Starfsemin

Klassíkin okkar í Hörpunni 2022

Ríkisútvarpið er fjölmiðill allra landsmanna. Meginhlutverk þess er að upplýsa, fræða og skemmta. Þetta þríþætta hlutverk birtist í áherslum í fréttum, menningarefni og afþreyingu í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum. RÚV miðlar texta, hljóði og myndum og sinnir öryggisþjónustu á sviði útvarps. 92% þjóðarinnar nýta sér þjónustu RÚV í hverri viku og yfir 70% nota Ríkisútvarpið á hverjum degi. Það er með því mesta sem þekkist meðal fjölmiðla í almannaþjónustu í Evrópu.

RÚV flytur fréttir í útvarpi, sjónvarpi og á vef allan sólarhringinn, alla daga ársins. Í öllum miðlum Ríkisútvarpsins er metnaðarfull og fjölbreytt dagskrá. Útvarpsrásirnar eru Rás 1 og Rás 2 auk þess sem útvarpsrásin Rondó er send út á rúv.is. Á RÚV er send út fjölbreytt sjónvarpsdagskrá og á RÚV 2 eru margvíslegar útsendingar. Á rúv.is er fréttavakt allan sólarhringinn og nær allt dagskrárefni sjónvarps og útvarps er aðgengilegt í spilara. Auðvelt er að nálgast efni RÚV í snjalltækjum með RÚV-appinu.

Dagskrársviði útvarps tilheyra annars vegar Menning og Rás 1 og hins vegar Númiðlun og Rás 2. Á báðum útvarpsrásum er lögð rík áhersla á menningarumfjöllun.

Dagskrársvið sjónvarps heldur utan um framleiðslu og kaup á sjónvarpsefni og stýrir íþróttaumfjöllun. KrakkaRÚV, með efni fyrir börn að 12 ára aldri, og UngRÚV, með efni ætlað notendum að 16 ára aldri, heyra undir dagskrársvið sjónvarps.

Fréttastofa stýrir fréttaumfjöllun í miðlum Ríkisútvarpsins og hefur samvinnu við önnur svið um miðlun frétta. RÚV English miðlar fréttum á ensku til að mæta þeim fjölda landsmanna sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál og RÚV Polski miðlar fréttum til þess stóra hóps Pólverja sem býr á Íslandi.

Markaðs- og samskiptasvið hefur með höndum kynningar- og markaðsmál, greinir notkun á miðlum RÚV og vinnur úr ábendingum frá almenningi. Stefnumótun og þróun heyra undir sviðið. Markmið sviðsins er að opna umræðu inn á við og út á við um hlutverk og dagskrá RÚV og kappkosta að hún skili sér í áherslum og stefnu fyrirtækisins.

Skrifstofustjóri á skrifstofu útvarpsstjóra sér um samskipti við opinbera hagsmunaaðila, nefndir og samtök, innanlands og erlendis og sinnir lögfræðilegum málefnum fyrir hönd RÚV.

Svið fjármála og tækni nær yfir rekstrar-, fjármála- og tæknideildir. Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins og fellur starfsemin undir lög um hlutafélög. Ársuppgjör og árshlutauppgjör fyrir sex mánuði eru birt á rúv.is. Kappkostað er að allur búnaður til framleiðslu efnis og útsendingar sé eins og best verður á kosið.  Hugbúnaðarsvið sér um rekstur og þróun á rúv.is og snjalltækjalausnum svo sem RÚV appinu.

Mannauðsdeild vinnur markvisst að því að skapa gott starfsumhverfi hjá RÚV þar sem vellíðan og starfsánægja er í forgrunni.

Framleiðslusvið fer með rekstur mynd- og hljóðvera RÚV, jafnt fyrir verkefni RÚV sem utanaðkomandi framleiðenda. Undir framleiðslusvið heyrir tæknifólk, myndatökufólk, framleiðendur, grafík, förðun, búningadeild, smíðaverkstæði, leikmunir og leikmynd. Sviðið miðar að því að vera ávallt í fremstu röð hvað varðar þekkingu, tækni og mannskap.

Safnadeild RÚV sér til þess að hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar séu aðgengilegar almenningi. RÚV leggur sérstaka rækt við íslenska tungu, sögu þjóðar, menningararfleifð og tengsl við almenning. Með varðveislu alls dagskrárefnis er stöðugt verið að skrásetja samtímasögu Íslands í hljóði og mynd enda er saga Ríkisútvarpsins samofin sögu lands og þjóðar.

RÚV sala er dótturfélag Ríkisútvarpsins. Félagið heldur utan um tekjuöflun RÚV, svo sem sölu á auglýsingum, útleigu á húsnæði og búnaði, sölu á safnaefni og sölu á dagskrárefni innanlands og utan. 

Starfsstöðvar RÚV eru í Útvarpshúsinu við Efstaleiti 1 í Reykjavík, Hólabraut 13 á Akureyri, Borgarbraut 54 í Borgarnesi, Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum og Aðalstræti 20 á Ísafirði.

Miðlarnir

Tónaflóð Rásar 2 á Arnarhóli 2022

RÚV – sjónvarpið okkar

RÚV er sjónvarpsstöð í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk stöðvarinnar er að upplýsa, fræða og skemmta áhorfendum á öllum aldri. Innlend dagskrá er í öndvegi, nýir þættir, leikið efni, fræðsla, fréttir, umræða, leikuppfærslur, íþróttir, kvikmyndir, heimildamyndir og stuttmyndir. Að auki er í boði sérvalið erlent efni og yngstu áhorfendurnir fá alls uppbyggjandi og skemmtilegt efni við sitt hæfi, íslenskt eða talsett á íslensku.  RÚV er  mikilvægur þátttakandi í íslensku menningarlífi, vettvangur fyrir metnaðarfulla og fjölbreytta nýsköpun í dagskrárgerð, leiðandi í efnistökum og gæðum, veita afþreyingu og vera gluggi að erlendri menningu og málefnum.

RÚV2 - þegar mikið liggur við

RÚV2 er aukarás Ríkisútvarpsins og viðburðasjónvarpsstöð. Ekki er boðið upp á samfellda dagskrá heldur er stöðin nýtt sem viðbót við aðalrás Ríkisútvarpsins, RÚV. Þar er einkum boðið upp á beinar útsendingar og upptökur frá markverðum menningar- og íþróttaviðburðum, innlendum sem erlendum.

Rás 1 - við viljum vekja forvitni ykkar

Rás 1 endurómar lífið í landinu, heimsbókmenntirnar, listirnar, vísindi og fræði í sögu, samtíð og framtíð. Rás 1 er ekkert óviðkomandi. Á Rás 1 geta hlustendur leyft sér að gleyma erli hversdagsins. Hlustendum er boðið í ævintýraferð, þeir heyra sögur af áhugaverðu fólki, fréttir og umræður um menn og málefni af ýmsu tagi, hlýða á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða fara í leikhús.

Rás 2 - við látum ykkur vita hvað er að gerast

Íslensk tónlist er hjartað í Rás 2. Meginhlutverk hennar er að fylgjast með og sinna íslenskri tónlist, spila hana, kynna hana og fjalla um hana. En það er ekki bara hjartað sem heldur okkur á lífi. Yfirlýst markmið RÚV er að upplýsa, fræða og skemmta. RÁS 2 hefur frá upphafi verið mjög öflugt dægurmálaútvarp, útvarp með puttann á púlsinum í dægurmálum, menningu og þjóðmálaumræðu.

Rondó - sígild tónlist allan sólarhringinn

Rondó er alsjálfvirk útvarpsstöð fyrir þá sem vilja láta koma sér á óvart með sígildri tónlist heimsins.

RÚV.is - þegar þú vilt, þar sem þú vilt

RÚV.IS er ekkert mannlegt óviðkomandi. Vefur RÚV er suðupottur, þar stöndum við fréttavaktina allan sólarhringinn og miðlum miklu magni úrvalsefnis allan sólarhringinn, alla daga ársins. Fréttir, menning, mannlif og skemmtiefni, allt sem máli skiptir og nýjustu fréttir þegar þú vilt.  Á vef leitumst við við að mæta ólíkum þörfum notenda, hvort sem er með línulegri dagskrá eða þegar notendum hentar. Vefspilarinn á RÚV.IS og RÚV-appið eru einföld leið til að hlusta og horfa á það sem þú vilt, þar sem þú vilt, þegar þú vilt. Í RÚV-appi bætast meira en 400 upptökur úr útvarpi og sjónvarpi vikulega.

 

Fréttaþjónusta

Mynd með færslu

Fréttastofa RÚV flytur fréttir í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum allan sólarhringinn alla daga ársins og færir landsmönnum nýjustu  tíðindi og fréttaskýringar af innlendum sem erlendum vettvangi.

Fréttaþjónusta RÚV er sjálfstæð, áreiðanleg, almenn og hlutlæg. Hún er vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða. Vandaðir sjónvarpsfréttatímar og veðurfréttatímar eru daglega en fjóra daga vikunnar eru þeir tveir dag á dag.  Þá eru daglega táknmálsfréttir í sjónvarpi.  Útvarpsfréttatímar í beinni útsendingu eru 16-17 talsins hvern dag auk veðurfrétta sem fluttar eru fimm sinnum á dag.  Fréttamenn eru á vakt allan sólarhringinn og uppfæra vefinn RÚV.IS með því allra nýjasta hverju sinni.  Þá er boðið upp á fréttaskýringarþætti þar sem kafað dýpra í mál líðandi stundar.  Önnur föst verkefni fréttastofunnar eru fréttaannálar í útvarpi og sjónvarpi. Beinar útsendingar frá stefnuræðu forsætisráðherra, eldhúsdagsumræðum á Alþingi sem og frá setningu Alþingis auk umfjöllunar um kosningar til sveitarstjórnar, Alþingis og forseta Íslands.  Fréttastofa RÚV er hluti af almannavörnum og sinnir mikilvægri öryggisþjónustu vegna jarðhræringa, veðurs, ófærðar og annarra stóratburða. Fer fyrirvaralaust í útvarps- og sjónvarpsútsendingar er almannahagsmunir liggja við. 

 

Aðgengismál

Mynd með færslu

Ríkisútvarpið tekur það hlutverk sitt alvarlega að veita heyrnar- og sjónskertum víðtæka þjónustu jafnt við miðlun menningar og upplýsinga er varða allan almenning og stuðla að því að heyrnar- og sjónskertir fái upplýsingar og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Okkar metnaðarmál er að sinna öllum landsmönnum eins vel og kostur er og leitum sífellt nýrra og betri leiða til að tryggja það.

Allt fyrirfram unnið dagskrárefni Ríkisútvarpsins, íslenskt sem erlent, er sent út með texta. Texti með innlendu efni er birtur á síðu 888 í textavarpinu. Kvöldfréttir kl. 19 og íþróttir að þeim loknum eru sendar út með skjátexta. Innlendir þættir sem ekki næst að texta fyrir frumsýningu eða sýndir eru í beinni útsendingu eru textaðir fyrir endursýningu. Allt erlent efni, jafnt fréttir sem fróðleikur og afþreying, er þýtt og sent út með íslenskum texta, nema í fáeinum tilvikum þegar erlent efni er sýnt í beinni útsendingu. Markmiðið er að auka þessa þjónustu enn frekar.  

Sem fyrr flytur RÚV daglega fréttir á táknmáli og þær eru jafnframt aðgengilegar í Vefspilaranum á rúv.is. RÚV er eina íslenska fréttaveitan sem býður upp á sjónvarpsfréttir ætlaðar heyrnarlausum. Þegar flytja þarf fréttir af náttúruhamförum sem snerta alla landsmenn er kallaður til rittúlkur sem og þegar túlka þarf lengri viðtöl og annað efni í beinni útsendingu. Í aðdraganda kosninga er rittúlkur nýttur eftir föngum.

Með endurbættum vef er lögð áhersla á að greina frá efni þátta í öllum miðlum RÚV svo aðgengi heyrnarskertra að útvarpsþáttum eykst. Þar er líka gott aðgengi að fréttum og fréttavakt allan sólarhringinn. Vefurinn er aðgengilegur skjálesurum sem blindir og sjónskertir nota. Íslensk vefþula er einnig í boði á vefnum en hún les upphátt allan texta. RÚV.is er jafnframt hannaður í samvinnu við aðgengissérfræðinga.

Ríkisútvarpið kappkostar að sinna aðgengismálum eftir bestu getu og því tökum við öllum ábendingum fagnandi hvað þetta varðar. 

Ný aðgengisstefna RÚV var kynnt í mars 2022 og má nálgast hér.

RÚV utan Reykjavíkur

Mynd með færslu

RÚV rekur öfluga starfsemi út um land allt. Höfuðstöðvarnar á landsbyggðinni er á Akureyri þar sem fréttum og dagskrárgerð í sjónvarpi, útvarpi og vef er sinnt. RÚV hefur einnig fréttamenn á Vestfjörðum, Vesturlandi, Austurlandi og Suðurlandi.

Öflug fréttaþjónusta af landsbyggðinni er ein sérstaða RÚV og er lögð mikil áhersla á trausta og góða þjónustu við áhorfendur og hlustendur. Öryggis- og almannavarnarhlutverk RÚV spilar þar stóran þátt. Oftast er sjónum beint að viðkomandi landssvæði, með beinum útsendingum, fréttum, fréttaskýringum eða þáttum, en einnig málum sem varða landið allt.

Jafnlaunastefna

RÚV ohf. starfar í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Jafnréttisáætlun er staðfest af Jafnréttisstofu til þriggja ára í senn og felur í sér markmið og aðgerðir í jafnréttisstarfi innan RÚV. Launaákvarðanir byggja á málefnalegum forsendum og greiða skal sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Laun taka mið af eðli verkefna, kjarasamningum, ábyrgð, menntun, starfsreynslu, persónulegri hæfni og frammistöðu í starfi. Stjórnendur bera ábyrgð á að rýna laun mánaðarlega með tilliti til jafnlaunasjónarmiða.

RÚV ohf. hlaut jafnlaunavottun þann 15. febrúar 2019 og hefur hlotið viðhaldsvottun árlega síðan, þar sem vottað hefur verið að jafnlaunakerfi RÚV uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Umfang jafnlaunakerfisins lýtur að öllum starfsmönnum RÚV og vottunaraðgerðir snúa því að allri starfsemi félagsins.

Ákvarðanir um laun eru teknar í samræmi við ferli um launaákvarðanir sem er verklagsregla í jafnlaunakerfi. Jafnlaunastefnan felur í sér skuldbindingu um stöðugar umbætur, eftirlit og viðbrögð. Jafnlaunamarkmið RÚV eru endurskoðuð árlega í samræmi við niðurstöður launagreiningar. Jafnlaunagreining er gerð á launum alls starfsfólks tvisvar á ári þar sem greindur er leiðréttur og óleiðréttur launamunur mánaðarlauna annars vegar og heildarlauna hins vegar. Brugðist er við niðurstöðum með umbótum eftir þörfum en umbótastarf í tengslum við rekstur jafnlaunakerfis er stöðugt allt árið um kring.

 

25. október 2021

Persónuverndaryfirlýsing RÚV

Ríkisútvarpið ohf., Efstaleiti 1, 103 Reykjavík („RÚV“) hefur einsett sér að tryggja í hvívetna áreiðanleika, trúnað og öryggi allra persónuupplýsinga sem unnið er með á vegum þess.

Hjá RÚV er unnið með persónuupplýsingar í tengslum við fréttaþjónustu og dagskrárgerð, unnið er með persónuupplýsingar starfsmanna og umsækjanda um störf auk þess sem unnið er með tengiliðaupplýsingar samstarfsaðila, birgja og viðskiptavina RÚV.

Í yfirlýsingu þessari er því lýst hvernig RÚV vinnur með persónuupplýsingar. Um vinnslu á persónuupplýsingum starfsmanna er þó fjallað í sérstakri persónuverndaryfirlýsingu.

Öll vinnsla RÚV á persónuupplýsingum fer fram á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“), en lögin eiga þó aðeins að takmörkuðu leyti við um þá vinnslu sem fer fram í þágu fréttamennsku og bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi RÚV.

Ef þú hefur spurningar varðandi yfirlýsingu þessa eða vinnslu RÚV á persónuupplýsingum er þér bent á að hafa samband við persónuverndarfulltrúa RÚV, sbr. 6. gr. í yfirlýsingu þessari.

1. Persónuupplýsingar og grundvöllur vinnslu

Fréttaflutningur og dagskrárgerð

RÚV er útvarp allra landsmanna og er meginmarkmið þess að upplýsa, fræða og skemmta. Þetta þríþætta hlutverk kemur fram í áherslum í fréttum, menningarefni og afþreyingu í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum RÚV.

Unnið er með umtalsvert magn persónuupplýsinga í tengslum við fréttaflutning og dagskrárgerð, þ.á m. persónuupplýsingar viðmælenda, heimildarmanna og þeirra einstaklinga sem eru viðfangsefni fréttaflutnings hverju sinni.

RÚV leggur áherslu á að unnið sé slíkar upplýsingar í samræmi við meginreglur persónuverndarlaga. Þannig er gætt að áreiðanleika upplýsinganna, sanngirnis er gætt við vinnslu og ekki er unnið með meiri upplýsingar en þörf er á.

Samstarfsaðilar, viðskiptavinir og birgjar

RÚV vinnur með tengiliðaupplýsingar samstarfsaðila, viðskiptavina (s.s. auglýsenda) og birgja sem og tengiliðaupplýsingar forsvarsmanna slíkra aðila. Þá er jafnframt haldið utan um samskiptasögu. Vinnsla þessi er nauðsynleg á grundvelli samnings RÚV við umrædda aðila.

Samstarfsaðilar, viðskiptavinir og birgjar

RÚV vinnur með tengiliðaupplýsingar samstarfsaðila, viðskiptavina (s.s. auglýsenda) og birgja sem og tengiliðaupplýsingar forsvarsmanna slíkra aðila. Þá er jafnframt haldið utan um samskiptasögu. Vinnsla þessi er nauðsynleg á grundvelli samnings RÚV við umrædda aðila.

Gestir í húsnæði RÚV

Öllum gestum sem heimsækja húsnæði RÚV ber að skrá sig inn með því að gefa upp nafn sitt, símanúmer (valkvætt) og vinnustað (valkvætt). Með þessar upplýsingar er unnið á grundvelli lögmætra hagsmuna RÚV en mikilvægt er fyrir RÚV að geta tryggt yfirsýn yfir þá sem eru í húsinu hverju sinni í öryggis- og eignavörsluskyni.

Rafræn vöktun í húsnæði RÚV

Í húsnæði RÚV fer fram rafrænt myndavélaeftirlit, þ.á m. við innganga í húsnæðið. Þau svæði sem eru vöktuð eru sérstaklega merkt með þar til gerðum merkingum. Umrædd vöktun fer fram á grundvelli lögmætra hagsmuna RÚV í eigna- og öryggisvörsluskyni.

Notkun á vefsíðu og smáforritum RÚV

Svokölluð fótspor (e. cookies) eru notuð til að telja heimsóknir á vefinn. Það er stefna RÚV að nota fótspor sparlega og með ábyrgum hætti. Notendur geta stillt vafra sína þannig að þeir láti vita af fótsporum eða hafni þeim með öllu.

RÚV notar Google Analytics til vefmælinga. Við hverja komu eru nokkur atriði skráð, svo sem tími og dagsetning, leitarorð, frá hvaða vef er komið og gerð vafra og stýrikerfis. Þessar upplýsingar notar RÚV við endurbætur á vefnum og þróun hans.

RÚV notar Firebase Analytics til að safna tölulegum upplýsingum um spilun á efni í smáforritum RÚV, að undanskildu KrakkaRÚV smáforritinu sem ætlað er börnum. Allar upplýsingar eru þó ópersónugreinanlegar og tímabundnar.

RÚV notar Sentry til að safna upplýsingum um villur við spilun á efni, að undanskildu KrakkaRÚV smáforritinu sem ætlað er börnum. Allar upplýsingar eru þó ópersónugreinanlegar og tímabundnar.

Hér fyrir neðan má nálgast yfirlit yfir þau fótspor sem notuð eru í smáforritum RÚV og þau fótspor sem vefsvæði RÚV notast við auk þess sem leiðbeint er um það hvernig hægt er að slökkva á umræddum fótsporum.

Ábendingar og skilaboð í gegnum vefsíðu RÚV

Á vefsíðu RÚV er hægt að koma að ábendingum og skilaboðum til starfsmanna og einstakra deilda. RÚV óskar eftir nafni og netfangi þeirra sem vilja koma að slíkum ábendingum og skilaboðum þannig að hægt sé svara erindinu. Vinnslan fer því fram á grundvelli lögmætra hagsmuna RÚV. Í tengslum við formleg erindi til RÚV eða siðanefndar er jafnframt óskað eftir kennitölu, auk nafns og netfangs, en unnið er með slík erindi í samræmi við reglur siðanefndar sem nálgast má hér.

Umsóknir, pantanir á efni úr safni RÚV og innsend tónlist

Þegar RÚV auglýsir eftir umsóknum, s.s. innsendum lögum í Söngvakeppnina, er það oftar en ekki gert í gegnum Mitt RÚV. Til þess að stofna aðgang á Mínu RÚV er óskað eftir nafni, símanúmeri, netfangi og heimilisfangi. Þá þurfa notendur að auðkenna sig og í tengslum við slíka auðkenningu er unnið með nafn viðkomandi og kennitölu.

Í tengslum við aðrar umsóknir, s.s. í Tónskáldasjóð, er unnið með nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang auk ferilskrár og annað það efni sem umsækjendur kjósa að afhenda með umsókn sinni.

Í gegnum RÚV vefinn er jafnframt hægt að panta efni úr safni RÚV. Í tengslum við slíkar beiðnir er unnið með efni beiðninnar auk nafns, kennitölu, netfangs og símanúmers þess sem óskar eftir efninu,í þeim tilgangi að afgreiða beiðni og svara erindinu.

Umsækjendur um störf hjá RÚV

RÚV vinnur með ýmsar persónuupplýsingar um umsækjendur. Ólíkum persónuupplýsingum kann að vera safnað fyrir mismunandi störf og kann vinnsla og söfnun því að fara eftir eðli starfs.

Í tengslum við öll störf vinnur RÚV með tengiliðaupplýsingar umsækjenda, s.s. nafn, kennitölu, netfang og símanúmer. Þá vinnur RÚV með upplýsingar um menntun og starfsreynslu, tungumála- og tölvukunnáttu auk annarra upplýsinga sem umsækjendur velja að afhenda með umsókn sinni. 

Í tengslum við ákveðin störf, þ.á m. stöðu fréttamanna, mun RÚV jafnframt vinna með úrlausn fréttamannaprófa og eftir atvikum prófa um íslenskt mál og málefni líðandi stundar hvað varðar þá umsækjendur sem komast áfram í valferli. Komist umsækjandi áfram í viðtal vinnur RÚV jafnframt með þær upplýsingar sem fram koma um umsækjanda í því viðtali og eftir atvikum frá meðmælendum.

Þá kann RÚV jafnframt að gera þá kröfu að umsækjendur sem fá boð um starf hjá RÚV skili inn afriti af sakavottorði. Slík vinnsla byggir á lögmætum hagsmunum RÚV, til að tryggja öryggi á vinnustað, og eftir atvikum samþykki umsækjenda. 

Að meginstefnu aflar RÚV persónuupplýsinga beint frá umsækjendum, ef frá eru taldar upplýsingar frá meðmælendum. 

Vinnsla persónuupplýsinga umsækjenda er nauðsynleg svo RÚV geti lagt mat á umsókn og valið hæfasta umsækjandann til að gegna viðkomandi starfi. Vinnslan er því nauðsynleg í því skyni að gera ráðstafanir að beiðni umsækjenda áður en samningur er gerður. 

Sérstök athygli er vakin á því að RÚV ber lagaskylda til að varðveita umsóknir umsækjenda og afhenda Þjóðskjalasafni, sbr. 4. gr. í þessari yfirlýsingu.

Þá er sérstök athygli jafnframt vakin á því að RÚV kann að áskilja sér rétt í tengslum við ráðningar í ákveðnar stjórnunarstöður að birta lista yfir umsækjendur.

2. Miðlun til þriðju aðila

RÚV kann að veita þriðju aðilum sem veita RÚV upplýsingatækniþjónustu og/eða aðra þjónustu sem tengist vinnslu og er hluti af rekstri RÚV aðgang að persónuupplýsingum þeim sem unnið er með, s.s. hýsingaraðila. 

Þessir aðilar kunna að vera staðsettir utan Íslands. RÚV mun þó ekki miðla persónuupplýsingum utan Evrópska efnahagssvæðisins nema slíkt sé heimilt á grundvelli viðeigandi persónuverndarlöggjafar, s.s. á grundvelli staðlaðra samningsskilmála, samþykki viðkomandi einstaklings eða auglýsingar Persónuverndar um ríki sem veita persónuupplýsingum fullnægjandi vernd.

Komi til innheimtuaðgerða vegna kröfu RÚV kann jafnframt að þurfa að miðla persónuupplýsingum til innheimtuaðila. 

Persónuupplýsingar kunna jafnframt að vera afhentar þriðja aðila að því marki sem heimilað er eða krafist er á grundvelli viðeigandi laga eða reglna eða til að bregðast við löglegum aðgerðum eins og húsleitum, stefnum eða dómsúrskurði.

Á grundvelli lagaskyldu er RÚV þannig t.a.m. skylt að skila upplýsingum til Þjóðskjalasafns, sbr. 4. gr. í yfirlýsingu þessari.

Ef ákvörðun er tekin um að birta lista yfir umsækjendur þá þyrfti að byggja það á lögmætum hagsmunum RÚV og láta viðkomandi umsækjendur vita áður en slík birting fer fram (í auglýsingu um starf). Ekki er hægt að byggja þá vinnslu á samþykki ef viðkomandi umsækjendur þurfa annað hvort að veita samþykki eða draga umsókn sína til baka. Þá væri í raun um þvingað samþykki að ræða skv. lögunum sem ekki er gilt.

3. Hvernig er öryggi upplýsinganna tryggt?

RÚV leitast við að grípa til viðeigandi tæknilegra og skipulegra ráðstafana til að vernda persónuupplýsingar með sérstöku tilliti til eðlis þeirra. Þessum ráðstöfunum er ætlað að vernda persónuupplýsingar gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi, afritun, notkun eða miðlun þeirra. Dæmi um öryggisráðstafanir sem RÚV grípur til eru aðgangsstýringar í kerfum félagsins.

Þá stuðlar RÚV að virkri öryggisvitund starfsmanna með viðeigandi fræðslu og þjálfun varðandi öryggi við vinnslu persónuupplýsinga.

4. Varðveisla á persónuupplýsingum

Þar sem RÚV er afhendingarskyldur aðili á grundvelli laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn er RÚV óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali sem fellur undir gildissvið laganna, nema með heimild þjóðskjalavarðar.

Almennt eru þær persónuupplýsingar sem RÚV vinnur því afhentar Þjóðskjalasafni að þrjátíu árum liðnum.

5. Réttindi þín hvað varðar þær persónuupplýsingar sem RÚV vinnur

Á grundvelli persónuverndarlaga kunna þeir einstaklingar sem RÚV vinnur persónuupplýsingar um að eiga ákveðin réttindi til aðgangs og eftir atvikum til afrits að þeim persónuupplýsingum sem RÚV vinnur. Við ákveðnar aðstæður eiga viðkomandi aðilar jafnframt rétt til að óska eftir því að persónuupplýsingum þeirra verði eytt, upplýsingarnar leiðréttar eða vinnsla þeirra takmörkuð. Þá kann jafnframt að vera til staðar réttur til að fá afrit af upplýsingum sem viðkomandi hefur sent RÚV á tölvutæku formi og eftir atvikum að RÚV sendi þær upplýsingar á þriðja aðila.

Þessi réttindi eru þó ekki fortakslaus. Réttindin eiga þannig ekki við um þá vinnslu er tengist fréttamennsku og bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi RÚV. Þá hvílir sú lagaskylda á RÚV að varðveita persónuupplýsingar á grundvelli laga um opinber skjalasöfn. Sú skylda gerir það að verkum að í mörgum tilvikum er RÚV ómögulegt að verða við eyðingarbeiðni. Þá kunna önnur lög eða réttindi þriðja aðila að takmarka rétt þeirra einstaklinga sem óska eftir að nýta umrædd réttindi.

Í þeim tilvikum er vinnsla RÚV byggir á samþykki getur sá sem samþykkið veitti alltaf afturkallað það.

Ef þú vilt nýta þér ofangreind réttindi er þér bent á að hafa samband við persónuverndarfulltrúa RÚV, sbr. 6. gr. í yfirlýsingu þessari.

6. Persónuverndarfulltrúi RÚV

Persónuverndarfulltrúi RÚV er Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður. Hægt er að hafa samband við hana með því að senda tölvupóst á netfangið personuvernd[hja]ruv.is eða hafa samband í síma 5400300.

Persónuverndarfulltrúi tekur á móti fyrirspurnum og beiðnum frá þeim einstaklingum sem verið er að vinna með upplýsingar um, auk þess að ráðleggja RÚV um vinnslu persónuupplýsinga og gegna því hlutverki að vera tengiliður við Persónuvernd.

7. Réttur til að kvarta til Persónuverndar

Ef að þú ert ósátt/ur við vinnslu RÚV á persónuupplýsingum getur þú sent erindi til Persónuverndar (www.personuvernd.is).

8. Endurskoðun

RÚV getur frá einum tíma til annars breytt persónuverndaryfirlýsingu þessari í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum eða reglugerðum eða vegna breytinga á því hvernig unnið er með persónuupplýsingar.

Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á yfirlýsingunni taka gildi eftir að uppfærð útgáfa hefur verið birt á vefsíðu RÚV.

Vafrakökur á vefsvæði RÚV

Heiti Lén Gildistími Tilgangur Ítarefni

__cfduid

.ruv.is

1 ár frá heimsókn

Notað af efnisveitunni CloudFlare til að greina trausta netumferð. Tengist engu persónugreinanlegu auðkenni.

Nánari upplýsingar í hjálpargrunni CloudFlare

Heiti Lén Gildistími Tilgangur Ítarefni
UID .scorecardresearch.com 2 ár frá heimsókn Þessar vafrakökur safna gögnum um notkun þína á vefsvæðinu. Gögnin eru send til comScore til greiningar í því skyni að bæta þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Nánari upplýsingar um notkun comScore á þessum gögnum er að finna í persónuverndarstefnu ScorecardResearch. Hér getur þú afþakkað þátttöku í vefgreiningu ScorecardResearch
UIDR .scorecardresearch.com 2 ár frá heimsókn
Heiti Lén Gildistími Tilgangur Ítarefni
_ga .ruv.is 2 ár frá heimsókn Þessar vafrakökur geyma einkvæmt auðkenni sem er notað til að safna tölulegum upplýsingum um notkun á vefsvæðinu. Nánari upplýsingar um Google Analytics og notkun Google á vafrakökum má finna á upplýsingasíðu Google um persónuvernd skilmála. Hægt er að afþakka þátttöku í Google Analytics með því að setja upp vafraviðbót frá Google
_gid .ruv.is 1 dagur frá heimsókn
Heiti Lén Gildistími Tilgangur Ítarefni
IDE .doubleclick.net 2 ár frá heimsókn Notað til að tengja heimsókn á vefsvæðið við lýðfræðilegar upplýsingar ef þær eru fyrir hendi. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru tengdar heimsókninni. Nánari upplýsingar um vafrakökur frá DoubleClick má finna í hjálpargrunni þjónustunnar hér
Heiti Lén Gildistími Tilgangur Ítarefni
_parsely_visitor .ruv.is 2 ár frá heimsókn Nafnlaust og ópersónugreinanlegt auðkenni gests á vefsvæðinu. Nánari upplýsingar fást í persónuverndarstefnu Parse.ly þar sem einnig má finna tengil til að afþakka þátttöku í vefgreiningarþjónustu þeirra hér
_parsely_session .ruv.is 30 mínútur frá heimsókn Tengir stakar aðgerðir á vefsvæðinu við nafnlaust auðkenni gests yfir vafralotuna.
_parsely_network_uuid .config.parsely.com Ótakmarkaðar Notað fyrir samansafn nafnlausra tölfræðiupplýsinga fyrir samanburð við önnur vefsvæði.
Heiti Stýrikerfi Gildistími Tilgangur Ítarefni
Firebase Analytics Android og iOS 2 ár frá söfnun Innsend gögn geyma auðkenni sem er notað til að safna tölulegum upplýsingum um spilun á efni. Nánari upplýsingar um Firebase Analytics og notkun Google á upplýsingum sem koma frá forritum sem nýta þeirra þjónustur má finna á upplýsingasíðu Google um persónuvernd.
Sentry
Heiti Stýrikerfi Gildistími Tilgangur Ítarefni
Sentry Android og iOS 2 ár frá söfnun RÚV notar Sentry til að safna upplýsingum um villur við spilun á efni, að undanskildu KrakkaRÚV smáforritinu sem ætlað er börnum. Allar upplýsingar eru þó ópersónugreinanlegar og tímabundnar.  

Síðast uppfært 4. september 2020