Færslur: Eldgos í Meradölum

Lokað við eldstöðvarnar í dag
Leiðin að eldstöðvunum í Geldingadölum og Meradölum er lokuð í dag vegna mengunarhættu. Hægviðri verður á þessum slóðum í dag og því er gasmengun mest í grennd við gosstöðvarnar.
Urðu varir við yfirborðssprungur á milli gosanna
Björgunarsveitarmenn á vakt við gosstöðvarnar urðu varir við nýjar yfirborðssprungur á milli gosstöðvanna tveggja í nótt. Ekki er víst að sprungurnar hafi myndast í nótt en þær gefa til kynna hvar kvikugangurinn liggur undir gösstöðvunum. Heildarrennsli kviku upp á yfirborð hefur aukist eftir að sprungurnar opnuðust í gær.
Gosstöðvarnar lokaðar almenningi fram eftir morgni
Stórt svæði umhverfis eldstöðvarnar á Reykjanesskaga var rýmt um leið og gjósa tók úr tveimur sprungum norðaustur af Geldingadölum í hádeginu í gær og verður það lokað almenningi fram eftir morgni hið minnsta. Þórir Þorsteinsson, vettvangsstjóri lögreglu við gosstöðvarnar, sagði í samtali við fréttastofu á miðnætti, að fulltrúar viðbragðsaðila, almannavarna og vísindamanna komi saman til fundar klukkan níu í fyrramálið og fari yfir stöðuna.
Loftgæði hafa aukist verulega í Vogum
Loftgæði í Vogum á Vatnsleysuströnd hafa stórbatnað og teljast nú hvorki óholl né hættuleg fólki. Loftgæði þar voru skilgreind sem óholl þar fyrr í kvöld vegna mikils brennisteinsdíoxíðs sem þangað lagði frá gosstöðvunum við Geldingadali, og var fólki þar ráðlagt að loka öllum gluggum og kynda vel. Nú teljast loftgæði hins vegar sæmileg í Vogum.
Mynd með færslu
Beint streymi frá Meradalahlíðum
Vefmyndavél hefur verið komið upp í Meradalahlíðum og frá henni streyma nú myndir af gosinu í Geldingadölum og hraunstreyminu úr nýju sprungunum norður af þeim.
Gosið hefur vaxið - 10 rúmmetrar af kviku á sekúndu
Um sjö rúmmetrar kviku renna úr nýju sprungunni milli Geldingadala og Meradala á hverri sekúndu og heildarrennsli er að líkindum í kringum 10 rúmmetrar á sekúndu. Þetta eru niðurstöður mælinga sem vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands gerðu með loftmyndatöku úr flugvél í dag.
  •