20:05
Kiljan
Kiljan
Kiljan

Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.

Skáldið Harpa Rún Kristjánsdóttir er gestur í Kilju vikunnar. Harpa er bóndi, býr við Heklurætur, en hefur sent frá sér ljóð, skáldsögu auk þess sem hún var einn höfunda Eddu, leiksýningarinnar sem var sett upp í Þjóðleikhúsinu um jólin. Nýjasta bók hennar heitir Vandamál vina minna. Arthúr Björgvin Bollason segir okkur frá þýðingu sinni á sígildri þýskri skáldsögu, Effí Briest eftir Theodor Fontane. Við ræðum skáldið Ísak Harðarson við Andra Snæ Magnason en nýlega er komið út ljóðaúrval Ísaks sem nefnist Ró í beinum. Ísak valdi kvæðin sjálfur en Andri Snær ritar eftirmála. Í Bókum og stöðum förum við austur á Fáskrúðsfjörð á slóðir franskra Íslandssjómanna en líka hinna forkostulegu bræðra Páls og Jóns Ólafssona. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Davíð Wunderbar eftir Hákon J. Behrens, Heim fyrir myrkur eftir Evu Björg Ægisdóttur og Hold og blóð, sögu mannáts, eftir Reay Tannahill.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 40 mín.
Dagskrárliður er textaður.