Hvað tekur við þegar veiran greinist ekki lengur?

Þótt kórónuveiran greinist ekki lengur hjá mörgum sem veiktust af COVID-19 er í fæstum tilvikum hægt að segja að sjúklingarnir séu heilir heilsu. Margir lýsa lungnavandamálum og ófáir sjá fram á vikur eða mánuði í endurhæfingu.

Þegar styttist í 64 ára afmælið ákvað Kristján Gunnarsson að læra nýtt lag á gítarinn sinn. Hann hafði alltaf verið mikill tónlistarunnandi og Bítlarnir mest metnir.

„Bítlaárið fram undan, auðvitað bara „masterar“ þú When I‘m Sixty-Four. Setur það inn á Facebook og menn myndu segja „helvíti er hann góður“. Svo raskast æfingatímabilið svona svakalega,“ segir Kristján, þar sem hann situr á sófa á Reykjalundi.

Röskunin kom ekki til af góðu: Eins og um 1.800 aðrir Íslendingar veiktist Kristján af COVID-19, þrátt fyrir að telja sig ekki í áhættuhópi og haga sér samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis. Fyrstu einkennin gerðu vart við sig um miðjan mars.

Fyrst var verkurinn í enni, nokkrum augnablikum síðar í hnakka og svo færðist hann á milli. Kristján fann ekki fyrir hósta eða öðrum einkennum sem lýst var sem vísbendingum um COVID-19.

Drifinn á bráðadeild, svæfður og settur í öndunarvél

Þegar Kristján hafði verið með 40 stiga hita í nokkra daga leist honum hins vegar ekki á blikuna, ekki frekar en lækni á bakvakt sem vildi fá Kristján til frekari skoðunar.

„Hann hafði fengið einhverja bakþanka. Að þótt ég væri neikvæður þyrfti kannski að skoða mig. Þá var ég drifinn inn á bráðadeild og beint þaðan inn á Hringbraut. Svæfður og settur í öndunarvél,“ sagði Kristján í viðtali við Kveik.

Kórónuveiran greindist svo við lungnaberkjupróf, en Kristján vissi auðvitað ekkert um framgang veikinnar eftir þetta.

Minningin um þennan tíma, á meðan hann var sofandi í öndunarvél, er samt allt annað en notaleg.

„Svo upplifði ég alveg svakalegar martraðir og noju, og það að væri sótt að mér úr öllum áttum,“ segir Kristján.

„Mér var rænt, og ég var á hryðjuverkasamtökum. Og ég komst ekki neitt. Þetta var allt mjög raunverulegt.“

„Svo þegar ég er vakinn, þá áttaði ég mig strax á samhenginu. Mér er sagt að það hafi verið hringt í dæturnar daglega, tvisvar á dag jafnvel. Það fannst mér gott, af því að hluti af martröðinni var að ég hafði stungið af. Og þær vissu ekki neitt.“

Þegar Kristján var vakinn tók við annað ferli, í einangrun á lungnadeild, þar sem allt starfsfólk var í fullum hlífðarbúnaði. Sú reynsla var líka sérkennileg.

Kristján segir að það hafi ekki verið gott að vera í einangrun, en sannarlega betra en að vera á einhverjum öðrum stað.

„Það var alltaf það sem mér var sagt: Þú varst að deyja, pabbi. Þeir rétt björguðu þér.“

Kristján Gunnarsson náði sér af COVID-19 og lá í kjölfarið um skeið í einangrun á lungnadeild Landspítalans.

Að lokum kom að því að Kristján reyndist veirulaus og mátti fara úr einangrun, af spítalanum.

En að vera veirulaus er ekki það saman og að vera heill heilsu, eins og margir sem veikst hafa af COVID-19 hafa reynt. Leið Kristjáns lá því á Reykjalund, þar sem næsti kafli hófst.

Veirulausir en geta ekki farið heim

Stefán Yngvason er endurhæfingarlæknir með áratugareynslu. Lengst af á Grensásdeild, en undanfarið hefur hann verið formaður starfsstjórnar á Reykjalundi. Hann segir að verkefnið nú sé að taka við sjúklingum sem ekki greinast lengur með kórónuveiru og hjálpa þeim á fætur, svo þeir geti farið heim til sín.

Stefán Yngvason, endurhæfingarlæknir á Reykjalundi.

„Þetta eru einstaklingar sem ekki geta farið beint heim. Þeir eru búnir með sín veikindi en búa við færnisskerðingu af ýmsu tagi. Og þeir þurfa alls konar aðstoð, við klæðnað, við að komast á fætur aftur,“ segir Stefán.

Sex sjúklingar eru komnir á Reykjalund til meðferðar og þeim fjölgar eftir því sem fleiri útskrifast. Stefán segir að þeir kvarti undan mikilli þreytu, en önnur einkenni séu ólík á milli manna.

„Og læknar eru að átta sig á því að þetta er ekki bara lungnavandamál.“ segir hann.

„Þetta er veira sem fer greinilega víðar um líkamann og hefur áhrif á mörg líffærakerfi.“

„Það er í raun og veru lærdómsferill fyrir heilbrigðisstarfsemi heimsins að þekkja þennan nýja vírus. Og vita hvernig hann hegðar sér. Og hvernig á að bregðast við honum og hvers konar færniskerðingar verða af hans völdum,“ segir Stefán.

Nær ekki enn andardrættinum

Í heldur hrörlegri byggingu í rjóðri rétt við Landspítalann í Fossvogi, Birkiborg, er göngudeild COVID-19. Þangað hafa margir leitað, og að morgni sumardagsins fyrsta kom Elín Blöndal þangað.

Elín Blöndal mætir til skoðunar á Birkiborg, COVID-19 göngudeild Landspítalans í Fossvogi.

Elín er að upplagi hress og öflugur liðsmaður í sönghóp.

En á söngæfingu í byrjun mars sýktist hún ásamt sjö öðrum og veiktist í kjölfarið.

Hún greindist með COVID-19 í kringum 20. mars og segist hafa verið búin að fara til læknis í tvígang áður, svo sjálf reiknar hún með að hafa verið lasin meira og minna síðan í byrjun mars.

Hún segir erfitt að lýsa einkennunum. „Ég hef ekki verið með hita eins og margir. Heldur hefur þetta meira verið í brjóstholinu, andþyngsli og mjög einkennilegt, þetta færðist út um allt í brjóstholinu. Og fékk lungnabólgu upp úr því. Og mjög slöpp. Svo mikið,“ segir Elín.

„Og svo gengur þetta fram og til baka. Manni finnst maður vera skárri, og svo er maður verri. Þannig að það er mjög erfitt að lýsa þessum einkennum. Þetta eru bara ekki góð einkenni.“

„Ég var orðin þokkaleg og búin að vera í nokkra daga. Þannig að ég útskrifaðist. Og svo bara er eins og mér sé að slá eitthvað niður aftur. Og hef ekki alveg náð andardrættinum.“

Einkennin sem Elín lýsir eru algeng meðal þeirra COVID-19 sjúklinga sem Kveikur hefur rætt við, bæði þeirra sem þurftu að leggjast inn á spítala og þeirra sem urðu minna veikir.

Lungnaþolið er lítið og svo virðist sem það taki dágóðan tíma að ná því aftur. Eftir skoðun sögðu læknarnir Elínu að þessi einkenni væru eðlileg eftir veikindin.

Rannsaka langtímaafleiðingar COVID-19

Læknar vita að aðrar kórónuveirur geta valdið örmyndun í lungum, og fólk sem hefur þurft að fara í öndunarvél glímir stundum við það sama.

En margt er óljóst um þessa nýju veiki og afleiðingar hennar. Þess vegna er hafin rannsókn á Landspítalanum á því sem gerist eftir að veiran finnst ekki lengur í líkama sjúklings.

Sif Hansdóttir, yfirlæknir á lungnadeild Landspítalans, er meðal stjórnenda þeirrar rannsóknar. Hún segir að allir sem legið hafi inni á spítalanum, og ýmist fengið súrefni eða tengst öndunarvél, verði kallaðir inn.

Sif Hansdóttir, yfirlæknir á lungnadeild Landspítalans.

Sif segir að rannsakendur ætli að fá sjúklingana inn á göngudeild um átta til tólf vikum eftir að þeir greinast með veiruna.

„Og við ætlum líka að fara yfir þá sem komu á göngudeildina, í Birkiborg. Og þangað komu þeir sem voru meira veikir en þurfti kannski ekki að leggjast inn. En við viljum líka skoða þann hóp og fólk úr þeim hópi sem að hefur verið með tiltölulega lága súrefnismettun, að fylgja þeim líka eftir, með tilliti til lungnavandamála eftir veikindin,“ segir Sif.

Hún undirstrikar þó að hún telji það lítinn hóp sem glími hugsanlega við afleiðingar veikinnar til lengri tíma.  Þeir sem séu með undirliggjandi lungnasjúkdóma hafi hugsanlega minni getu til að þola aukaálag á lungun og þeir finni meira fyrir einkennum.

En Sif segir jafnframt ljóst að kórónuveiran valdi ekki bara lungnaeinkennum. Talað sé um aukna storkuhneigð, sem valdi meðal annars vandamálum í lungum.

Meltingarfæraeinkenni séu algeng, til að mynda ógleði og niðurgangur. Nýrnabilun hafi líka komið upp. Því sé réttast að kalla þetta fjölkerfasjúkdóm sem ráðist á fleiri en eitt kerfi.

Í erlendum fjölmiðlum hefur verið greint frá því að kórónuveiran hafi fundist í mænuvökva, í augum og að hún hafi jafnvel valdið heilabólgu. Sum þessara einkenna eru þekkt frá annars konar veirusýkingum, annað virðist bara tengjast COVID-19. Enn er margt á huldu um ástæður, afleiðingar og meðferð og frekari rannsókna þörf.

Þótt flestum ætti að batna með tíð og tíma, segir Sif að þeir, sem finni fyrir miklum öndunarfæraeinkennum einhverjum vikum eftir að ekkert smit greinist lengur, ættu að snúa sér til heilsugæslunnar.

Óttinn við andlegar afleiðingar

En afleiðingar svona harkalegra veikinda eru ekki bara líkamlegar. Kristján Gunnarsson nefnir óvissuna, því ekki sé allt vitað um afleiðingar COVID-19.

„Svo er einhvers staðar óttinn við einhverjar andlegar, við einhver andleg bakslög. Að öll þessi óvissa valdi áhyggjum. Allt þetta sem snýr að andlegri getu, að það verði eitthvað skert. Mér er sagt að ég sé hvorki betri né verri en ég var fyrir. Ég hef ekki þörf fyrir að vera betri, sérstaklega.“

„Ég held ég sé alveg sami maðurinn. Það er viss óvissa í gangi, en óvissa þarf ekki að þýða að allt sé að fara niður á við. Ég er bjartsýnn en raunsær og veit að ég er neðst í brekkunni,“ segir Kristján og segir að bataferlið sé hænufetsmaraþon.

Kristjáni Gunnarssyni var um skeið haldið sofandi í öndunarvél vegna COVID-19. Hann er nú í endurhæfingu á Reykjalundi.

Flestir viðmælendur Kveiks, sem voru lausir við COVID-19, lýstu sömu einkennum: áhyggjum af því að eitthvað nýtt komi í ljós. Kvíða og ótta við að fara aftur út á meðal fólks. Smitskömm.

Tryggvi Guðjón Ingason, sálfræðingur og formaður Sálfræðingafélags Íslands, segir algengt að fólk sem glími við mikil líkamleg veikindi þurfi tíma til að jafna sig, en það sem sé öðruvísi við COVID-19 en veikindi af mörgum öðrum ástæðum sé óvissan sem Kristján vísaði til.

Tryggvi segir að í raun megi lýsa veikindunum sem svo að fólk hafi misst stjórn á eigin lífi. Talið sig frískt en hafi verið kippt út skyndilega og hafi ekki fulla stjórn á framhaldinu.

Lykilatriði sé að ná einhverri stjórn á ný. Það náist ekki síst með því að koma reglu á lífið á ný. Til dæmis með því að koma rútínu á svefninn og sofa nóg. Hreyfa sig reglulega og nærast reglulega. Þannig megi ná taugakerfinu aftur í gang. En það sé skiljanlegt að það taki lengri tíma en fólk vilji.

Gula spjaldið

Í þessari uppbyggingu þarfnast þeir sem voru veikir stuðnings og endurhæfingar til að geta bjargað sér sjálfir við athafnir daglegs lífs.

Það er óneitanlega risavaxið verkefni að ná upp þoli, nota hjálpartæki til að klæða sig í sokka, hvað þá meira.

Í endurhæfingarsalnum er Vilhelm Sigurðsson í æfingum. Um tíma var Vilhelm ekki hugað líf og konan hans lést úr COVID-19.

En Vilhelm segist ekki ætla að gefast upp. Hann lifi á góðum kveðjum sem berist frá fjölskyldu og vinum hvaðanæva að. Og á hjálp englanna, eins og hann kallar starfsfólk Landspítalans og Reykjalundar.

Vilhelm Sigurðsson er í endurhæfingu á Reykjalundi eftir COVID-19.

Kristján Gunnarsson segir veikindin vera gula spjaldið.

„Það eru skilaboð um að breyta um leikstíl,“ segir hann.

„Ef ég held áfram að tuddast, fæ ég rauða spjaldið. Í merkingunni: Þá er þetta búið.“

„Ég ætla að nýta mér gula spjaldið. Og ég ætla að forgangsraða upp á nýtt. Því að það skiptir ekkert meira máli en fjölskylda, ættingjar og vinir. Kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi fólki, og allt það. Þú ert hérna núna,“ segir Kristján.

„Það er stór hópur sem þykir vænt um þig. Það styður þig í þínum verkefnum. Og það líka hjálpar þér að leita til einhvers sem þú getur spjallað við. Því það skiptir mjög miklu máli í andlegum bata.“

Aukaviðmót ekki sjálfgefið

Kristján kom á Reykjalund á sumardaginn fyrsta, sem var líka afmælisdagurinn hans, dagurinn sem hann ætlaði að spila When I‘m Sixty-Four á gítarinn. Af því varð ekki, að þessu sinni. En afmælisdagurinn var eftirminnilegri en margir afmælisdagar á undan, segir Kristján.

„Kannski mest í þakklæti fyrir því að geta haldið upp á það. Því að það var alveg óvíst. Svo var þetta yndislega fólk á lungnadeildinni, þegar þau voru að kveðja mig, þá sungu þau afmælissönginn. Komu með tertu,“ segir hann.

„Það er þetta sem ég er að tala um með þetta auka-, aukaviðmót sem kannski fleytir mönnum áfram. Ég komst í gegnum þetta af því að heilbrigðiskerfið er svo gott, þegar það kemur að hvernig starfsfólk gefur þetta aukadæmi inn. Það er ekkert sjálfgefið.“