Ólögleg lán boðin frá Danmörku

Íslensku smálánafyrirtækin Kredia, Smálán, Hraðpeningar og 1909 eru nú í eigu skúffufyrirtækis í Danmörku. Þaðan eru áfram veitt smálán sem fara í bága við íslensk lög.

Á Íslandi má kostnaður vegna neytendalána, og smálán falla undir þá skilgreiningu, einungis vera 50% ofan á stýrivexti Seðlabanka Íslands á ársgrundvelli. Þessi takmörk og fleira sem þrengdi að smálánafyrirtækjum á Íslandi varð til þess að 2016 var starfsemin í raun flutt úr landi. Í gegnum erlend eignarhaldsfélög eru öll smálánafyrirtækin í dag á einni hendi, Tékkans Michals Mensik, og rekin undir nafninu eCommerce 2020 í Kaupmannahöfn.

Höfuðstöðvar eCommerce2020 (Mynd: DR)

Kveikur hefur undanfarið skoðað starfsemi þessa fyrirtækis í samvinnu við tékkneska útvarpið og danska útvarpið, DR. Fréttamenn hafa heimsótt meintar höfuðstöðvar eCommerce2020 og móðurfélagsins, Kredia Group Ltd., en hvergi fundið neina raunverulega starfsemi.

Framkvæmdastjórinn, Ondrej Smakal, og skráður eigandi, Michal Mensik, svara í gegnum almennatengla og segja að starfsemin sé sannarlega í Kaupmannahöfn, en þjónustunni sé allri útvistað. Til hvaða fyrirtækja vilja þeir ekki segja, né heldur hvar þau fyrirtæki eru staðsett.

En þjónustan er öll á lýtalausri íslensku og raunar vonlaust að eiga samskipti við þjónustuverið á dönsku. Þótt þeir Smakal og Mensik segi að starfsemin sé í Danmörku, geta Danir ekki heldur tekið lán í gegnum fyrirtæki eCommerce 2020. Þjónustufulltrúi svarar því til í netspjalli, að forsenda láns séu íslensk kennitala og íslenskt símanúmer.

Skjáskot af samskiptum við þjónustuver smálána. (Mynd: DR)

Íslensk yfirvöld segja enda að íslensk lög gildi um þessi lán. Öll gögn frá eCommerce 2020 séu á íslensku, markaðssetningunni beint að Íslendingum, lánin veitt á Íslandi og í íslenskum krónum. Fyrir vikið brjóta skilmálar Kredia, Múla, 1909, Hraðpeninga, Smálána og annarra undirfyrirtækja eCommerce í bága við íslensk lög.

Hvað það þýðir fyrir neytendur er hins vegar ekki alveg ljóst, því eCommerce hefur aldrei farið með eitt einasta mál gegn lántaka fyrir dóm. Líklegt má telja að lántakandi yrði þar dæmdur til að greiða höfuðstól auk hámarksins samkvæmt íslenskum lögum, en það væri langt frá þeirri upphæð sem danska fyrirtækið innheimtir.

Kveikur í kvöld klukkan 20:05.