. Sóttvarnalæknir biðlar þó til fólks um virða hana eins og best má verða. Iðkendur verða hvattir til að koma með vatn í brúsa í stað þess að nota vatnsbrunna og tryggja þarf að þeir geti þrifið áhöld og tæki fyrir og eftir notkun með sóttvarnarlegi eða sápu.
22.05.2020 - 18:38
Myndskeið
„Þurfa að taka tillit til þess að opna þarf landið“
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að læknar hafi fullan rétt á því að hafa skoðanir á því hvernig eigi að opna landið og er meðvitaður um að margir eru ekki sáttir. „Læknar og aðrir þurfa hins vegar að taka tillit til þess að það þarf að opna þetta land.“
18.05.2020 - 14:31
Byrjað að mæla mótefni gegn COVID-19
Sýkla-og veirufræðideild Landspítalans er byrjuð að mæla mótefni gegn COVID-19 veirunni og er farin að taka á móti blóðsýnum. Beiðni þess efnis þarf að koma frá lækni.
12.05.2020 - 12:03
Tæplega 180 í sóttkví vegna smits hjá einum
Mest hafa tæplega 180 þurft að fara í sóttkví vegna COVID-19 smits hjá einum. Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður rakningarteymisins. Hann segir að rakningarappið hafi sannað sig í nokkur skipti þótt það hafi komið þegar kórónuveirufaraldurinn var búinn að ná toppnum. „Blanda af mannlegri rakningu og tækni gefur bestan árangur,“ segir Gestur K. Pálmason, sem er nú orðinn fyrrverandi starfsmaður teymisins enda eru starfsmenn þess nú 8 en ekki 52 eins og þegar mest var.
12.05.2020 - 10:23
Norrænir sendiherrar kallaðir á teppið í Ungverjalandi
Péter Szijjártó, utanríkisráðherra Ungverjalands, hefur kallað sendiherra Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar á teppið og sakar ráðamenn landanna um að dreifa falsfréttum alþjóðlegra fréttaveita. Ástæðan er bréf sem norrænu utanríkisráðherrarnir skrifuðu framkvæmdastjóra Evrópuráðsins þar sem þeir tóku undir áhyggjur af viðbrögðum Ungverja við COVID-19.
11.05.2020 - 10:19
Ennþá veik þótt henni sé „batnað“ af COVID-19
Elísabet Ögn Jóhannsdóttir var sú fyrsta á Norðurlandi til að greinast með COVID-19. Það gerðist 15. mars. Nú, nærri tveimur mánuðum og tveimur neikvæðum COVID-prófum seinna , er hún enn veik. Brúðkaupinu sem átti að vera í júni hefur verið frestað og sömuleiðis brúðkaupsferðinni. Hún og verðandi eiginmaður hennar ætluðu til Norður-Ítalíu.
08.05.2020 - 18:14
Ekkert smit og aðeins 26 með virkan sjúkdóm
Ekkert smit greindist í gær, hvorki hjá veirufræðideild Landspítalans né Íslenskri erfðagreiningu. Þetta er fjórði dagurinn af fimm þar sem enginn greinist með kórónuveiruna. 464 sýni voru tekin. Enn fækkar þeim sem eru með virkan sjúkdóm og eru þeir nú aðeins 26. 98 prósent þeirra sem hafa greinst með kórónuveiruna hafa náð bata.
08.05.2020 - 13:02
Sveitarfélög hugi að óhefðbundnum hátíðarhöldum
Ómögulegt er að segja til um hverjar takmarkanir á samkomum verða 17.júní þar sem næstu skref verða byggð á árangri þeirra aðgerða sem tóku gildi 4. maí. Eitt er þó víst; hátíðir sumarsins verða með öðru móti en áður og því er mikilvægt að sveitarfélögin hugi að „óhefðbundnum leiðum til þess að halda upp á þjóðarhátíðardaginn saman þrátt fyrir takmarkanir.“
08.05.2020 - 11:19
Tvö smit staðfest - 97 prósent náð bata
Tvö COVID-19 smit voru staðfest í gær, þau fyrstu í fjóra daga. Hvorugt þeirra var í sóttkví og bæði virðast hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. Annað greindist hjá veirufræðideild Landspítalans en hitt í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. Fjöldi þeirra sem nú er í einangrun með virkan sjúkdóm er 36. Af 1.801 sem hefur greinst með kórónuveiruna hafa 1.755 náð bata eða 97 prósent.
07.05.2020 - 13:03
Fjöldi farþega hjá Icelandair dróst saman um 99 prósent
Fjöldi farþega hjá Icelandair dróst saman um 99 prósent í apríl miðað við sama tímabil í fyrra. Nær engin eftirspurn er eftir flugi og ferðalögum um þessar mundir, segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. 1.700 farþegar flugu með vélum Icelandair í síðasta mánuði en til samanburðar voru þeir 318 þúsund í apríl í fyrra.
06.05.2020 - 16:33
Prófessorinn sem féll á eigin prófi
Bresku götublöðin hafa farið mikinn vegna máls Neils Ferguson, ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Ferguson neyddist til að segja af sér þegar í ljós kom að ástkona hans, sem er gift öðrum manni, hafði heimsótt hann tvívegis í trássi við fyrirmæli yfirvalda . Ástkonan segist vera í opnu sambandi og hafi alltaf litið á heimili sitt og prófessorsins sem eitt. Prófessorinn er sjálfur giftur maður en hann og eiginkonan búa ekki saman.
06.05.2020 - 13:19