Refsingin sem á að endurhæfa menn um leið

Stærsta fangelsi landsins er óboðlegt — segja stjórnendur, fangar og opinberir eftirlitsaðilar. Stór hluti fanga lendir ítrekað í fangelsi og margir þeirra kvarta undan skorti á endurhæfingu. Um helmingur fanga situr inni vegna fíkniefnabrota, en refsivistin skilar ekki alltaf tilsettum árangri.

Meðferðargangur Litla-Hrauns er staður sem fáir Íslendingar heimsækja. Í heldur hrörlegu húsnæði, sem á sér að hluta til nærri aldarlanga sögu, er gangurinn tímabundið heimili fanga sem eiga það sameiginlegt að reyna að bæta sig eftir að hafa brotið reglur samfélagsins. Sjö fangar eru á meðferðarganginum núna og þeir hafa samþykkt að ræða við Kveik, sé nafna þeirra hvergi getið.

Meðferðargangurinn á Litla-Hrauni. Þar dvelja sjö fangar sem allir eiga það sameiginlegt að vera að reyna að taka sig á í lífinu.

Einn þeirra segir okkur frá því að hann þurfi að nýta tíma sinn í fangelsinu vel, til að taka sjálfan sig í gegn. Uppbyggingarstarf þurfi að eiga sér stað, en það sé erfitt. Eins og aðrir fangar er hann læstur inni í litlum klefa frá tíu á kvöldin til klukkan átta næsta morgun.

Annar fangi lýsir hringekju sem ófáir eiga eftir að lýsa í heimsóknum okkar í fangelsið.

„Ég kom hérna inn með 2,5 ár. Og síðan fór ég á Vernd. Stóð mig ágætlega í svona mánuð. En síðan fór maður bara einhvern veginn aftur í þetta sama - að hitta gömlu vinina. Og síðan var maður alltaf blankur þannig að maður byrjaði bara að selja fíkniefni og eitthvað svona kjaftæði sem maður átti ekki að vera að gera. Það endaði með því að ég féll bara.“

Þessir fangar eru á meðal nærri 150 sem sitja inni á Íslandi, við misjafnar aðstæður, til að taka út refsingu sem á líka að leiða til bótar eða endurhæfingar.

Aðalbyggingin í fangelsinu á Litla-Hrauni.

„Sannarlega þörf á betrumumbót“

Kostnaður samfélagsins af fangelsiskerfinu er ærinn og hver fangi er dýr.

Fram kom í skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér í desember, að mjög margt væri að í fangelsiskerfinu á Íslandi, ekki hvað síst á Litla-Hrauni. Í raun má segja að skýrslan hafi verið kolsvört.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands og afbrotafræðingur, er líkast til sá fræðimaður á Íslandi sem helst hefur kynnt sér fangelsismál og málefni fanga. Og hann segir skýrsluna áfellisdóm. „Ekki kannski endilega bara yfir Fangelsismálastofnun, heldur réttarvörslukerfinu og kannski okkur sem samfélagi, stjórnvöldum. Og það er sannarlega þörf á betrumbót.“

„Það er sannarlega þörf á betrumbót,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.

Helgi er ekki einn um þessa skoðun. Meira að segja Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, stofnunarinnar sem ber ábyrgð á fangelsiskerfinu, tekur undir þetta og segir skýrsluna staðfesta það sem stjórnendur stofnunarinnar hafi bent á um tveggja áratuga skeið.

Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Mótsagnakennd markmið

En hvaða máli skipta aðstæður í fangelsum? Hér áður fyrr var fyrst og fremst litið á fangelsisvist sem refsingu og á fangelsin sem stað þar sem fangarnir ættu kannski bara að hafa það sem verst. Endurhæfing og betrun fanga er hins vegar samfélagslega mikilvæg, ekki síst til þess að koma í veg fyrir að þeir brjóti af sér aftur, með tilheyrandi sársauka fyrir fórnarlömb og samfélagslegum kostnaði í formi lengri fangelsisvistar.

„Það má líka segja að þetta eru mótsagnakennd markmið; að refsa, að valda pínu, þjáningu hjá brotamönnum, um leið og þú ætlar síðan að endurhæfa viðkomandi,“ segir Helgi Gunnlaugsson.

Páll Winkel lýsir þessu öðruvísi: „Er þetta hefnd samfélagsins sem við viljum ná fram? Þá lokum við þá bara inni í ónýtu húsnæði. Eða viljum við endurhæfingu, viljum við ná betri árangri? Og hvernig gerum við það og skilgreinum hlutverk hvers og eins? Kostnaðarmetum það og framkvæmum. Þessi hugmyndafræði liggur fyrir hjá okkur en nú er bara að koma þessu í framkvæmd,“ segir Páll.

Víti til varnaðar

Á Íslandi eru fjögur raunveruleg fangelsi, tvö lokuð og tvö fangelsi sem kallast opin. Lokuðu fangelsin eru á Hólmsheiði og á Litla-Hrauni, en opnu fangelsin eru á Kvíabryggju og á Sogni. Opið fangelsi þýðir að engar girðingar eða múrar afmarka fangelsið, en fangar þurfa að vera tilbúnir til að fylgja skýrum reglum.

Samkvæmt afbrotafræðinni er hlutverk fangelsa í raun fjórskipt.

Í fyrsta lagi að refsa hinum brotlega, og í raun segja við hann: Þetta skaltu ekki gera aftur, annars verður þér stungið aftur í steininn.

Í öðru lagi er fangelsið víti til varnaðar fyrir aðra; sem sagt að koma í veg fyrir að fólk brjóti af sér.

Í þriðja lagi er hlutverk fangelsa að taka hættulegt fólk úr umferð — fólk sem er talið líklegt til þess að skaða samborgara sína.

Og í fjórða lagi er endurhæfing svo eitt af hlutverkum fangelsanna, það er að segja að gera þá sem þar dvelja að betri mönnum.

Til þess að fangelsiskerfið geti sinnt þessum hlutverkum sínum þarf aðbúnaður í fangelsunum allur að vera í lagi. Það er hins vegar ekki tilfellið hér á landi.

Margvíslegar brotalamir

Í skýrslu sinni beinir Ríkisendurskoðun spjótum sínum sérstaklega að Litla-Hrauni, og gerir alvarlegar athugasemdir við ástand bygginga þar, sem stofnunin telur að ógni heilsu bæði starfsfólks og fanga. Umboðsmaður Alþingis tók í sama streng í skýrslu sem hann sendi líka frá sér í byrjun desember.

Í skýrslunni segir meðal annars að huga verði að lágmarksviðhaldi húsnæðisins til að tryggja heilnæman og mannsæmandi aðbúnað og þá án tillits til þess hvort eða hvenær nýtt fangelsi verði tekið í notkun.

Margvíslegar brotalamir eru á heilbrigðisþjónustu. Dæmi eru um langa bið eftir almennri læknis- og hjúkrunarþjónustu sem og tíma hjá tannlækni. Þá bendir umboðsmaður á að starfsfólk sem sinnir lyfjagjöf þurfi í það minnsta að fá viðeigandi fræðslu og þjálfun.

Þótt ljóst sé að geðheilbrigðisþjónusta hafi batnað með tilkomu geðheilsuteymis sé enn verulegur vandi til staðar sem birtist meðal annars í því að einstaklingar sem þrífist ekki vel innan um aðra fanga séu vistaðir á öryggisdeild eða í öryggisklefa sem getur lagst þungt á þá sem glíma við andleg veikindi.

Útilokað sé að vinna með vanda þeirra verst stöddu innan fangelsisins og almennt aðgengi fanga að geðheilbrigðisþjónustu, til að mynda á geðdeildum, sé verulega skert. Mælst er til að ráðherrar heilbrigðis- og dómsmála tryggi að fangar fái sambærilegt aðgengi og aðrir borgarar að heilbrigðisþjónustu.

Umboðsmaður minnir á að skaðleg áhrif einangrunar vegna vistunar í öryggisklefa aukast eftir því sem hún varir lengur sem birtist meðal annars í aukinni sjálfsvígstíðni. Þar að auki leggist slík einangrun sérstaklega þungt á fanga með geðrænan vanda. Eftirlit heilbrigðisstarfsfólks skorti í sumum tilfellum þegar fangar séu settir í einangrun sem auki líkur á ómannlegri og vanvirðandi meðferð. Mælst er til að hið minnsta daglega sé metið hvort áframhaldandi vistun í öryggisklefa sé nauðsynleg og læknir ávallt kallaður til við upphaf hennar.

Þá telur umboðsmaður að mikil vímuefnaneysla og -vandi setji svip sinn á starfsemi fangelsisins, meðferðar- og stuðningsúrræði skorti. Við þessu þurfi að bregðast.

„Við erum fólk“

Kveikur settist niður með nokkrum föngum í þvottahúsinu á Litla-Hrauni. Þeir þekktu þetta ástand og lýstu.

„Það er svolítið litið á okkur eins og dýr,“ segir einn fanganna sem við hittum í þvottahúsinu á Litla-Hrauni.

„Einhvern veginn virðist ekkert ætla að bætast. Og það er búið að berjast fyrir þessu svo lengi að maður svona hálfpartinn missir vonina að það breytist eitthvað eða gerist eitthvað almennilega í stöðunni með þetta.“

„Það er svolítið litið á okkur eins og dýr,“ segir annar.

„Við erum fólk. Við erum manneskjur, þótt við séum í fangelsi.“

Litla-Hraun skömmu eftir byggingu þess. Ljósmynd: Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Litla-Hraun var upphaflega byggt sem sjúkrahús um 1920. Ekkert varð hins vegar af spítalarekstri í húsinu en í stað þess var ákveðið að nýta bygginguna sem fangelsi, og var það opnað 1929. Allar götur síðan, í næstum 100 ár, hefur fangelsi verið rekið á Litla-Hrauni.

Á þessum tíma hefur fjöldi húsa verið byggður á svæðinu, en heildstæð hönnun hefur aldrei átt sér stað.

Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra tekur skóflustungu að nýrri byggingu á Litla-Hrauni árið 1994. Haraldur Johannessen fangelsismálastjóri fylgist með.

Halldór Valur Pálsson hefur verið forstöðumaður á Litla-Hrauni í átta ár og hefur því marga fjöruna sopið, enda krefjandi að vera stjórnandi í öryggisfangelsi. „Hérna er búið að byggja margar byggingar í gegnum áratugina þar sem þau eru að leysa vanda hvers áratugar fyrir sig. Og eru kannski ekki hugsuð til að leysa þau vandamál sem þarf að leysa í fangelsiskerfinu árið 2023,“ sagði Halldór þegar hann sýndi Kveik aðstæðurnar skömmu fyrir jól.

Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni, í öryggisklefanum í fangelsinu.

Niðurbrjótandi umhverfi

„Í fyrsta lagi er Litla-Hraun bara heilsuspillandi. Við getum ekki vistað neina þar. Ef við lokum leikskólum og skólum vegna einstaklinga sem eru þar bara á daginn, en þarna býr fólk jafnvel í einhver ár,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Húsakynnin á Litla-Hrani eru víða farin að láta á sjá.

Líkamleg áhrif vistar í illa förnu húsnæði eru eitt. Andleg áhrif eru annað, segir Helgi Gunnlaugsson. „Löng vist á Litla-Hrauni, til einhverra ára, þetta er bara niðurbrjótandi. Þetta er ekki umhverfi sem lætur þig fá trú á lífið. Þetta er svona mannvirðingarleysi, ef svo mætti að orði komast.“

„Hér er meira aðkallandi þörf heldur en til dæmis á Hólmsheiði,“ segir Matthías.

Matthías Matthíasson stýrir geðheilsuteymi fangelsanna. Við hittum hann þar sem hann var að heimsækja fanga á Litla-Hrauni, en það gerir hann um það bil einu sinni í viku. Hann lýsir stemningunni á Litla-Hrauni sem allt annarri en í opnu fangelsunum eða í fangelsinu á Hólmsheiði, sem var formlega opnað sumarið 2016 og uppfyllir nútímakröfur.

„Hér er meira aðkallandi þörf heldur en til dæmis á Hólmsheiði,“ segir Matthías. „Og það er húsnæðið, það er einhvern veginn þessi menning sem myndast þegar það er blandað inn á deildir. Af því að oft er ekki hægt að gera annað. Þá blandast inn á deildir þannig að einstaklingar eru bara hræddir um öryggi sitt. Það er verið að bjóða efni, af því að þau geta komið inn jafnvel þótt það sé reynt að koma í veg fyrir að efni komi hingað inn, sem sagt vímuefni. Og þar af leiðandi verður þetta mjög flókið líf, að vera hérna.“

Tekin hefur verið ákvörðun um að byggja nýtt öryggisfangelsi við hlið Litla-Hrauns, en það var metið hagkvæmara að gera það frekar en að laga húsakynnin sem eru fyrir. Stefnt er að því að nýtt fangelsi verði tilbúið eftir fimm ár, eða í lok árs 2028, ef allt gengur að óskum. En fram að því þarf áfram að notast við gömlu byggingarnar, sem ekki voru hannaðar sem fangelsi.

Til stendur að byggja nýtt fangelsi við hlið Litla-Hrauns. Það verður tilbúið í fyrsta lagi í lok árs 2028.

„Reynt að hylma yfir allt“

Halldór, fangelsisstjóri á Litla-Hrauni, sýnir Kveik gamla, þrönga klefa sem hætt var að nota sem fangaklefa árið 1995. En þá tók við annað hlutverk. Í þessum nöturlegu klefum gátu ættingjar og ástvinir heimsótt fanga. Þannig var það þar til fyrir nokkrum vikum, þegar ákveðið var að grípa til örþrifaráða.

Halldór Valur sýnir fréttamanni herbergi sem eitt sinn var notað sem fangaklefi og síðar sem heimsóknaraðstaða.

„Þannig að við settum hérna upp til bráðabirgða heilsugæslustöð og heimsóknaraðstöðu sem er þá boðlegri en í gamla húsinu,“ segir Halldór þar sem hann stendur við gáma sem settir hafa verið upp við hlið gömlu bygginganna. Gámarnir verða þar í það minnsta næstu fimm árin, þegar nýtt fangelsi ætti að vera tilbúið.

Það að þetta sé í gámum, segir það ekki sitt um hvað þetta er bágborið hérna?

„Þegar það er orðið óskastaðan, að komast inn í gámana, þá segir það ýmislegt,“ segir Halldór.

„Þegar það er orðið óskastaðan, að komast inn í gámana, þá segir það ýmislegt,“ segir Halldór um gámabyggð sem nýverið var sett upp á Litla-Hrauni.

Hluti húsnæðisins að Litla-Hrauni er ekki í notkun, sem fangarnir segja þó mun stærra og umfangsmeira vandamál en lokunin gefur til kynna.

„Það þarf að bæta svo margt og mikið hérna, til dæmis eins og mygluna sem situr í húsinu. Það eru allar hæðir, gólfið flagnandi af, mygla undir því, alveg svört mygla, og það er einhvern veginn alltaf reynt að hylma yfir allt,“ segir einn þeirra við Kveik.

Múrskemmdir í einu húsanna á Litla-Hrauni.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir einmitt að það veki athygli að starfsfólk á Litla-Hrauni verði mun oftar veikt en starfsfólk í öðrum fangelsum. Velta megi fyrir sér hvort ástand bygginga sé farið að hafa neikvæð áhrif á heilsu þeirra sem þar starfa og dvelja.

„Ég held að það sé að hluta til út af húsakynnunum, alveg klárlega,“ svarar Páll Winkel aðspurður. „En jafnframt, þegar ástandið er slæmt á Litla-Hrauni, þá er það mjög slæmt. Þegar hálft fangelsið er bara í neyslu og jafnvel meirihluti fanga í neyslu, og við að reka öryggisdeild þar sem við erum með fanga í geðrofi þar að auki, þá er rosalega erfitt að vinna þarna. Maður verður dauðþreyttur á að vera þarna þegar ástandið er svona slæmt.“

En það er hærri tíðni veikinda meðal starfsfólks á Litla-Hrauni en annars staðar, ekki satt?

„Jú, töluvert.“

Nú geta starfsmenn tekið sér veikindadaga ef aðstæðurnar eru heilsuspillandi, en fangarnir geta það ekki, þeir geta ekki farið heim til sín. Er það ekki einhvers konar brot á þeirra réttindum?

„Jú. Meðan við erum með heimild heilbrigðisyfirvalda til þess að reka fangelsið, þá teljum við þetta vera í lagi. En auðvitað myndum við vilja hafa aðstæðurnar betri. En við erum í þessari stöðu, þetta er stærsti partur lokaðra rýma á landinu, og við þurfum að nota það. Ef okkur yrði gert að loka þessu fangelsi með engum fyrirvara, þá býð ég nú ekki upp í þann dans sko.“ svarar Páll.

Sömu andlitin

Ástandið á Litla-Hrauni endurspeglar mögulega það sem er að í fangelsiskerfinu á Íslandi. Kerfið er fjársvelt á sama tíma og föngum fjölgar. Þeim fækkaði að vísu frá 2019 til 2020, en hefur stöðugt fjölgað síðan þá, úr 128 föngum á meðaltali á dag í 148 í fyrra.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á tímabilinu frá 2018 til 2022 hafi næstum helmingur fanga verið áður í fangelsi, nánar tiltekið 46,8% þeirra. Í skýrslunni segir að þótt Ísland komi ágætlega út í norrænum samanburði hvað þetta varðar, þá geti það ekki talist ásættanlegt að um helmingur fanga snúi aftur í fangelsi, enda sé grundvallarmarkmið endurhæfingar í fangelsi að minnka líkur á að einstaklingur verði dæmdur aftur.

Halldór fangelsisstjóri þekkir þetta. „Við sjáum sömu andlitin aftur og aftur. Það er ákveðinn hópur sem er alltaf að koma aftur og er í sífelldum endurkomum inn í fangelsi. Og það er líka vandamál, af hverju þeir eru að koma aftur. Og það er ekki vandi sem við getum ein leyst hér,“ segir Halldór. „Það þarf líka að leysa það hinum megin, þegar þeir koma út. Að það sé einhver samfella, og sameiginlegur skilningur á því hjá öllum; félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og Fangelsismálastofnun á því hvað við getum gert fyrir þessa aðila þegar þeir losna og að menn séu tilbúnir til þess að taka boltann fyrir þá, þegar þeir losna.“

„Og ég sá ekkert annað í stöðunni heldur en að fremja glæp til þess að vera handtekinn,“ segir einn fanginn á meðferðarganginum.

Einn fanganna sem ræddi við Kveik lýsti því hvernig hann framdi afbrot til þess eins að komast aftur í fangelsi. „Það er fáránlegt að segja frá því. En ég var bara í húsnæðisvanda, komst ekki inn á gistiskýlin. Þetta var akkúrat fyrir ári síðan, í janúar í fyrra. Fimmtán stiga frost úti. Og ég sá ekkert annað í stöðunni heldur en að fremja glæp til þess að vera handtekinn. Ég fór með hníf inn í apótek og hótaði starfsmanni.“

Matthías, sem sinnir sálgæslunni, kannast við þessi dæmi. „Fólk sem sagt fer út en það tekur kannski ekkert betra við. Það er líka ákveðin vöntun á úrræðum eftir afplánun. Einstaklingar eru kannski heimilislausir og það er hrikalegt að það sé betra að vera í fangelsi heldur en einmitt á götunni í frostinu eins og það er núna. Og þá finnst sumum jafnvel betra að koma til baka,“ segir Matthías. „Það vill það samt enginn, koma aftur í fangelsi, en það bara gerist. Fólki er skítkalt og það er að setja í sig efni til þess að þola kuldann, það er að leita sér að stöðum til þess að sofa á, það fer síðan í gistiskýli á nóttunni og þá er kannski fangelsið jafnvel bara betra. Og það er hrikalegt.“

Ofbeldi og fíkniefni

Í nóvember árið 2022 brutust út gríðarleg átök á milli fjölda fólks á næturklúbbnum Bankastræti Club. Hnífum var beitt og tveir hlutu lífshættulega áverka. Hátt í 30 manns voru handteknir og nokkrir þeirra hlutu þunga dóma. Málið tengist uppgjöri tveggja hópa sem afar mikilvægt er að aðskilja þegar þeir koma inn í fangelsi. Það er hins vegar ekki hægt á Litla-Hrauni.

Átök á Bankastræti Club í nóvember árið 2022.

„Þetta er ein megin ástæða þess að ofbeldis- og fíkniefnamál eru þar viðvarandi vandamál,“ segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar

„Litla-Hraun er þannig hannað að það er beinlínis hættulegt,“ segir Páll fangelsismálastjóri. „Það er ekki hægt að skilja að hópa fanga og þetta er bara andstyggilegur staður hvað það varðar. Þó að starfsfólkið sé frábært, þá er bara takmarkað sem þú getur gert við svona aðstæður eins og þið hafið séð.“

Afar erfitt er að aðskilja fanga á Litla-Hrauni, sérstaklega á útisvæðinu þar sem fangar hittast á hverjum degi.

Halldór segir dæmi um hefndaraðgerðir eða einhvers konar árásir sem tengja megi við skipulagða brotastarfsemi, þar sem menn þurfi annað hvort að hefna eða svara fyrir eitthvað.

„Og það er bara svoleiðis að um leið og þessir einstaklingar úr gengjum eru komnir inn í fangelsin, þá hverfa átökin ekkert þótt þau séu komin inn í fangelsin. Þau halda áfram þar. Og við þurfum þá að hafa aðbúnað til þess að geta leyst það.“

Það segir sitt um hörkuna á Litla-Hrauni, að þar finnast oft heimatilbúin vopn. Ómar Vignir Helgason, deildarstjóri á Litla-Hrauni, sýnir okkur nokkur slík vopn. Þar á meðal eru gafflar sem búið er að beygja til og skilja eftir einn pinna í og rafsígaretta sem búið er að troða fulla af beittum blöðum.

„Þetta eru alls konar vopn sem við höfum fundið í klefaleitum,“ segir Ómar. „Og við erum að haldleggja þetta nokkuð reglulega.“

En aðskilnaður fanga er ekki aðeins nauðsynlegur út af ofbeldi, heldur einnig út af dreifingu fíkniefna um fangelsin. Á Litla-Hrauni, þar sem allir hittast, dreifast eiturlyf um allt fangelsið á örskotsstundu, í opnu útirými, í sjoppunni eða í vinnunni.

En af hverju er ekki hægt að koma í veg fyrir að efnin berist hingað til að byrja með?

„Sko efnin berast náttúrulega inn með ýmsum hætti,“ segir Halldór. „Og við þyrftum þá að takmarka ýmis réttindi fanga mjög mikið til þess að koma í veg fyrir það. Við þyrftum að setja miklu meiri takmarkanir á heimsóknir, við þyrftum að setja miklu meiri takmarkanir á þá sem koma inn í fangelsið, og hvað menn fara mikið út úr fangelsinu í einhverjum lögmætum erindum. Þannig að við værum farin að ganga mjög nærri réttindum manna hérna til þess að leysa það. Miklu eðlilegra er að reyna að fara einhvers konar meðalveg í því, en á móti að geta boðið mönnum upp á einhvers konar aðstoð, og minnka eftirspurnina á móti,“ segir Halldór.

Ómögulegt er að koma í veg fyrir dreifingu fíkniefna um Litla-Hraun, ef efnin komast inn fyrir veggi fangelsisins á annað borð.

Ólíkt Litla-Hrauni, þá er fangelsið á Hólmsheiði hannað þannig að auðvelt er að skipuleggja starfið þannig að fangar hittist ekki eða noti ekki sömu rýmin.

„Ef það kemur inn á Hólmsheiði efni, sem getur gerst, þá fer það inn á einhverja tiltekna deild, við sjáum það og starfsfólkið bregst við. Þá er það bara einskorðað við eina deild,“ segir Páll. „Þetta er gríðarlegt öryggismál, bæði fyrir starfsfólk en ekki síður hina fangana sem eru að glíma við fíkn.“

9 til 11 milljarðar króna

Eðli málsins samkvæmt skiptir miklu máli að fíkniefni dreifist ekki um fangelsi, enda á stór hluti fanga við einhvers konar fíknisjúkdóm að stríða.

Einn fanganna lýsir því við Kveik að aðstæður fanga ýti undir fíknisjúkdóma.

„Fjárhagserfiðleikar, húsnæðisóöryggi, kvíðinn sem kemur af því og hvað tekur við þegar við komum út. Og það tekur ekkert við,“ segir hann.

Páll fangelsismálastjóri segir mikilvægt að styðja fanga sem séu í virkri neyslu, en til þess þurfi fjármagn. Þekkingin og aðferðafræðin séu til staðar.

„Það er hagkvæmt fyrir samfélagið, og gerir alla afplánun hentugri,“ segir Páll.

Í skýrslu um málefni fanga sem kom út árið 2021 kemur fram að kostnaður samfélagsins vegna einstaklinga sem fá refsidóma sé á bilinu 9 til 11 milljarðar króna á ári. Það er því ljóst að það er til mjög mikils að vinna að endurhæfa fólk í fangelsi, meðal annars til þess að koma í veg fyrir að það lendi þar aftur.

En Matthías Matthíasson, sem leiðir sálgæsluna, segir umhverfi og aðstæður oft koma í veg fyrir að þetta markmið náist.

„Það bara tekst ekki vegna þess að ramminn, húsnæði og margt, til dæmis verklag sem mætti aðeins endurskoða, það er að koma í veg fyrir betrun oft á tíðum.“

Fangarnir taka undir þetta, að endurhæfingin á Litla-Hrauni heppnist oft ekki.

„Þetta er nefnilega svo absúrd konsept að taka mann sem er samfélaginu og sjálfum sér til skaða og ama. Að taka hann úr umferð, bara til þess að skila honum á nákvæmlega sama stað og þú tókst hann úr,“ segir einn þeirra.

Annar bætir við: „Þetta er bara algjörlega upp á mann sjálfan komið, hvort maður er að skána eða ekki.“

Þannig að aðstæður hérna eru ekki að hjálpa til?

„Nei. Fangelsið er ekkert að hjálpa til. Ef eitthvað er, þá er það bara verra sko. Maður bara sogast inn í eitthvað umhverfi hérna og þetta er bara svolítið sjúkt umhverfi.“

„Við komum ekkert betri menn út hérna sko,“ segja fangarnir í þvottahúsinu. „Það er svona einn á móti milljón sko.“

„Við komum ekkert betri menn út hérna sko,“ segja fangarnir í þvottahúsinu.

Páll Winkel segir að þegar kerfið virki séu líkur á að fangar komi út betri menn en þegar þeir fóru inn.

„Það er að segja þegar við erum með stigskipta afplánun, og getum boðið upp á þá þjónustu til þess að halda þeim á beinu brautinni, komið þeim úr lokuðu fangelsi í opið fangelsi, úr opnu fangelsi á áfangaheimili, af áfangaheimili og heim, þá virkar það. Já, þá virkar það klárlega. En það virkar ekki þegar menn koma inn í neyslu, ná sér ekki út úr neyslu og eru allan tímann á Litla-Hrauni í lokuðu fangelsi. Það er ekki að virka, nei.“

„Það besta“

Það sem hins vegar virkar er að láta fangana hafa eitthvað að gera á meðan þeir sitja inni. Einhverjir fangar á Litla-Hrauni eru í námi, og öðrum býðst að vinna.

Jón Ingi Jónsson er fangavörður og smíðakennari, sem tekur á móti Kveik inni á smíðaverkstæði. „Þetta er það besta sem við gerum fyrir stráka í fangelsi, það er að hafa svona starfsstöðvar. Láta þá vera í rútínu, vakna hálf níu á morgnana, vera í vinnu til þrjú á daginn, og hafa eitthvað að gera.“

Fleiri störf eru á Litla-Hrauni, til dæmis á númeradeildinni, en öll bílnúmer landsins eru framleidd þar. Fyrir þá vinnu fá menn 415 krónur á klukkustund, og svo fá allir fangar 1700 krónur á dag í fæðisfé, því þeir þurfa sjálfir að kaupa mat og aðrar nauðsynjar eins og hreinlætisvörur.

Öll bílnúmer á Íslandi eru framleidd á Litla-Hrauni. Þar fá fangar 415 krónur á tímann, líkt og í öðrum störfum í fangelsinu.

Geðheilbrigðisþjónusta er afar mikilvæg í fangelsum, enda eiga margir fangar við geðrænan vanda að stríða — sumir þeirra mjög alvarlegan. Fangarnir sem Kveikur ræddi við nefndu allir þetta atriði og hversu illa væri fyrir mörgum samföngum þeirra komið. Hætta væri á að veikir menn yrðu enn verri og jafnvel óbjargandi eftir fangelsisvist, án nokkurrar geðheilbrigðisþjónustu. Stór hluti fanga ætti líklega alls ekki að vera í fangelsi, heldur á geðdeild eða í öðru úrræði.

Páll Winkel tekur undir þetta.

„Og við sjáum hjá ákveðnum hópi fólks vítahring. Þetta eru einstaklingar sem eru veikir. Þeir eru í mikilli neyslu, og þeir eru komnir inn í fangelsi vegna þess að þeir eru að fjármagna neysluna. Og það snýst ekki um að þeir séu teknir með einhverja dagskammta af fíkniefnum heldur eru þeir einfaldlega fárveikir að ná í pening, og gera það með fjármunabrotum og gera það þangað til þeir komast í efnin.“

Hægt sé að taka á þessum vanda með nokkrum leiðum.

„Ein leiðin er að bjóða upp á mjög fullkomið meðferðarstarf inni í fangelsunum, sem við gerum ekki. Við erum að reka einn meðferðargang og hann er á Litla-Hrauni. Þarna þyrfti að gefa alveg hraustlega í,“ segir Páll. „Og svo má velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að fólk sem er veikt, alvarlega veikt, sé dæmt í fangelsi. Það er svo annað.“

Harðar refsingar virka ekki

Þegar skoðað er fyrir hvers konar glæpi fólk situr inni í fangelsum á Íslandi koma athyglisverðir hlutir í ljós. Þeim sem sitja inni vegna hvers kyns fíkniefnabrota hefur fjölgað stöðugt síðustu ár, og er nú svo komið að langstærstur hluti fanga á Íslandi situr inni vegna innflutnings á fíkniefnum, framleiðslu þeirra eða sölu. Næstum helmingur fanga á Íslandi í fyrra sat inni vegna fíkniefnabrota, nánar tiltekið 47,5% þeirra.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor og afbrotafræðingur, telur tímabært að endurskoða brot tengd fíkniefnum. Fangelsisvistin sé samfélaginu dýr en árangurinn láti á sér standa.

„Það sem við höfum séð undanfarið varðandi það að þungir dómar fyrir fíkniefnabrot, þeir hafa ekki verið að skila sér. Ef þú skoðar markaðinn hjá okkur, þá virðist aldrei vanta dóp á markaðinn hjá okkur. Það virðast alltaf vera aðilar sem eru tilbúnir til þess að koma með þetta framboð af þessum efnum. Þannig að það að einblína á harðar eða hertar refsingar í þeim málaflokki til þess að einhverju leyti að vinna á þessum fíkniefnavanda, ég held að það sé ekki að gera sig sko,“ segir Helgi.

„Þungir dómar fyrir fíkniefnabrot, þeir hafa ekki verið að skila sér,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur.

Páll Winkel talar á sömu nótum: „Ef við erum að tala um innflutning á fíkniefnum, þá erum við að tala um brot sem löggjafinn metur mjög alvarleg. Það er hægt að dæma menn í 12 ára fangelsi, og er gert fyrir slík mál. Ég held hins vegar að það sé býsna þungur dómur.  Og ég held að það hafi ekki afgerandi áhrif á hug viðkomandi brotamanns hvort hann fái 10 ár eða 12 ár. En það er aukinn kostnaður fólginn í því að vista viðkomandi tveimur árum lengur.“

„Og ég held að það hafi ekki afgerandi áhrif á hug viðkomandi brotamanns hvort hann fái 10 ár eða 12 ár,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Á Litla-Hrauni eru tæplega 90 fangar í afplánun. En þar vinnur líka fjöldi fólks, alls um 70 manns, þar af 44 fangaverðir. Og Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við aðstæður þeirra. Kveikur heimsótti varðstofur og kaffistofur, sem eiga það allt sammerkt að vera þröngar, háværar og illa loftræstar. Þar vinna þó fangaverðir á vakt allan sólarhringinn allt árið um kring.

„Við viljum líka að þetta sé aðdráttarafl í góðum vinnuaðstæðum fyrir starfsfólkið okkar,“ segir Halldór. „Og það gengur okkur illa að bjóða upp á þegar við erum með gömul, úrelt hús, þar sem vinnuaðstaðan er nokkurra fermetra kytra sem þú þarft að deila með vaktfélaga þínum kannski þrjár nætur í röð. Það er ekki spennandi.“

Google-umhverfið

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að það sé engin heildarstefna á sviði fangelsismála á Íslandi.

„Í þessu felst meðal annars að ef það er brugðist við einhvers staðar annars staðar í þessari keðju, ef það er bætt í hjá lögreglu, ákæruvaldinu eða dómstólum, lög hert og svo framvegis, þá verður að gera ráð fyrir því að það skili sér í einhverri afurð sem verður þá skjólstæðingar okkar, fangarnir,“ segir Páll, og bætir við að kerfið sé undirmannað vegna niðurskurðar um árabil. Launakostnaður sé 75% af útgjöldum stofnunarinnar svo að sparnaðarkrafa þýði óhjákvæmilega að fækka þurfi starfsfólki.

Fangelsið á Hólmsheiði.

Helgi Gunnlaugsson telur vænlegra að huga að öðrum úrræðum en að fjölga fangarýmum. Hann nefnir valkosti varðandi refsitegundir og á þá við opnu fangelsin, en einnig að þeir sem hljóta refsidóma afpláni með því að sinna samfélagsþjónustu eða sæta rafrænu eftirliti með ökklabandi. Hvort tveggja hefur verið gert í auknum mæli hér á landi, með góðum árangri.

„Og þetta hefur ekki aukið ítrekunartíðni, þetta hefur ekki gert að verkum að menn séu að brjóta meira af sér aftur en áður. Þannig að við eigum óhikað að einbeita okkur að úrræðum utan fangelsa í ríkari mæli, og þá sérstaklega gagnvart þessum vægari brotum, styttri dómum.“

En nú er fæling eitt af hlutverkum fangelsa, fólk segir: Ég ætla ekki að fremja þennan glæp af því að ég fer í fangelsi. En eykur það þá ekki líkurnar á að fólk hugsi; „ég verð bara í rafrænni vöktun, þetta verður ekkert mál“?

„Ég held að menn vanmeti þessi refsiúrræði sem fælingu,“ svarar Helgi. „Það er ekkert eftirsóknarvert að vera í samfélagsþjónustu. Það er ekkert eftirsóknarvert að vera í rafrænni vöktun. Eða á áfangaheimili. Eða að vera á skilorðsbundnum dómi. Það er ekkert sem menn segja sem svo; „ég ætla að fremja brotið vegna þess að það er svo auðvelt að vera í rafrænni vöktun,“ eins og þú nefnir. Stimpillinn að brjóta af sér og fara í gegnum kerfið er mjög íþyngjandi fyrir langflesta. Þannig að það er næg fæling í sjálfu sér. Fyrir utan að í þessu Google-umhverfi sem við lifum í í dag, að brjóta af þér, og brot sem fara í fjölmiðla eða fara á netið, það er líka ákveðin refsing og oft hætta á ákveðinni útilokun,“ segir Helgi.

„Þannig að menn mega ekki gleyma því að þetta eru refsingar. En þetta eru refsingar sem eru ódýrari og skila oft á tíðum alls ekki síðri árangri en þessi lokaða fangavist ef ekki bara betri.“

Útsýnið úr fangaklefa á meðferðarganginum á Litla-Hrauni.

Helgi segir mikilvægt að horfa til þess sem vel er gert í nágrannalöndunum, þar sem tekist hefur að koma í veg fyrir endurkomur í fangelsi með markvissri meðferðarstefnu inni í fangelsunum. Eyða þurfi hræðslu við að brotamenn afpláni í opnum úrræðum.

„Meirihluti þeirra er ekkert hættulegur. Hann getur alveg afplánað við opnari úrræði. Við þurfum ekki svona mikið öryggiskerfi utan um allan þennan hóp.“

Erfiðast að koma út

Þótt vistin í fangelsi sé erfið, má ekki gleyma því að það geta fylgt því stórar áskoranir að losna úr fangelsi. Tveir fanganna á meðferðarganginum lýsa þessu vel, sem og þeim flóknu tilfinningum sem fylgja því að ljúka brátt afplánun.

Annar þeirra, stór maður með skegg, segist ekki geta beðið. „En ég er einstaklega heppinn með það af því að ég er með vinnu sem bíður eftir mér, ég er með heimili. Það bíður margt eftir mér en jú, ég er alveg kvíðinn fyrir því hvað tekur við, hvernig ég mun bregðast við.“

Hinn fanginn, sem áður greindi frá því hvernig hann ógnaði starfsmanni apóteks með hnífi til þess eins að lenda á ný í fangelsi, lýsir munstri sem er allt of vel þekkt.

„Að afplána hér inni, það er ekki það erfiðasta. Það er erfiðast að koma út og fara bara út í óvissuna, skítblankur. Og ég er til dæmis í húsnæðisvanda. Margir eru það hérna. Eru kannski ekki með sterkt bakland. Með vinnu, maður þarf að mæta alls konar fordómum líka því að núna er maður náttúrulega búinn að sitja inni. Og það er bara ógeðslega erfitt að koma héðan út. Maður er kominn inn í þetta fangelsis-batterí og þá er bara erfitt að koma sér út úr því.“