Færslur: Austur-Kongó

Kærði úrslit kosninganna í Austur-Kongó
Martin Fayulu, sá sem fékk næst flest atkvæði í forsetakosningunum í Austur-Kongó, hefur kært úrslit kosninganna. Stjórnlagadómstóll þarf nú að taka afstöðu til lögmætis kosninganna sem hafa verið gagnrýndar á alþjóðlegum vettvangi. Eftirlitsaðilar bentu á þó nokkra annmarka á framkvæmd kosninganna. Þess vegna er talið að brögð hafi verið í tafli.
12.01.2019 - 22:04
Koma í veg fyrir að Fayulu kæri úrslitin
Öryggissveitir í Austur-Kongó umkringdu heimili Martins Fayulu í morgun og komu í veg fyrir að hann gæti lagt fram formlega kvörtun um forsetakosningarnar þar í landi. Fayulu laut í lægra haldi í kosningunum á dögunum en hafði verið spáð sigri í aðdraganda kosninganna.
12.01.2019 - 12:28
Flokkar hliðhollir Kabila halda þingmeirihluta
Flokkar hliðhollir Joseph Kabila, fráfarandi forseta Austur-Kongó halda öruggum meirihluta sínum á þingi landsins samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum yfirkjörstjórnar. 500 fulltrúar sitja í neðri deild þingsins og hafa stjórnarflokkarnir fengið 288 af þeim 429 þingsætum sem fyrir liggja, en stjórnarandstaðan 141.
Óeirðir vegna úrslita í Austur-Kongó
Tveir almennir borgarar og tveir lögregluþjónar féllu þegar óeirðir brutust út í dag í borginni Kikwit í Austur-Kongó. Mannfjöldi safnaðist þar saman til að mótmæla úrslitum forsetakosninganna á dögunum.
10.01.2019 - 14:51
Tshisekedi lýstur sigurvegari í Kongó
Felix Tshisekedi, annar af helstu leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Austur-Kongó, hefur verið lýstur sigurvegari nýafstaðinna forsetakosninga þar í landi, með fyrirvara þó. Yfirkjörstjórn landsins kynnti bráðabirgðaúrslit kosninganna í rauðabítið í morgun, en endanleg úrslit eiga að liggja fyrir hinn 15. þessa mánaðar. Helsti keppinautur hans, kaupsýslumaðurinn Martin Fayulu, ber brigður á niðurstöður kjörstjórnar og talar um „valdarán með kosningum.“
Talningu að ljúka í Austur-Kongó
Talningu atkvæða í forsetakosningum í Austur-Kongó virðist vera að ljúka. Kjörstjórn hengdi í dag upp tilkynningu í fréttamiðstöð eftirlitsnefndar með kosningunum þar sem kunngert var að bráðabirgðaúrslit verði birt síðar í dag. Það virðist þó ekki hafa gengið eftir. Kosningarnar fóru fram 30. desember. Tuttugu og einn gaf kost á sér til að taka við af Joseph Kabila, sem gegnt hefur forsetaembættinu síðustu átján ár. Endanleg úrslit eiga að liggja fyrir á þriðjudaginn kemur, 15 janúar.
09.01.2019 - 23:55
Talning atkvæða sækist seint í Austur-Kongó
Allt er enn í óvissu um hver verður eftirmaður Josephs Kabila á forsetastóli í Austur-Kongó. Kosið var fyrir átta dögum. Þrýst er á kjörstjórn landsisns að hraða talningu og birta niðurstöðuna, hvort sem hún verður valdhöfum landsins að skapi eða ekki.
07.01.2019 - 18:56
Fjórir féllu í átökum á kjörstað í Kongó
Fjórir létu lífið í átökum á kjörstað í Austur-Kongó í dag, lögreglumaður, starfsmaður kjörstjórnar og tveir almennir borgarar. AFP-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum í Suður-Kivu-héraði að til ryskinga hafi komið þegar starfsmaður á kjörstað var sakaður um að eiga við kjörgögn til að auka veg forsetaframbjóðanda ráðandi afla í landinu og skjólstæðings sitjandi forseta, Josephs Kabila. Hópur fólks utan við kjörstaðinn réðist á viðkomandi starfsmann og varð honum að bana áður en yfir lauk.
Kosið í Kongó eftir áratuga einræði
Yfir 46 milljónir manna eru á kjörskrá í Austur-Kongó, þar sem eftirmaður Josephs Kabila á forsetastóli verður kjörinn í dag, auk þingmanna á þjóðþingi landsins. Kjörstaðir voru opnaðir eldsnemma í morgun, klukkan fimm að staðartíma, og verður lokað klukkan 17, eða 16 að íslenskum tíma. Forsetakosningunum í þessu stríðshrjáða landi hefur ítrekað verið frestað, en til þeirra var fyrst boðað fyrir tveimur árum.
Varað við alvarlegum glæpum í Austur-Kongó
Fatou Bensouda, aðalsaksóknari við Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag varaði í dag við hættunni á alvarlegum glæpum í Austur-Kongó í aðdraganda forsetakosninganna þar í landi. Þær verða á sunnudaginn kemur, 23. desember. Bensouda kvaðst hafa áhyggjur af vaxandi spennu í landinu sem gæti leitt til ofbeldisverka sem kynnu að koma til kasta dómstólsins.
20.12.2018 - 13:53
Starfsmenn WHO flýja átök í Austur-Kongó
16 starfsmönnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, var tímabundið forðað úr borginni Beni í austurhluta Austur-Kongó eftir að sprengja lenti á híbýlum þeirra. Liðsmenn sameinaða lýðveldishersins, ADF, og friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna kljást á svæðinu, og segir Michel Yao, stjórnandi WHO á svæðinu, að hann viti ekki hverjir vörpuðu sprengjunni.
17.11.2018 - 23:34
198 dáin í skæðasta ebólufaraldri Austur-Kongó
Í Austur-Kongó geisar nú skæðasti ebólufaraldur sem upp hefur komið þar í landi, að sögn heilbrigðisyfirvalda. Oly Ilunga Kalenga, heilbrigðisráðherra, segir 319 staðfest eða mjög líkleg ebólu-tilfelli komin á skrá ráðuneytisins, einu fleira en þegar ebóla gaus fyrst upp í landinu árið 1976. Af þeim 319 sem hafa smitast hafa 198 dáið síðan fyrsta tilfellið greindist í ágúst síðastliðnum.
Leyfa olíuborun í þjóðgörðum í Kongó
Yfirvöld í Austur-Kongó ætla að leyfa olíuborun í tveimur þjóðgörðum eða dýraverndarsvæðum í landinu. Í öðrum þeirra, Virunga-þjóðgarðinum, er að finna mesta líffræðilega fjölbreytileika allra slíkra garða í Afríku. Í görðunum búa meðal annars afrískir gresjufílar, bónobóapar og fjallagórillur, sem eru í bráðri útrýmingarhættu. Umhverfisverndarsinnar mótmæla ákvörðun yfirvalda og segja að olíuborun muni stofna dýrunum í hættu og ýta undir hnattræna hlýnun.
01.07.2018 - 00:51
  •