Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Sigríður Halldórsdóttir, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Viðtal okkar við Ingu Sæland, nýjan mennta- og barnamálaráðherra, í þættinum í gær vakti sterk viðbrögð. Inga dró upp dökka mynd af stöðu menntakerfisins, og boðaði róttækar breytingar. Við ræðum stöðu menntakerfisins, vandamál og úrlausnir, við þau Amalíu Björnsdóttur, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, sem var nýkomin af fundi með Ingu Sæland.
Stjórnvöld þurfa að nálgast atvinnumarkaðinn á allt annan hátt en hingað til, hætta þjónkun við valdar lykilgreinar í atvinnulífinu og taka virkari þátt í markaðsmótun, að mati Mariönu Mazzucato, prófessors í hagfræði. Kristrún Frostadóttir kveðst vera undir miklum áhrifum frá hugmyndum Mazzucato, sem var gestur á morgunfundi forsætisráðuneytisins um nýja atvinnustefnu í gær. Við ræðum við hagfræðinginn.
