Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Írski rithöfundurinn Claire Keegan er gestur í Kiljunni 30. apríl. Hún er afar vinsæll höfundur og bækur hennar hafa selst geysivel, líka hér á Íslandi. Á samkomu með Keegan á Bókmenntahátíð í Reykjavík komust færri að en vildu. Bók hennar Smáir hlutir sem þessir var nýskeð valin besta bók þessarar aldar á Írlandi. Hernán Diaz er rithöfundur, upprunninn í Argentínu, alinn upp í Svíþjóð en býr í New York. Hann ræðir við okkur um feikiskemmtilega skáldsögu sína sem heitir Trust og fékk Pulitzer-verðlaunin 2022. Njörður P. Njarðvík spjallar við okkur um tvær bækur. Önnur nefnist Ljáðu mér rödd og er eftir magnað ljóðskáld, Svíann Kjell Espmark. Njörður þýddi þetta mikla verk á íslensku. Hin er Atvik - á ferð um ævina en hún inniheldur minningabrot úr lífi Njarðar sjálfs. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Konu á buxum: Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns eftir Auði Styrkársdóttur, Skálds sögu eftir Steinunni Sigurðardóttur og smásagnasafnið Seint og um síðir eftir áðurnefnda Claire Keegan.
