Grænn uppruni íslenskrar raforku seldur úr landi

Hrein íslensk orka er ímynd sem Landsvirkjun og fyrirtæki á borð við álver og gagnaver kynna. En stenst hún? Íslensk orkufyrirtæki hafa selt vottun fyrir uppruna þessarar hreinu orku úr landi í stórum stíl. Hvaða þýðingu hefur salan fyrir græna ímynd Íslands?

Það má líklega segja að Íslendingar séu heppnir, því á meðan aðrar þjóðir basla við að skipta kolaverum út fyrir endurnýjanlega raforku bókstaflega flæðir græn orka hér um allt. Jökulár hafa verið beislaðar svo um munar, og Ísland framleiðir um fimmfalt meiri raforku en heimili og langflest fyrirtæki nota.

Næstum allt rafmagnið fer í stórverksmiðjur, mest í álver. Álverin þrjú í Hafnarfirði, Hvalfirði og á Reyðarfirði nota um tvo þriðju raforkunnar á Íslandi. Álver blása frá sér gróðurhúsalofttegundum, en á Íslandi er notuð endurnýjanleg orka í framleiðslunni, sem minnkar kolefnisfótspor álsins verulega.

Forskotið sem íslenska raforkan veitir hefur verið nýtt í kynningu. Norðurál segir til að mynda í kynningarmyndbandi að fyrirtækið noti „hreint hráefni, hreina orku og bestu fáanlegu tækni.“ Því kalli það vöru sína „umhverfisvænasta ál í heimi.“

En má segja að orkan sé endurnýjanleg? Rafmagnið kemur vissulega frá virkjunum sem framleiða endurnýjanlega orku. Það sýna líka gögn Orkustofnunar um framleiðsluna. En þegar opinbert uppgjör stofnunarinnar sem tengist sölu orkunnar er skoðað blasir við allt önnur mynd.

Sú mynd gæti látið mann halda að veruleikinn væri allt annar en við þekkjum, að hér væru kola- og kjarnorkuver.

Það eru engin kolaver á Íslandi, en opinbert uppgjör um uppruna raforku gæti látið mann halda það.

Skýringin er að orkufyrirtæki geta fengið vottorð fyrir sinni grænu framleiðslu. Vottorðið kallast upprunaábyrgð. Nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er vottuð með upprunaábyrgðum. Því liggur beinast við að álykta að opinbera uppgjörið ætti að sýna það.

En svo er ekki, vegna þess að í þessu samevrópska kerfi hafa íslensk raforkufyrirtæki selt frá sér upprunaábyrgðir og drýgt þannig tekjur sínar, enda er græn orka eftirsóknarverð á tímum loftslagsbreytinga. Upprunaábyrgðir ganga þannig kaupum og sölum burtséð frá því hver fær í raun græna rafmagnið.

Evrópa er í raun eitt raforkusvæði, meira og minna samtengt frá Noregi, suður til Ítalíu. Enginn rafstrengur liggur frá Íslandi til meginlandsins, og því geta Íslendingar ekki flutt út sjálfa raforkuna. En uppruni hennar — græna vottunin — er seldur.

Hvers vegna vill einhver kaupa vottun án þess að fá grænt rafmagn með?

Ímyndum okkur kaffibrennslu í Frakklandi sem vill nota græna orku. Það er ekki svo auðvelt, því á landamæralausum raforkumarkaði getur kaffibrennslan ekki sannreynt hvort rafmagnið kemur frá frönsku kjarnorkuveri, danskri vindmyllu eða þýsku kolaveri, eða jafnvel norskri vatnsaflsvirkjun, þótt líklegast sé að það komi frá nálægum orkuverum.

Hvernig getur brennslan þá stutt við græna orku og fengið staðfestingu á upprunanum? Þar koma upprunaábyrgðir til sögunnar. Segjum að í  Danmörku framleiði fyrirtæki græna orku með vindmyllum. Franska brennslan getur þá keypt upprunaábyrgðir af danska fyrirtækinu, og þá getur brennslan sagst vera græn.

Ímynduð frönsk kaffibrennsla kaupir upprunaábyrgðir af raforkuframleiðanda í Danmörku sem framleiðir grænt rafmagn. Eftir kaupin getur franska brennslan sagst vera græn, þótt hún fái ekki rafmagn beint frá danska orkufyrirtækinu.

„Það sem knýr áfram þennan markað er aðallega eftirspurn fyrirtækja, ekki heimila heldur stórfyrirtækja, eins og Google, IBM, BMW og tryggingafélagsins Swiss Re,“ segir Dirk Van Evercooren, sem er formaður AIB, samtaka útgefenda upprunaábyrgða í Evrópu. Þessi fyrirtæki séu öll félagar í RE100, samtökum alþjóðlegra fyrirtækja sem skuldbinda sig til að nota 100% endurnýjanlega orku.

Regluverk Evrópusambandsins var fest í lög á Íslandi 2008. „Ég held að fyrstu viðskipti hafi verið þarna um bara á áramótunum 2011-2012. Þau voru svolítið svona sveiflukennd fyrstu árin,“ segir Svandís Hlín Karlsdóttir, forstöðumaður hjá Landsneti, sem sér um að votta raforkuna á Íslandi.

Fyrst hafi fyrirtækin kannski verið að átta sig á því hvers virði upprunaábyrgðirnar væru eða hvað þær væru. „En búið að vera svolítið stöðugt núna síðustu þrjú árin,“ segir Svandís.

Van Evercooren segir að þar sem íslenska raforkukerfið sé ekki tengt við meginland Evrópu og á Íslandi sé nánast eingöngu framleidd endurnýjanleg orka virðist upprunaábyrgðir skipta íslenska neytendur litlu. Aftur á móti séu þær mikilvægar fyrir íslenska orkuframleiðendur, því upprunaábyrgðirnar séu fluttar út sem skili framleiðendunum tekjum.

Tekjur stærsta raforkuframleiðanda landsins, Landsvirkjunar, af sölu upprunaábyrgða til annarra Evrópulanda námu um 900 milljónum króna í fyrra.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að svona kerfi ýti undir þá þróun að endurnýjanleg orka komi hratt inn á markað. „Líka að endurnýjanleg orka haldi áfram að vera á markaðnum og haldi sinni stöðu á markaði.“

Reikningur frá Orku náttúrunnar frá 2016, þar sem sést samsetning raforkunnar sem var seld heimil í Reykjavík.

Margir urðu líklega hissa fyrir nokkrum árum þegar rafmagnsreikningar fóru að berast fólki þar sem virtist sem rafmagnið væri að hluta framleitt með kjarnorku og jarðefnaeldsneyti.

Frekar auðvelt er að ganga úr skugga um að á Íslandi er svo að segja eingöngu framleidd endurnýjanleg orka, til dæmis með því að skoða virkjanirnar á hálendinu fyrir ofan Þjórsárdal.

Kannski má segja að þar sé hjartað í starfsemi Landsvirkjunar, því þar eru framleidd hátt í 40% allrar raforku á Íslandi, með sjö vatnsaflsvirkjunum: Búrfellsvirkjun I og II, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Vatnsfellsvirkjun, Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun.

Sjö virkjanir Landsvirkjunar í Þjórsá og þverá hennar Tungnaá framleiða hátt í 40% alls rafmagns á Íslandi.

Öll þessi endurnýjanlega orka. Hvernig getur þetta þá staðist? Til að skilja það þarf smá hugarleikfimi.

Segjum að ímyndaða franska kaffibrennslan kaupi upprunaábyrgðir frá Íslandi til að geta sagst vera græn. Samkvæmt reglunum má þá íslenski raforkuframleiðandinn sem seldi upprunaábyrgðirnar ekki lengur selja orkuna sem endurnýjanlega hér heima, til að koma í veg fyrir að sama græna orkan sé talin á tveimur stöðum.

Frakkinn fær þannig að nota endurnýjanlega orku, á pappír, en á móti þarf íslenska raforkufyrirtækið á sínum pappírum að notast við blöndu jarðefnaeldsneytis, kjarnorku og endurnýjanlegrar orku, sem er reiknuð út með sérstakri aðferð.

Ef franskt fyrirtæki kaupir upprunaábyrgð af íslensku orkufyrirtæki þarf það íslenska á móti að hætta að selja rafmagnið sem grænt. Í staðinn er það selt eins og það eigi uppruna sinn í blöndu af jarðefnaeldsneyti, kjarnorku og endurnýjanlegri orku.

Í dag fylgja upprunaábyrgðir með raforku til heimila og langflestra fyrirtækja, þar á meðal landbúnaðar og fiskvinnslu, þannig að þar er nú allt vottað. En þegar kemur að álverunum segir enn á pappírunum að þau séu að kaupa rafmagn sem eigi uppruna sinn að mestu í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. Þó gefa auglýsingar stundum annað til kynna.

Í kynningarmyndbandi frá Landsvirkjun segir forstjóri Rio Tinto á Íslandi að sjálfbær orka sé Rio Tinto mjög mikilvæg.

Samtök álframleiðenda á Íslandi, Samál, fullyrða jafnframt á sinni vefsíðu að á Íslandi sé eingöngu notuð endurnýjanleg orka við álframleiðslu.

„Við erum í landi endurnýjanlegrar orku,“ segir  Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, um hvort fullyrðingar eins og á vef samtakanna standist þegar Ísland sé þátttakandi í kerfi upprunaábyrgða.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir að íslensku álverin séu í landi endurnýjanlegrar orku.

„Spurningin er þá bara hvort að þetta sé villandi framsetning,“ segir Pétur. Bara spurningin í sjálfu sér finnist honum áhyggjuefni. Það sé áhyggjuefni ef kerfið „grefur undan því samkeppnisforskoti sem að Ísland telur sig hafa með endurnýjanlega orku,“ segir hann.

Skiptar skoðanir eru um hvaða þýðingu kerfið hefur fyrir raforkunotendur sem ekki eru með vottað rafmagn. „Strangt til tekið mega þeir ekki segja opinberlega að þeir noti græna orku nema þeir kaupi græn vottorð,“ segir Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, samtaka orkufyrirtækja. „En það er kannski hluti af þessu kerfi sko, að ég held að það séu engin raunveruleg viðurlög við því.“

Norðurál segist reyndar, eitt álveranna, vera með upprunaábyrgðir fyrir hluta af sinni framleiðslu, en ekki fékkst uppgefið fyrir hversu stórum hluta.

Stór gagnaver segjast líka nota græna orku. Í auglýsingu frá Advania segir að fyrirtækið reki fyrsta flokks gagnaver sem noti græna, endurnýjanlega orku. Og í kynningarmyndbandi frá Íslandsstofu segist Verne Global nota 100% græna orku á Íslandi. Þannig þurfi viðskiptavinir fyrirtækisins ekki að hafa áhyggjur af umhverfisáhrifum.

„Þetta er í rauninni bara rétt markaðssetning,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. „Þetta er markaðssetning í samræmi við raunveruleikann.“ Hún telur sölu orkufyrirtækja á upprunaábyrgðum skaða græna ímynd Íslands.

Í raun liggur ekki fyrir hversu stór hluti orku gagnaveranna er vottaður. Advania segist vera með upprunavottun fyrir meirihluta af sinni orkunotkun, og Etix Everywhere Borealis mun vera með vottaða orku að hluta að minnsta kosti, en Kveikur hefur ekki nákvæmar upplýsingar þaðan. Verne Global segir upprunaábyrgðakerfið ekki hafa áhrif á sig.

Í desember var reyndar sagt frá því að forsvarsmenn Landsvirkjunar og nýs gagnavers, Reykjavik DC, sem á að opna á Korputorgi í Reykjavík, hefðu samið um að verið fengi alfarið upprunavottaða orku.

Orka náttúrunnar, sem á og rekur Hellisheiðarvirkjun, er meðal orkufyrirtækja sem hafa selt upprunaábyrgðir til annarra Evrópulanda.

En hvaða reglur skyldu gilda um hvernig fyrirtæki sem ekki eru með upprunaábyrgðir mega kynna sig? Samkvæmt íslenskri reglugerð um upplýsingagjöf í tengslum við upprunaábyrgðir virðist sem fyrirtæki eigi að byggja upplýsingagjöf sína á því sem kemur fram á rafmagnsreikningnum.

Hanna Björg Konráðsdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, segir ekki vel skilgreint hversu langt það nær, það er að segja hvort reglurnar ná yfir til að mynda auglýsingar eða fullyrðingar á vefsíðum.

Það fást því ekki skýr svör hjá Orkustofnun, sem hefur eftirlit með kerfinu. Reglurnar séu óskýrar og Orkustofnun vanti eftirlitsheimildir.

Dirk Van Evercooren, formaður AIB, Evrópusamtaka útgefenda upprunaábyrgða, er öllu afdráttarlausari. Hann segir að ef upprunaábyrgðir eru fluttar úr landi, og á sama tíma í kynningu vísað til hinnar raunverulegu raforkuframleiðslu, teljist það tvítalning á grænni orku.

Ef fyrirtæki í Frakklandi nýti íslenska upprunavottun til að geta sagst hafa notað eina megavattstund af grænni raforku, og á sama tíma segist fyrirtæki á Íslandi nota eina megavattstund af grænni orku af því hér sé aðeins framleidd græn orka, séu tveir orkunotendur að gera tilkall til sömu megavattstundarinnar. „Það er óviðunandi,“ segir Van Evercooren.

Samtök álframleiðenda segja stöðuna áhyggjuefni. Pétur framkvæmdastjóri segir að kerfið sé valkvætt og álfyrirtækin verði að meta hvort þau stíga inn í það. „Það fylgir því kostnaðarauki á vöruna,“ segir hann.

Pétur bendir á að verð á áli ráðist á heimsmarkaði og álver séu viðkvæm fyrir öllum viðbótarkostnaði.

Stefanía hjá Landsvirkjun segir að rætt hafi verið við stóriðjufyrirtæki um að selja þeim upprunaábyrgðir. „Það er þeirra val,“ segir hún. „Það er spurning um þeirra markaði og þeirra vöru, og eru þau að fá eitthvað út úr þessu og svoleiðis.“

Pétur segist ekki vita til þess að notkun endurnýjanlegrar orku í álframleiðslunni hafi skilað hærra álverði.

Kannski má segja að þar standi hnífurinn í kúnni, segir Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, formaður opinbers starfshóps um gerð orkustefnu fyrir Ísland. Þar sem álframleiðendur virðist ekki fá hærra verð fyrir að geta sýnt fram á að þeir noti endurnýjanlega orku séu þeir síður viljugir til að borga sérstaklega fyrir upprunavottun.

„Í landi endurnýjanlegrar orku, þurfum við þá allt í einu að kaupa réttinn til þess að segja að við séum með endurnýjanlega orku?“ spyr Pétur. Það sé óheppilegt. Hann telji líka óheppilegt að aðeins nokkur fyrirtæki fái ekki upprunaábyrgðunum útdeilt með raforkunni.

Alcoa Fjarðaál hefur gagnrýnt sölu Landsvirkjunar á upprunaábyrgðum. Álverið hafi samið um orkukaup á þeim forsendum að fyrirtækið keypti endurnýjanlega orku frá Kárahnjúkavirkjun.

Í fyrra gagnrýndi Magnús Þór Ásmundsson, þáverandi forstjóri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, sölu Landsvirkjunar á upprunaábyrgðum. Alcoa hefði á sínum tíma samið við Landsvirkjun um raforkukaup á þeim forsendum að keypt væri endurnýjanleg orka frá Kárahnjúkavirkjun.

Ef bókhald Evrópusambandsins segi annað hljóti Alcoa að þurfa að velta fyrir sér hvort fyrirtækið fái afhenda þá vöru sem það taldi sig semja um, sagði Magnús Þór í sjónvarpsfréttum í júní í fyrra.

Hann sagði að kannski mætti segja að með þessu væru „Íslendingar að selja fyrirtækjum með starfsemi erlendis aflátsbréf sem að gerir þeim kleift að fresta sínum umbótum í loftslagsmálum.“

Lovísa Árnadóttir hjá Samorku segir aftur á móti að upprunaábyrgðir og aflátsbréf séu gjörólík fyrirbæri. Þegar aflátsbréf hafi verið seld hafi einhver tekið syndina á herðar sér og hún einfaldlega horfið. „Það gerist nefnilega einmitt alls ekki í þessu kerfi,“ segir hún. „Við þurfum jú, ef við seljum út úr landi, að taka syndina til baka inn á okkar uppgjör.“

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, segir ekki hægt að líkja upprunaábyrgð við aflátsbréf.

Auðvitað er það ekki svo að virkjun endurnýjanlegrar orku sé fullkomlega umhverfisvæn, en áhrif á loftslagið eru miklu minni en frá kolum og gasi, ef nokkur. Íslensk stjórnvöld og orkufyrirtæki telja verðmæti fólgin í grænu orkunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagðist til að mynda í Kastljósi í fyrrasumar trúa því að þegar fram líða stundir verði græna orkan samkeppnisforskot Íslendinga í áliðnaði.

Íslandsstofa hefur auglýst 100% græna orku á íslenska raforkunetinu, og Landsvirkjun hefur auglýst með þeim orðum að Ísland sé eitt af fáum löndum heims þar sem öll raforka sé framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.

En stenst þessi ímynd landsins fyllilega skoðun þegar búið er að selja vottunina úr landi að svo miklu leyti? Já, segir Lovísa. „Við erum land endurnýjanlegrar orku, og það er staðfest og hægt að sannreyna það bara á vef Orkustofnunar, að sjá með hvaða hætti við framleiðum orku. Þannig að það er enginn vafi á því.“

„Landsvirkjun útvegar 100% endurnýjanlega orku,“ segir í kynningarmyndbandi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun hefur líka kynnt sig með því orðalagi að fyrirtækið útvegi 100% endurnýjanlega orku með langtímasamningum á samkeppnishæfu verði.

„Það getur alltaf staðist,“ segir Stefanía hjá Landsvirkjun, því fyrirtækið muni ekki neita neinum viðskiptavini um vottun með endurnýjanlegu orkunni.

Hanna Björg, lögfræðingur Orkustofnunar, telur að orðalag í kynningu raforkufyrirtækja geti skipt máli, þannig sé í lagi að segjast framleiða græna orku en staðan sé flóknari þegar fyrirtæki, sem ekki eru með upprunaábyrgðir, segist selja græna orku.

„Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að raforkusölufyrirtæki lýsi þeim framleiðsluaðferðum sem eru viðhafðar og fjalli um þær í kynningu á sinni starfsemi,“ segir hún. Önnur lögmál kunni að gilda um söluna.

Séð yfir Hrauneyjalón, neðan Sigölduvirkjunar.

En getur samt sem áður verið að það veiki grænu ímyndina að búið sé að selja úr landi réttinn til að selja orkuna sem endurnýjanlega?

„Landsvirkjun framleiðir 100% endurnýjanlega orku,“ segir Stefanía um hvort ekki séu komin einhver göt í þessa ímynd.

Ef til dæmis fyrirtæki ákveði að setja sig niður á Íslandi, segir hún, „þá veit það fyrirtæki, það getur keypt upprunaábyrgðir á innanlandsmarkaði fyrir allri sinni framleiðslu ef það hefur áhuga á því.“

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, telur sölu á upprunaábyrgðum ekki hafa áhrif á þá grænu ímynd sem fyrirtækið kynnir.

Pétur Blöndal hjá Samáli segir aftur á móti að ef ef menn trúi einungis á kerfi upprunaábyrgða sé ekkert samkeppnisforskot að vera á Íslandi.

„Með því að hætta að gefa út og selja þessar ábyrgðir út fyrir landsteinana þá getum við snúið þessari stöðu við, í okkar hag,“ segir Sigríður Mogensen hjá Samtökum iðnaðarins.

Sigríður segir að þetta sé raunverulegur þjóðarhagur, ekki aðeins hagsmunir stærstu raforkunotendanna innan Samtaka iðnaðarins. „Ég tel svo vera, já,“ segir hún. Ekki eigi að vera neinn vafi á því hvernig íslensk fyrirtæki geti markaðssett sína vöru og þjónustu.

„Og þetta á við um öll fyrirtæki sem eru í útflutningi. Og jafnvel snýr líka að því að laða erlenda fjárfestingu til landsins,“ segir hún.

Landsvirkjun er aftur á móti ekki á því að það gæti þjónað hagsmunum Íslands betur að sleppa því að selja upprunavottun úr landi. Stefanía segir að Landsvirkjun sé treyst fyrir náttúruauðlindum „og treyst fyrir því að skapa verðmæti úr auðlindinni.“

Samorka telur heldur ekki að salan hafi nein áhrif á ímynd Íslands. „Og kannski einmitt þvert á móti,“ segir Lovísa. Sú staðreynd að Ísland getur selt upprunaábyrgðir sýni að hér sé framleidd endurnýjanleg orka: „Hér er hægt að kaupa upprunaábyrgðir.“

Dirk Van Evercooren, formaður Evrópusamtaka útgefenda upprunaábyrgða, segir við Kveik að það sé vandamál að fyrirtæki segist nota græna orku bara vegna þess að þau séu í einhverju ákveðnu landi.

„Á ensku er sagt að maður geti ekki átt kökuna og étið hana,“ segir Van Evercooren hjá Evrópusamtökum útgefenda upprunaábyrgða. „Ef þið flytjið út upprunaábyrgðir getið þið ekki lengur sagst nota sömu grænu raforku sjálf.“

Hann segir að það sé vandamál að fyrirtæki segist nota græna orku bara vegna þess að þau séu í einhverju ákveðnu landi. Þetta gerist ekki bara á Íslandi. Þetta eigi eftir að verða stærra vandamál þegar ný raforkulöggjöf Evrópusambandsins taki gildi eftir um eitt og hálft ár.

„Þar verður kveðið á um að maður verði að notast við upprunaábyrgðir til að sanna að maður noti raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.“ Þannig að þó að það sé einhver sveigjanleiki núna telji hann að sá sveigjanleiki hverfi með nýju löggjöfinni.

En myndi Landsvirkjun kjósa að stóriðjan keypti upprunaábyrgðirnar og hér væri allt vottað? „Við hefðum alls ekki neitt á móti því,“ segir Stefanía. „Og við förum í það samtal. Þessi samtöl eiga sér stað reglulega.“