Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Þrjú ár eru í dag frá innrás Rússa í Úkraínu og þjóðarleiðtogar í Evrópu fjölmenntu í tilefni þess í Kyiv í morgun. Þar á meðal var Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. Rætt var við Kristrúni í Kyiv í dag eftir fundinn. Þá rifjum við upp kynnin við Mazur-fjölskylduna sem við í Kastljósi hittum fyrst fyrir ári síðan. Þau flúðu til Íslands þegar stríðið braust út og dvöldust hér á landi í tvö ár. Þau tóku síðan ákvörðun um að snúa aftur til Úkraínu. Guðrún Sóley rifjaði upp kynnin við fjölskylduna á þessum tímamótum.
Kristilegir Demókratar unnu sigur í sögulegum þingkosningum í Þýskalandi í gær og búast má við að leiðtogi flokksins, Friedrich Merz, verði næsti kanslari. Innan Evrópuríkja eru bundnar vonir við að sterk stjórn í Þýskalandi geti verið í lykilhlutverki við að fást við þær áskoranir sem Evrópa stendur nú frammi fyrir. Farið var yfir nýafstaðnar kosningar í Þýskalandi með Ragnari Hjálmarsyni doktor í stjórnarháttum og Halldóri Guðmundssyni rithöfundi, sem báðir þekkja vel til málefna Þýskalands.
