Færslur: Geldingadalagos

Hraunið rennur meira í austurátt og niður í Meradali
Töluverður gangur hefur verið í eldgosinu við Fagradalsfjall í kvöld og nótt, og það hefur sést afar vel frá höfuðborgarsvæðinu. Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir virknina svipaða og verið hefur, hún liggi niðri í 7 - 13 tíma og svo gjósi álíka lengi á milli. Til að sjá, með augum leikmanns, virðist þó sem nokkur breyting hafi orðið á gosinu; að jafnvel glitti í tvo lítil gosop austur, niður og jafnvel norður af stóra gígnum.
Hraun komið yfir leiðina upp á „Gónhól“
Gönguleiðin að vinsælasta útsýnisstaðnum yfir eldgosið við Fagradalsfjall lokaðist snemma í morgun. Leiðinni var reyndar lokað í öryggisskyni um síðustu helgi þar sem hraun var komið hættulega nærri gönguleiðinni. Sumir hafa þó virt lokunina að vettugi síðustu daga. Á meðfylgjandi mynd, sem Hlynur Þorsteinsson tók um klukkan sjö í morgun, má sjá að hraunið er komið yfir gönguleiðina upp á fellið, sem fékk viðurnefndið Gónhóll eftir að eldgosið hófst.
Myndskeið
Hætta á að gas safnist upp við gosstöðvarnar í kvöld
Talin er hætta á að gas safnis upp við gosstöðvarnar í Geldingadölum í kvöld þegar vindátt verður norðlæg eða breytileg. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína þangað um helgina.
Myndskeið
Möttulgos heldur vísindamönnum uppteknum næstu árin
Breytingar eru að verða á efnasamsetningu eldgossins í Geldingadölum. Enn er of snemmt að spá fyrir um hvaða áhrif breytingarnar hafa á framgang gossins en þegar er ljóst að jarðeldurinn mun halda jarðvísindamönnum uppteknum næstu árin.
Skipar starfshóp um uppbyggingu við gosstöðvarnar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- og iðnaðarráðherra, hefur sett á fót starfshóp sem ætlað er að koma með tillögur um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum til skemmri og lengri tíma.
Myndskeið
Gasmengun getur borist á móti vindi
Mengunin frá eldstöðinni í Geldingadölum getur borist á móti vindi og því er ekki nóg að hafa vindinn í bakið, einkum ef farið er nálægt hraunjaðri. Eldfjallafræðingur segir að þegar gasmenguninni hafi blásið á haf út sé hún þó ekki endilega úr sögunni heldur geti henni blásið til baka til Íslands.
Hraun flæðir yfir gönguleið
Hraun úr nýju gígunum sem opnuðust á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli í morgun flæðir nú yfir gönguleið A, sem er gönguleiðin sem fyrst var stikuð. Þrátt fyrir það hefur verið ákveðið að opna fyrir aðgang almennings að svæðinu klukkan tólf eins og stefnt var að.
Viðtal
Telja fjóra nýja gíga hafa opnast
Fleiri gígar opnuðust á gosstöðvunum í Geldingadölum í morgun. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir þetta ekki koma á óvart. „Það má búast við þessu. Svona þróun er ekki óeðlileg og á ekki að koma okkur á óvart,“ segir hann.
Gasmengun berst yfir Vatnsleysuströnd
Veðurstofan spáir sunnan og suðvestan 3 til 8 metrum á sekúndu í dag, en 8 til 13 um landið norðvestanvert. Skýjað að mestu og skúrir á víð og dreif en léttskýjað norðaustan- og austanlands. Síðan hvessir dálítið á morgun með vætu á svipuðum slóðum og í dag en áfram verður bjart veður fyrir norðan og austan. Milt veður og hiti á bilinu 5 til 10 stig.
13.04.2021 - 07:08
Opna fyrir aðgengi að gosstöðvunum á hádegi
Gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum berst líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga í dag. Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir fáa vera við gosstöðvarnar núna en svæðið verður ekki opnað fyrir aðgengi almennings fyrr en á hádegi.
Myndskeið
Ógnvænleg og heillandi fegurð eldgíga í Geldingadölum
Þótt hraunrennslið úr gígunum fjórum í Geldingadölum sé lítið í samanburði við flest önnur gos er sjónarspilið óneitanlega tilkomumikið. Gosið hefur laðað að sér þúsundir eða tugi þúsunda ferðalanga og enn dreymir marga bæði hérlendis og erlendis um að fá að heimsækja gosið og ná af sér ódauðlegri ljósmynd með bjarmann í baksýn.
Óljóst hver á að vara við gasmengun
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir óljóst hver eigi að vara íbúa við gasmengun þegar hún fer yfir heilsuverndarmörk. Mikil mengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum mældist í um tuttugu mínútur í Njarðvík í gærmorgun, eða um tvö þúsund míkrógrömm á rúmmetra. Þegar svo mikil mengun mælist eiga börn að halda sig sem mest innandyra og íbúar að loka gluggum, en þeir voru ekki varaðir við í tæka tíð í gær.
Nokkur fjöldi fólks við gosið þrátt fyrir nístingskulda
Opnað var fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum í Geldingadölum klukkan sex í morgun og þar eru nú á fimmta tug bíla, að sögn Hjálmars Hallgrímssonar, vettvangsstjóra lögreglunnar á Suðurnesjum. Lögreglan ræður fólki hins vegar frá því að fara að gosstöðvunum í dag vegna veðurs. Þar er um sex stiga frost og um tuttugu metrar á sekúndu.
08.04.2021 - 12:57
Líklegt að gas mælist í Grindavík
Líklegt er að gasmengun vegna jarðeldanna í Geldingadölum mælist í Grindavík í dag en gert er ráð fyrir norðaustan tíu til fimmtán metrum á sekúndu. Loftgæði eru talin mjög góð eins og er en lítil breyting á vindátt getur breytt miklu hvað mengunina varðar.
Myndskeið
Gengu í sex tíma frá Krísuvík og var snúið við
Gosstöðvarnar voru rýmdar um leið ljóst var að nýjar sprungur væru að opnast þar í dag. Flestir yfirgáfu þær strax en dæmi var um fólk sem kom að gosstöðvunum frá stöðum lengra í burt þar sem ekki voru formlegar lokanir.
Gosstöðvarnar lokaðar á morgun vegna vondrar veðurspár
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka fyrir umferð að gosstöðvunum í Geldingadölum allan daginn á morgun. Ekki verður opnað aftur fyrr en klukkan sex að morgni páskadags. Þetta var ákveðið á grundvelli veðurspár. Veðurstofan spáir vonskuveðri, hvassri suðvestan- og vestanátt með rigningu eða súld og lélegu skyggni á gosstöðvunum. Að sögn Veðurstofunnar verður ekkert ferðaveður við gosstöðvarnar á morgun.
Fjöldi fólks við gosstöðvar en blikur á lofti á morgun
Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosstöðvunum í Geldingadölum það sem af er degi og hefur allt gengið vel fyrir sig, segir Sigurður Bergmann vettvangsstjóri. Hann segir þó blikur á lofti hvað varðar morgundaginn. Veðurspáin er slæm og því verður skoðað í dag hvort takmarka þurfi ferðir að gosstöðvunum á morgun eða loka fyrir umferð þegar veðrið gengur yfir.
Gekk mun betur en í gær
Staðan við gosstöðvarnar í Geldingadölum hefur verið mun betri í dag en í gær þegar margra kílómetra löng bílaröð teygði sig upp að Bláa lóninu þegar verst lét. Nýjar reglur tóku gildi í dag þar sem opið er frá sex á morgnana til sex á kvöldin, ef aðstæður leyfa, og svæðið rýmt klukkan tíu.
Gossvæðið opið 6-18 og rýmt klukkan 22
Opnað verður fyrir umferð að gosstöðvum klukkan sex að morgni fram yfir páska, að því gefnu að það viðri vel til útivistar. Lokað verður fyrir alla umferð að gosstöðvum kl. 18, og fyrr ef nauðsyn krefur og byrjað verður að rýma gossvæðið klukkan tíu á kvöldin.
„Hér er heilt bæjarfélag í gíslingu“
Vettvangsstjórn í Grindavík kom saman klukkan átta, meðal annars til að ræða hvort breyta þurfi skipulagi á svæðinu í kringum gosstöðvarnar í Geldingadölum vegna mikillar aðsóknar. Í bjartviðrinu í gær var bíll við bíl langleiðina eftir öllum Grindavíkurvegi og um kvöldmatarleytið lokaði lögregla fyrir bílaumferð að svæðinu.
Loka gossvæðinu vegna örtraðar
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka tímabundið fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna álags. Óvíst er hvort svæðið verði opnað aftur í dag. Mikil ásókn hefur verið í að komast í Geldingadali og nokkurra kílómetra löng bílaröð hefur myndast.
30.03.2021 - 17:58
Myndskeið
Getur komið skyndilegur og mjög hraður hraunstraumur
Stórhættulegt getur verið að standa við hraunjaðarinn í Geldingadölum. Rof getur myndast þannig að skyndilega fari að flæða mikið af glóandi hrauni. Hraðinn getur verið slíkur að fólk nær ekki að hlaupa undan því, segir eldfjallafræðingur.
Myndband
Eldbólstur yfir gosstöðvunum
Myndarlegt eldbólstur stígur upp af gosstöðvunum í Geldingadölum, svo sem sjá má á þessari mynd sem tekin er úr vefmyndavél RÚV á efstu hæð Útvarpshússins. Eldbólstur verða til við afmarkað hitauppstreymi frá eldgosum og öðrum sterkum hitauppsprettum.
28.03.2021 - 16:15
Loka Suðurstrandarvegi: Örtröð við gosstöðvarnar
Suðurstrandarvegi hefur verið lokað tímabundið vegna mikils fjölda bíla á svæðinu. Bílastæðin eru öll full og lögreglan á suðurnesjum stýrir umferð þannig að bílum verður hleypt inn í stæði eftir því sem þau losna.
28.03.2021 - 14:33
Hraungígarnir virðast vera að sameinast
Fyrir hádegi tóku gígarnir tveir í eldstöðinni í Geldingadölum að breytast þó nokkuð. Gígarnir hafa fengið gælunöfn og er sá hærri kallaður Suðri og sá lægri Norðri. Flæðið úr honum um skarð sem snýr gegn suðvestri hefur sameinast rennslinu sem er í rennunni frá Suðra og út í megin hraunána. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Eldfjallafræði- og náttúruvárhóp Háskóla Íslands. Þá segir að þetta gæti verið fyrsta skrefið í sameiningu gíganna.

Mest lesið