
Eftirminnilegir leikir íslenska karlalandsliðsins í handbolta í gegnum tíðina. Söguleg augnablik, óvæntir sigrar og leikir sem mótuðu handboltasögu þjóðarinnar.
Eftir vonbrigði á HM 2021 voru væntingar litlar fyrir EM í Ungverjalandi, en íslenska liðið kom skemmtilega á óvart. Heimurinn var að losna undan heimsfaraldri, sem þó setti stórt strik í reikning íslenska liðsins á mótinu. Ísland fór með góða stöðu í milliriðil. Þá fór hins vegar að kvarnast verulega úr íslenska hópnum vegna Covid-smita. Fjölmarga lykilmenn vantaði þegar liðið mætti Frakklandi, þáverandi Evrópumeisturum. Ísland náði ekki einu sinni að fylla varamannabekkinn, svo illa var liðið leikið. Það gerði sigurinn á Frakklandi, stórsigur þar að auki, enn skemmtilegri. Fimmta sætið varð uppskeran af mótinu, sem var besti árangurinn frá 2014. Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson og Viktor Gísli Hallgrímsson leiddu liðið, á meðan Aron Pálmarsson, Björgvin Páll Gústavsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson sátu í einangrun vegna smithættu.