„Það er ekki mitt hlutverk að vera með skoðun“

„Ég sit með fólki í hreppnum sem er fylgjandi virkjun og já, ég er bara sammála þeim. Svo fer ég á næsta bæ, þar sem fólk er á móti virkjun, og ég er bara sammála þeim. Þetta er ekkert einfalt mál. Ég skil bæði sjónarmið alveg ofsalega vel.“

„Það er ekki mitt hlutverk að vera með skoðun“

Þetta segir Lára Ómarsdóttir umsjónarmaður Kveiksþáttar þriðjudagsins. Hún og Arnar Þórisson yfir-pródúsent ræða um hlutleysi og áhrif tónlistar í þáttagerð, Hvalárvirkjun og samfélagið í Árneshreppi, og ýmislegt fleira í nýjasta hlaðvarpsþætti Kveiks.

„Það er ekki mitt hlutverk að vera með skoðun. Ég lít svo á að hlutverk okkar sé að miðla upplýsingum og koma þeim á framfæri til almennings. Það er svo þeirra að mynda sér skoðun og taka ákvörðun um hvað eigi að gera,“ segir hún.

„Allir hafa sína skoðun,“ segir Arnar. Maður verður að geta tekið fyrir allar hliðar „alveg rétt eins og við treystum stjórnmálamönnum og fréttamönnum og bara fólki sem vinnur faglegt starf til að skilja eftir heima hjá sér sínar einkahugsanir um einhver málefni.“

Í næstu viku verður síðasti hlaðvarpsþáttur Kveiks fyrir jól á dagskrá og þá með aðeins öðru sniði. Hlaðvarpið er í öllum helstu hlaðvarpsöppum og í appi og á vef RÚV. #Kveikur er fyrir alla þá sem vilja taka virkan þátt í umræðunni og [email protected] fyrir ábendingar.