Vill fá vopnaðan lífvörð - telur lífi sínu ógnað

Tíst sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, þar sem hann kallaði COVID-19 „Kína-flensuna“, vakti nokkur viðbrögð í vikunni. Sendiherrann, Jeffrey Ross Gunter, telur lífi sínu ógnað á Íslandi og vill fá vopnaða lífverði.

Vill fá vopnaðan lífvörð - telur lífi sínu ógnað

Í byrjun árs 2020 auglýsti bandaríska sendiráðið ítrekað eftir „bodyguard“ í íslenskum dagblöðum.  Undanfarin ár hafa íslenskir öryggisverðir staðið vörð um sendiráðsbygginguna á Laufásveginum, vopnlausir og alla jafna á vegum  Securitas. Kveikur spurðist fyrir um hvort þarna væri einfaldlega verið  að skipta um titil á öryggisvörðunum og fékk þau svör að svo væri ekki.

Sendiráð Bandaríkjanna auglýsti ítrekað eftir „Bodyguard“ í byrjun árs 2020

Telur sér ógnað á Íslandi

Samkvæmt heimildum Kveiks er meginástæða þess að nokkur störf  lífvarða voru auglýst sú að Gunter sendiherra telur lífi sínu ógnað á  Íslandi. Kveikur hefur rætt við heimildarmenn á Íslandi og erlendis sem  segja sendiherrann sannfærðan um að hann sé í mikilli hættu og ástæðan  sé sú að hann sé gyðingur. Hver ógnin er, er ekki jafnljóst, en viðmælendur Kveiks sögðu að íslamskir hryðjuverkamenn hefðu verið nefndir sem ógn.

Frekari eftirgrennslan Kveiks reyndist nokkuð örðug, þar sem enginn sem þekkti til málsins, hvort sem er innan lands eða utan, vildi láta nokkuð eftir sér hafa. Kveikur sendi bandaríska utanríkisráðuneytinu í Washington spurningalista í von um frekari upplýsingar, meðal annars um ógnina en jafnframt hvort haft hefði verið samband við íslensk  stjórnvöld vegna málsins, hvort lífverðirnir ættu að ganga vopnaðir um  og fleira.

Eftir nokkurra mánaða eltingarleik barst stuttaraleg yfirlýsing í gegnum sendiráðið í Reykjavík við fjórtán spurningum Kveiks:

„Það er almenn stefna bandarískra stjórnvalda að ræða ekki sértæk  öryggismál sem snúa að sendiráðum eða starfsfólki þeirra. Öll  öryggisgæsla utan veggja sendiráðsins er í samræmi við lög gistiríkisins. Nú, þegar flutningar í nýja sendiráðsbyggingu standa  fyrir dyrum, er verið að aðlaga vinnulagið að viðmiðum utanríkisráðuneytisins. Lífverðir eru til staðar í flestum sendiráðum  Bandaríkjanna víðsvegar um heim“.

Fréttamaður CBS í Washington hefur einnig verið að kanna málefni sendiherrans og fékk skrifleg svör á sömu nótum.

Samkvæmt heimildum Kveiks hefur ekki borist formlegt erindi frá  sendiráði Bandaríkjanna vegna þessara breytinga. Hvorki hefur verið  óskað formlega eftir aukinni gæslu né hefur formlega verið óskað eftir  heimild til að lífverðir gangi vopnaðir um utan veggja sendiráðsins.  Íslensk lög eru afgerandi um að slíkt er ekki heimilt nema með sérstakri  heimild frá Ríkislögreglustjóra.

Viðmælendur Kveiks innan stjórnkerfisins segja engar upplýsingar  liggja fyrir um nokkurs konar ógn. Nýjasta hættumat Ríkislögreglustjóra  er nokkuð afgerandi um hryðjuverkaógnir. Engin dæmi séu um hryðjuverk á  Íslandi og engar vísbendingar um að hryðjuverka- eða öfgahópar starfi  hér. Forsendur fyrir því að heimila vopnaburð lífvarða erlends sendiráðs  á götum borga og bæja á Íslandi eru því, samkvæmt heimildum Kveiks, ekki  til staðar.

Heimildarmenn CBS segja sendiherrann ofsóknarbrjálaðan, krefjist þess  að fá að bera sjálfur vopn, að fá stunguhelt vesti og vopnaða fylgd auk skotheldrar bifreiðar. Samkvæmt heimildum CBS hefur Gunter ítrekað  verið sagt að engin ógn sé til staðar og að auglýsingin eftir  „bodyguard“ sé einungis til að sefa Gunter. Samkvæmt heimildum Kveiks var ekki búið að ráða í stöðurnar í júnílok, en umsóknarfrestur rann út í  febrúar.

Í umfjöllun CBS er sendiherrann sagður vænisjúkur

Það vekur einnig athygli að utanríkisráðuneytið í Washington hefur  ekki gefið út neina ferðaviðvörun vegna yfirvofandi ógnar á Íslandi, en  slíkt er ávallt gert sé talið að raunveruleg ógn sé fyrir hendi. Það er  þó hugsanlegt að hótun eða ógn hafi verið bundin við sendiherrann og  enga aðra.

Þá er ljóst að innan íslenska stjórnkerfisins er vitneskja um málið  og unnið í að meta það, þótt ekki liggi fyrir nein formleg ósk eða erindi þess efnis frá bandarískum stjórnvöldum.

Semur illa við samstarfsmenn

En Gunter sendiherra hefur ekki einungis áhyggjur af ógninni utan sendiráðsins, heldur líka innan þess. Gunter er ákafur stuðningsmaður  Trumps forseta og pólitískt skipaður í sendiherraembættið. Áður var hann  húðsjúkdómalæknir í Kaliforníu.

Samkvæmt heimildum Kveiks er Gunter sannfærður um að margir  starfsmenn sendiráðsins séu hluti „djúpríkisins“, hópi sem Trump vísar  oft til og segir róa öllum árum gegn sér og stefnu sinni. Gunther, sem  kom til starfa á Íslandi fyrir réttu ári, hefur síðan krafist þess að  þremur staðgenglum sendiherra, næst-æðstu starfsmönnum sendiráðsins á  eftir honum, sé vikið úr starfi. Hann hefur sent hvern á fætur öðrum  heim. Sá fyrsti, sem hafði búið sig undir starfið í ár og m.a. lagt  stund á íslenskunám, var stöðvaður áður en hann kom til Íslands, þar sem  Gunter leyst ekki á hann, samkvæmt frétt CBS.

Samkvæmt svörum sem fréttamaður CBS fékk, hafa að auki verið sendir  til Íslands fjórir tímabundnir staðgenglar, sem Gunter vildi ekki heldur  að yrðu hafðir áfram í starfi. Alls hafa því sjö staðgenglar sendiherra  verið á Íslandi síðan í maí 2019.

Þessi háa starfsmannavelta hefur vakið athygli í Washington og  skapaði nokkurn vanda í byrjun árs, eftir að Gunter fór á sendiherra  ráðstefnu í Washington í febrúar og þaðan í frí í Kaliforníu. Þegar  COVID-19 kom upp var sendiráðið í Reykjavík fámennt og sendiherra ekki á staðnum. Hann sneri ekki aftur fyrr en nokkrum mánuðum seinna, í maí, og opinber skýring er sú að faraldurinn hafi hamlað för. CBS hefur  heimildir fyrir því að hið rétta sé að Gunter hafi neitað að snúa aftur  til starfa í sendiráðinu fyrr en að Mike Pompeo, utanríkisráðherra, hefði samband persónulega. Og um miðjan maí var svo komið að Pompeo hringdi í Gunter og sagði honum að mæta í vinnuna.

Þegar CBS óskaði svara við því hvort Pompeo bæri enn traust til sendiherrans á Íslandi, bárust engin svör.

Í yfirlýsingu frá Gunther sendiherra segir að það sé helsta verkefni sendiráðsins að styrkja tvíhliða samskipti Bandaríkjanna og Íslands. Það sé honum heiður að leiða það verkefni á tímum gagnkvæmrar virðingar og þakklætis. Í yfirlýsingunni er ekkert komið inn á efnisatriði þessarar umfjöllunar.