Kórónuveiran: útbreiðslan á korti

Farsóttin hefur dreifst hratt um heiminn. Rúmlega þrjár milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna og fleiri en 200 þúsund látist. Kveikur hefur kortlagt dreifinguna á Íslandi og um heiminn.

Kórónuveiran: útbreiðslan á korti

Kortið að ofan sýnir fjölda fólks sem hefur greinst á landinu frá upphafi, samkvæmt gögnum frá sóttvarnalækni þriðjudaginn 28. apríl. Alls eru tilfellin tæplega 1.800.

Stærsti hringurinn á höfuðborgarsvæðinu sýnir fjölda tilfella í Reykjavík, þar sem flestir hafa greinst. Minni hringir í miðju þess stóra sýna tilfelli í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.

Á landsbyggðinni hefur verið langmest um staðfest smit í Vestmannaeyjum og þar á eftir í Bolungarvík. Mörg tilfelli hafa líka komið upp til að mynda á Akureyri, Ísafirði og Hvammstanga. Hver hringur sýnir í flestum tilvikum greind tilfelli á tilteknum þéttbýlisstað ásamt nærsveitum.

Upplýsingar sem hér birtast á kortum og í listum byggja á gögnum frá sóttvarnalækni. Stundum er misræmi milli gagna sóttvarnalæknis og upplýsinga sem lögregluembætti birta. Sóttvarnalæknir segir að það megi nær alltaf rekja til þess að fólk hafi lögheimili á einum stað en búi í raun á öðrum. Einnig geti orðið mistök við skráningu.

Listinn að neðan sýnir uppsafnaðan fjölda tilfella á stöðum þar sem tíu eða fleiri hafa greinst.

Faraldurinn virðist hafa náð hámarki á Íslandi í byrjun apríl, en sóttvarnalæknir hefur varað við andavarleysi. Gögn bendi til að stór hluti landsmanna sé enn móttækilegur fyrir veirunni.

Rúmlega 90 prósent þeirra sem hafa greinst á Íslandi eru nú laus við veiruna. Tíu hafa látist.

Enn eru á annað hundrað virk staðfest tilfelli í landinu. Dreifing þeirra er sýnd á kortinu að neðan. Langflest tilfelli eru á höfuðborgarsvæðinu og norðanverðum Vestfjörðum.

Virkum tilfellum hefur fækkað hratt í Reykjavík síðustu vikur. Sama er að segja um marga staði á landsbyggðinni.

Hér sjást þeir staðir á landinu þar sem virk staðfest tilfelli eru fimm eða fleiri, samkvæmt gögnum sóttvarnalæknis.

Á myndinni að neðan sést fækkun virkra tilfella á suðvesturhorninu á þremur vikum.

Fyrst sést staðan samkvæmt gögnum frá mánudeginum 6. apríl, þegar virk tilfelli í Reykjavík voru skráð rúmlega 400 í gögnum sóttvarnalæknis, og síðan samkvæmt gögnum mánudagsins 27. apríl, þegar virkum tilfellum hafði fækkað í rúmlega 70.

Línuritið að neðan sýnir fjölda virkra tilfella á landinu öllu á hverjum degi. Tilfellum fjölgaði hratt í mars, en fór síðan að fækka hratt fljótlega eftir mánaðamót.

Á þessu korti má svo sjá hvernig veiran hefur dreifst um nær allan heim. Kortið sýnir fjölda staðfestra tilfella eftir löndum, samkvæmt gögnum Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar frá þriðjudeginum 28. apríl.

Kortin eru unnin með aðstoð Landmælinga Íslands. Íslandskortin eru byggð á gögnum frá sóttvarnalækni og Landmælingum.

Stuðst er við gögn frá sóttvarnalækni sem sýna staðfest og virk tilfelli eftir póstnúmerum. Á kortunum, og listum sem fylgja, hafa póstnúmer verið sameinuð. Hver hringur táknar því í flestum tilvikum þéttbýlisstað ásamt nærsveitum. Á kortunum sjást ekki tilfelli þar sem póstnúmer vantar í gögnum sóttvarnalæknis. Hér má sjá lista yfir öll póstnúmer, með upplýsingum um hvar tilfelli í hverju þeirra eru sýnd á kortunum. Listinn er birtur með fyrirvara um síðari breytingar.

Heimskortið er byggt á gögnum frá Evrópsku sóttavarnastofnuninni (ECDC) og Natural Earth. Myndritið er byggt á gögnum af covid.is.

Sérstakar þakkir fær Ásta Kristín Óladóttir, fagstjóri grunngerðar landupplýsinga og miðlunar hjá Landmælingum Íslands.