Færslur: Gróðureldar í Ástralíu

Ber ekki að vernda börn fyrir loftslagsbreytin
Dómstóll í Ástralíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að umhverfisráðherra landsins beri ekki skylda til að vernda börn fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Með því er snúið við tímamótadómi frá því fyrir tveimur árum.
Ástralía
Kóalabirnir í útrýmingarhættu
Kóalabirnir, ein helsta táknmynd dýralífs í Ástralíu, eru taldir í útrýmingarhætti á stórum svæðum á austurströnd landsins. Talið er að þeim hafi fækkað um nærri helming á tuttugu árum.
Hafa náð tökum á eldunum við Perth
Slökkviliðsmönnum í Vestur-Ástralíu hefur tekist að hemja útbreiðslu gróðureldanna sem geisað hafa í útjaðri og næsta nágrenni ríkishöfuðborgarinnar Perth að undanförnu. Darren Klemm, yfirslökkviliðsstjóri Vestur-Ástralíu, greindi frá þessu á fréttamannafundi í morgun.
06.02.2021 - 05:31
Yfir 70 heimili eyðilögð í gróðureldum við Perth
Yfir 70 heimili í útjaðri áströlsku borgarinnar Perth hafa síðustu daga orðið gróðureldum að bráð. Hundruð slökkviliðsmanna leggja dag við nótt í baráttunni við eldana en verður lítt ágengt, þar sem hlýir og hvassir vindar blása stöðugt í glæðurnar og torvelda slökkvistörfin til muna. Mikinn og þykkan reyk leggur yfir borgina og víðtækar lokanir, strangar ferðatakmarkanir og aðrar sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 gera ástandið enn erfiðara viðfangs en ella.
03.02.2021 - 02:21
Tvö hitamet í Sydney og viðbúnaður vegna gróðurelda
Hitamet voru slegin í Sydney í Ástralíu í nótt sem leið og aftur í dag. Nokkuð er um gróðurelda í útjaðri borgarinnar og hefur slökkvilið í nógu að snúast.
29.11.2020 - 06:27
Ástralir búa sig undir fyrstu hitabylgju sumarsins
Ástralir búa sig nú undir fyrstu hitabylgju sumarsins, með hita um og yfir 40 gráðum, þurrum og hlýjum vindum og þar með kjöraðstæðum fyrir gróðurelda. Skógar- og gróðureldar síðasta sumars eru Áströlum enn í fersku minni, enda þeir verstu og víðfeðmustu sem sögur fara af þar í landi. 33 fórust í eldunum, sem sviðu um 190.000 ferkílómetra gróðurlendis frá september 2019 til mars 2020, og áætlað er að allt að þrír milljarðar dýra af öllu tagi hafi drepist í eða vegna eldanna.
Nær þrír milljarðar dýra drápust í gróðureldum Ástralíu
Nærri þrír milljarðar dýra ýmist drápust eða hröktust frá heimkynnum sínum í gróðureldunum miklu sem herjuðu á Ástralíu í vetur sem leið. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var af vísindamönnum við nokkra ástralska háskóla. Í skýrslu þeirra segir að um 143 milljónir spendýra, 180 milljónir fugla, 51 milljón froska og 2,46 milljarðar skriðdýra hafi drepist eða hrakist frá sínum náttúrulegu heimkynnum í eldunum.
Á fimmta hundrað létust vegna reyks af gróðureldum
Talið er að 445 hafi látið lífið og yfir fjögur þúsund hafi þurft að leita á sjúkrahús vegna reyks af völdum gróðureldanna í Ástralíu. Reykurinn hafði áhrif á um 80 prósent landsmanna. Þetta kemur fram í úttekt sérfræðinga á vegum ríkisins. 
26.05.2020 - 06:33
Heimskviður
Meira en milljarður dýra drepist í Ástralíu
Eftir fordæmalausa skógarelda og þurrka í Ástralíu fór loksins að rigna. Eldur er slokknaður víðast hvar en ljóst er að eyðileggingin er gífurleg. Talið er að yfir milljarður villtra dýra hafi drepist og þar með talið tíu þúsund kóalabirnir í Nýja Suður Wales. Þá hafa fjölmörg dýr drepist sem voru þá þegar í útrýmingarhættu. 
Eldar sem loguðu í sjö mánuði loks slökktir
Sameiginlegt átak slökkviliðs og fjölda annarra stofnana í Nýja Suður-Wales í Ástralíu varð til þess að loks tókst að slökkva gróðureld sem hafði logað í Lindfield Park Road síðan 18. júlí í fyrra. Slökkvistarf var mjög erfitt þar sem nærri helmingur 858 hektara gróðureldanna logaði í mó undir yfirborðinu. Því dugðu engin venjuleg slökkvistörf. 
13.02.2020 - 03:38
Varað við flóðum er gróðureldar slokkna
Á austurströnd Ástralíu rignir nú eins og hellt sé úr fötu og flóð ógna mönnum og mannvirkjum víða, þar á meðal í stórborginni Sydney. Rigningin hefur slökkt risagróðureld sem gekk undir nafninu Currowan og sveið 5.000 ferkílómetra lands á 74 dögum, og enginn gróðureldur í Nýja Suður Wales er svo stór lengur, að hann kalli á hæsta viðbúnaðarstig. Vatnsveðrið er hins vegar svo mikið að gefnar hafa verið út viðvaranir vegna flóðahættu í staðinn.
Hellirigning veldur flóðum, kæfir elda og kætir Ástrala
Eftir margra mánaða mannskæðar hamfarir vegna þurrka og gróðurelda vofa nú úrhelli og flóð yfir ástralska ríkinu Nýja Suður-Wales og íbúum þess. Gærdagurinn var sá úrkomusamasti í Sydney til rúmlega árs. Fjöldi gatna varð þar ófær vegna flóða. Svipaða sögu er að segja af fleiri bæjum við austurströndina og Veðurstofa Ástralíu spáir áframhaldandi vatnsveðri.
Neyðarástandi lýst yfir í Canberra
Í fyrsta sinn í nærri tvo áratugi ákváðu yfirvöld í Canberra, höfuðborg Ástralíu, að lýsa yfir neyðarástandi í dag. Gróðureldar nálgast borgina óðfluga og tilvonandi hitabylgja næstu daga gæti ýtt eldunum í átt að úthverfum í suðurhluta borgarinnar.
31.01.2020 - 03:46
Eldar loga á ný í Ástralíu - þrír fórust í flugslysi
Þrír menn fórust þegar flugvél sem notuð var við slökkvistörf vegna gróðureldanna í Ástralíu fórst í landinu suðaustanverðu í dag. Vélin var af Hercules-gerð, fengin að láni frá Kanada, en þriggja manna áhöfnin var bandarísk. Fjöldi gróðurelda hefur blossað upp í Ástralíu á ný eftir stutt hlé vegna rigninga. Í dag er víða yfir 40 stiga hiti syðra og hvassir, hlýir vindar blása nýju lífi í gamlar glæður.
23.01.2020 - 05:38
RÚV í Ástralíu
Langþráð rigning vekur von hjá Áströlum
Langþráð úrhellisrigning, og jafnvel haglél, eftir eitt lengsta þurrkatímabil sögunnar hjálpar Áströlum nú að ná tökum á gróðureldunum sem skilið hafa eftir sig sviðna jörð á landsvæði sem samsvarar fjórðungi af flatarmáli Islands. Þótt vetrarhamfarirnar á Íslandi og sumarhamfarirnar í Ástralíu séu með öfugum formerkjum eru afleiðingarnar fyrir íbúana að mörgu leyti svipaðar, eins og Jón Björgvinsson komst að raun um á ferð um Nýja Suður-Wales.
19.01.2020 - 19:19
Kærkomin úrkoma í Ástralíu
Langþráð úrkoma helltist yfir austurhluta Ástralíu í morgun, og frekari úrkoma er í kortunum. Rigningin er kærkomin í baráttunni við ógurlega gróðurelda í Nýja Suður-Wales og Viktoríu. Veðurstofan í Nýja Suður-Wales segir talsverða úrkomu hafa fallið á eldana á nokkrum stöðum í ríkinu.
16.01.2020 - 06:50
Náðu tökum á ofureldi nærri Sydney
Slökkviliðsmenn náðu í dag tökum á einum víðfeðmasta ofureldinum í gróðurlendi Nýja Suður-Wales í Ástralíu. Hiti hefur verið heldur minni síðustu sólarhringa þar syðra og langþráð úrkoma lét loks á sér kræla, sem hefur dregið heldur úr útbreiðslu eldanna og gert starf slökkviliðsins aðeins viðráðanlegra.
13.01.2020 - 06:39
Pistill
Kröftugri skógareldar geta valdið vítahring
Í milljónir ára hafa eldar átt þátt í að móta líf á jörðinni og í hundruð milljóna ára hafa vistkerfi jarðarinnar brunnið. Þegar við mennirnir komum til sögunnar olli beislun eldsins þáttaskilum í þróun okkar sem tegundar. Eldur veitti hita á köldum vetrarkvöldum, var vörn gegn rándýrum og gerði það mögulegt að elda mat sem jók öryggi matvælana með því að minnka hættu á sýkingum.
Eldarnir á Ástralíu færast aftur í aukana
240.000 manns í Viktoríuríki í Ástralíu fengu í morgun skilaboð frá yfirvöldum þar sem þeim er eindregið ráðlagt að yfirgefa heimili sín og koma sér í öruggt skjól. Tveir stórir eldar náðu saman í nótt og loga nú sem einn risaeldur á hundraða kílómetra löngu belti.á mörkum Viktoríuríkis og Nýja Suður-Wales. Enn ein hitabylgjan lét á sér kræla á sunnan- og austanverðri Ástralíu í gær, með heitum, þurrum vindi sem blæs nýju lífi í hundruð gróðurelda sem eilítið hafði sljákkað í síðustu daga.
10.01.2020 - 04:48
Afþakka aðstoð danskra slökkviliðsmanna
Stjórnvöld í Ástralíu hafa afþakkað aðstoð fimmtíu slökkviliðsmanna frá Danmörku við að berjast við gróðurelda sem hafa brunnið mánuðum saman. Trine Bramsen varnarmálaráðherra greinir frá þessu í fréttatilkynningu.
09.01.2020 - 16:17
Fréttaskýring
Búast má við aldauða dýrategunda í Ástralíu
Búast má við aldauða einhverra dýrategunda í Ástralíu vegna eldanna sem þar geisa. Þetta er mat Rannveigar Magnúsdóttur spendýravistfræðings sem var þar fyrir nokkrum árum við rannsóknir á lítilli fenjapokamús.
09.01.2020 - 15:20
Morgunvaktin
Ástandið í Nýja Suður-Wales eins og í hryllingsmynd
Ástandinu í Nýja Suður-Wales í Ástralíu er helst hægt að líkja við stríðsástand, segir Sólveig Einarsdóttir, sem búið hefur í bænum Narrabri í fylkinu í þrjátíu ár. Ekkert lát er á gróðureldum, bændur bregða búi og fólk er tilbúið að flýja heimili sín á hverri stundu.
09.01.2020 - 10:00
Nærmynd
Gárungarnir kalla hann Scott úr markaðsdeildinni
Vinir hans kalla hann ScoMo og síðustu vikur hafa landar hans þráspurt hann hvar í andskotanum hann haldi sig. Where the bloody hell are you? Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur oft vakið hneykslan en líklega hefur hann aldrei verið umdeildari en nú. Mörgum þykir hann hafa brugðist seint og illa við gróðureldunum sem nú geisa. 
Ástralar binda vonir við yfirvofandi óveður
Ástralskir slökkviliðsmenn keppast við að reyna að hefta útbreiðslu gróðurelda í landinu, rétt á meðan aðstæður leyfa. Hiti hefur lækkað talsvert síðustu daga auk þess sem örlítil úrkoma hefur gert skilyrði hagstæðari fyrir slökkvistörf. Von er á annarri hitabylgju í Ástralíu síðar í vikunni.
07.01.2020 - 04:38