*

Heimskautið er ekki herlaust

NATO með Bandaríkjamenn í broddi fylkingar sem og Rússar hafa herafla á Norðurheimskautinu, segir Anne-Marie Brady, einn helsti sérfræðingur heims í norðurslóðastefnu Kína. Því sé rangt að tala um heimskautið sem herlaust svæði. Kínverjar hafi lengi haft áhuga á að koma kafbát búnum kjarnorkuflaugum að íshellunni við Norðurpólinn.

„Fyrir þá sem fylgjast með breyttum öryggis- og varnarforsendum á norðurslóðum, þar með talin ríkisstjórn Íslands, þá er vert að hafa í huga að kínversk stjórnvöld hafa lengi stefnt að því að koma kafbáti að íshellunni,“ segir Brady í viðtali við Kveik. „Þannig hefur það verið allt frá 1959, þegar stjórnvöld í Peking sáu að Bandaríkjamenn gátu það. Og ef þeim tekst þetta ætlunarverk, þá hefur það mikil áhrif á kjarnorkuógnina sem stafar af Kína. Og hefur raunar áhrif langt út fyrir heimskautasvæðið, á öryggishugsun á heimsvísu.“

Í umræðu um Norðurheimskautið hefur oft verið bent á samvinnu og sáttmála stórvelda og alþjóðastofnana þar. Og fullyrt að það sé öllum kappsmál að halda herbrölti frá svæðinu. En Anne-Marie Brady hafnar því.

„Rússar og Bandaríkjamenn láta til sín taka þarna upp frá. Og auðvitað NATO líka. Kínverjar líta svo á að siglingaleiðirnar við heimskautið séu opið haf sem allir hafi jafnan siglingarétt á – og eru þar sömu skoðunar og bandarísk stjórnvöld. Það þýðir að það væri í góðu lagi að sigla kafbátum þarna. Og það samrýmist langtímamarkmiðum Kínverja á svæðinu.“

Gao Feng, sendiherra Kína í málefnum norðurslóða, hafnaði því með öllu að Kína hefði beint kafbátum að Norðurpólnum þegar Kveikur bar það undir hann. Slíkt ætti sér enga stoð í raunveruleikanum.

En Heather Conley, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórnartíð Baracks Obama og núverandi sérfræðingur í málefnum Norðurheimskautsins hjá hugveitunni Center for Strategic and International Studies í Washington, segir nýja þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna sýna glögglega að Norðurheimskautið sé nú á dagskrá í Washington og að Kína og Rússland séu helstu hernaðarandstæðingar Bandaríkjanna.

„Í raun má segja að keppnin milli stórveldanna sé hafin á ný. Rússar og Kínverjar hafa augljósa hernaðarhagsmuni við Norðurheimskautið og auðvitað efnahagshagsmuni líka. Og verðum að gera okkur grein fyrir því hvað það þýðir. Þessu fylgir aukið hernaðarlegt vægi, varnar- og öryggisvægi sem greina þarf. Það á eftir að koma í ljós hvort hefðbundin stórveldaspenna virki á Norðurheimskautinu eður ei.“