Prinsinn og dauðinn

Svavar Pétur Eysteinsson dýrkar hversdagsleikann með hliðarsjálfi sínu Prins Póló meðan hann glímir við ólæknandi krabbamein á fjórða stigi. Hann hugsar mikið um dauðann en óttast hann ekki.

Hann er kannski landsþekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, en hjá Svavari finnur sköpunarþráin sér margar aðrar útleiðir, enda óslökkvandi – og hreinlega lífsspursmál.

Ég hef bara þessa þörf til að búa eitthvað til og það er bara það sem ég geri frá morgni til kvölds. Sama hvort það sé flík eða málverk eða tónlist eða ljósmynd eða vídeó eða eitthvað. Og það er í rauninni það sem heldur mér á lífi. Því ég hef alveg átt tímabil þar sem ég hef ekki haft löngun til að skapa og þá finnst mér ég vera bara algjörlega dauður. Bara ekki til.
Vinnustofa Svavars. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Rætur Svavars liggja í Breiðholtinu. Hann er mótaður af menningarstraumum níunda áratugarins og það kom ekki annað til greina en að feta listræna braut. Hann lauk námi í grafískri hönnun við Listaháskólann en hefur hitt þjóðina í hjartastað með margverðlaunaðri tónlist sinni og textum þar sem yrkisefnið er nakinn hversdagsleikinn.

„Náttúrulega, sem Prins, þá er ég svona svolítið að dýrka hversdagsleikann og upphefja hversdagsleikann og setja hann í hátíðlegri búning,“ segir Svavar.

Svavar ólst upp í Breiðholti. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Vinnustofa Svavars er full af listaverkum í vinnslu sem eru byggð á textum hans. Þau eru öll í þeim björtu litum sem einkenna flest verka hans.

„Ég hef ekki gaman af daufum litum, allavega í því sem ég er að vinna með grafískt. Þetta eru sjoppulegir litir og Prinsinn er að vinna með sjoppulega stemningu,“ segir Svavar.

Orðið sjoppulegt notar hann alls ekki í neikvæðri merkingu, þvert á móti.

„Sjoppulegt, það er bara hversdagslegt í rauninni, fyrir mér. Það er hversdagurinn, hversdagurinn er sjoppulegur og sjoppan er falleg. Það er svo mikið af litum í sjoppum. Að ganga inn í góða sjoppu er bara eins og fara inn í gott gallerí.“

„Að ganga inn í góða sjoppu er bara eins og fara inn í gott gallerí.“ Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV

Svavar og kona hans Berglind Häsler fluttu til Reykjavíkur síðasta sumar með börn sín þrjú frá Karlsstöðum í Berufirði. Þar höfðu þau gert upp býlið, sinnt ferðaþjónustu, matarframleiðslu og blómlegri menningarstarfsemi í sjö ár.

Flutningurinn varð í kjölfar þess að Svavar greindist með krabbamein í vélinda árið 2018. Meinið er óskurðtækt og er á fjórða og síðasta stigi, haldið niðri með reglulegum lyfjagjöfum.

Sú lífsreynsla að greinast með ólæknandi krabbamein hefur haft áhrif á bæði sköpunarþrá Svavars og listaverkin úr smiðju hans.

„Það er svo mikið sjokk að fá svona greiningu að þú ert kannski bara fyrsta árið svolítið stjarfur,“ segir Svavar.

„En svo þegar þú áttar þig á því að þú ert ennþá hérna, og það hefur kannski ekki svo mikið breyst, þá heldur maður áfram að skapa. Og eftir langt stöðnunartímabil, þegar ég fann að ég gat farið að skapa aftur og ég gat farið að vera Prinsinn aftur, bara hömlulaust, þá varð bara lífið aftur eins og það var að mjög miklu leyti. Þó svo að auðvitað sé svona sjúkdómur alltaf stór hluti af deginum líka,“ segir hann.

Svavari finnst auðveldara að tala um myrka hluti eftir greininguna.

„Mér finnst auðveldara að semja um þá og skrifa um þá. Næsta plata Prinsins sem er í smíðum núna, það verður kannski meira af dimmari setningum þar inni.“

Prinsinn er í hljóðveri um þessar mundir þar sem ný plata er í smíðum. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Vafalaust eru margir spenntir fyrir nýrri plötu frá Prinsinum, en síðasta plata sem kom út var Falskar minningar (2019) og innihélt úrval laga hans í hátíðarútsetningum.

„Ég byrjaði svona að bauka í plötu í byrjun árs og er allt í einu kominn með helling af lögum sem ég ætla bara að vera svolítið fljótur að vinna úr. Ég er að fara að opna sýningu í Gerðubergi í sumar. Þannig að þá er ég svona að blanda saman myndlistartengdu efni Prinsins og tónlistinni,“ segir Svavar.

Ég er annaðhvort ofanjarðar eða neðan

Svavar segist oft vera spurður á förnum vegi hvernig hann hafi það. Það sé auðvitað eðlileg spurning í ljósi þess að margir vita að hann glímir við erfitt krabbamein.

„Stundum þreytist maður á að svara þessari spurningu. Því að fyrir mér er það bara að ég er annaðhvort ofanjarðar eða neðan. Og meðan ég stend hérna fyrir framan þig er ég augljóslega ofanjarðar. Og það í rauninni bara nægir mér. Þó svo að auðvitað sé allt í lagi að ræða málin og fara í gegnum þau, taka stöðuna og svoleiðis, þá finnst mér miklu skemmtilegra að hitta fólk bara og fara beint í að ræða eitthvað hversdagslegt sko. Því það verður oft að einhverju yrkisefni fyrir Prinsinn.“

Prinsinn nærist á hversdagsleikanum og upphafning hversdagsleikans er eins og rauður þráður í allri listsköpun Svavars. Meðal ljósmynda hans má til dæmis finna verkið „Óður til örbylgjuborgarans.“

„Þetta er ljósmynd af örbylgjuofni sem stendur opinn. Og fyrir framan ofninn er þetta íkon sem örbylgjuhamborgarinn er. Þú finnur í rauninni ekki meiri skyndibita heldur en örbylgjuhamborgara,“ segir Svavar.

Í Havarí, galleríi Prinsins og hirðar hans. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Svavar gerir oft mörg eintök af sama verkinu.

„Já, mér finnst dálítið gaman að horfa á myndlistina alveg eins og tónlistina, þú flytur sama lagið oft á sviði og spilar það oft á hljómplötu eða í útvarpi. Og sama lagið fær að rúlla aftur og aftur og aftur. Alveg þangað til þú færð leið á því,“ segir hann.

„Ég í rauninni horfi á myndlistina alveg eins. Ég geri verkið bara þangað til ég nenni ekki að gera það lengur. Þá kemur eitthvað annað verk í staðinn. Ég hef reynt að óttast það ekki að vera sell-out,“ segir Svavar, en með því á hann við tengingu markaðsafla og listar.  

„Sumum listamönnum finnst óþægilegt að selja. Vilja bara skapa og finnst allt sem kemur að markaði, sölu eða viðskiptum fráhrindandi. Og ég skil það vel að mörgu leyti og ég hef alveg átt þá spurningu við sjálfan mig. En mér finnst mjög gaman að blanda þessu saman. Að hugsa bara sem svo að þetta er bara það sem ég geri og ég þarf að lifa á þessu. Þetta fær að vinna saman í einhverjum graut.“

Prinsinn er skjöldur

„Það er Prinsinn sem semur tónlistina,“ segir Svavar.

„Ég þarf að fara úr mínum eigin líkama yfir í líkama Prinsins til þess að semja þessa músík sem að hann er þekktur fyrir. Ég fer ekki í eins mikla ritskoðun á sjálfum mér þegar ég er í hlutverki Prinsins. Þegar maður er með svona aukasjálf þá er það skjöldur fyrir manns prívat líf. Auðvitað eru mörkin þarna á milli oft óljós. En mér finnst mjög þægilegt þegar ég get bara farið í Prinsinn, verið hann, og þá fær hann að leika lausum hala innan þess mengis.“

Hann segir að Prinsinum leyfist miklu meira en Svavari.

„Ég get líka þá bara svo auðveldlega, sem Svavar, vísað á Prinsinn ef það koma upp einhver vafamál.“

Svavar segir að fólkið á heimilinu sé mjög þakklátt fyrir Prinsinn.

„Því að þegar Prinsinn er upp á sitt besta þá fer alvarleikinn til hliðar. Í Prinsinum felst einhverskonar leikgleði. Og mér finnst bara mjög mikilvægt og skemmtilegt að taka hana með mér inn í hvern einasta dag. Þannig sameinast ég sem Breiðhyltingurinn Svavar og svo Prinsinn.“

Svavar ásamt föður sínum, Eysteini Péturssyni. Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Þú veist í rauninni aldrei neitt

„Mér finnst vonin svo skemmtileg,“ segir Svavar.

„Og hún, vonin, er svo trúarleg finnst mér. Þannig að ég tengi það svolítið saman kannski, vonina og trúna. Og hún heldur manni gangandi svolítið lengi. Þegar maður fer langt niður, til dæmis þegar þú ert að glíma við krabbamein eins og ég er að gera núna, þá er stiginn upp úr því, það er bara vonin. Annaðhvort hugsa þá bara um það að þú ert þá allavega hér í dag. Eða þá að hugsa vonina sem stærra samhengi: hver veit nema þú bara verðir elsti maður Íslands? Það er hluti af þessari von, þú veist aldrei neitt. Þú veist í rauninni aldrei neitt nema bara næsta skref sem þú tekur.“

Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson/RÚV.

Hugsarðu mikið um dauðann?

„Já, ég hugsa mikið um dauðann og óttast hann ekki. Ég óttast náttúrulega sársauka, eins og allir. Það er ekki nema kannski bara hnefaleikamenn sem óttast ekki sársauka, get ég ímyndað mér. En ég óttast ekki dauðann sem slíkan því að hann er það sem við eigum öll sameiginlegt. Hvenær hann kemur er bara tímaspursmál í rauninni. Hann sækir okkur bara á mismunandi tímum. Svo er maður allt í einu farinn að hugsa bara: þegar ég fer, hvað verður um hina? Mér finnst allar þessar hugsanir ekki óþægilegar. Þær eru í rauninni þægilegar og veita manni svona bara smá frið, að leyfa sér að hugsa um það og ræða það.“

Er dauðinn kannski svolítið tabú?

„Ég veit það ekki, jú ég held það. Ég held það séu margir sem skauta yfir hann, sérstaklega í samræðum við börn. Og finnst kannski stundum eins og það sé óviðeigandi að vera að ræða dauðann. Og ég hef alveg verið í þeirri aðstöðu sjálfur. Maður hefur kannski gert minna af því eftir að dauðinn varð að svona aktúelt fyrirbæri fyrir mér.“

Það er erfitt að ímynda sér það að vita að dauðinn sé ekki svo langt í burtu. Ekki það að við getum auðvitað dáið hvenær sem er. En í þínu tilfelli þá veistu að hann er ekki svo langt í burtu.

„Já, hugsanlega.“

Hugsanlega. Mig langar bara að fá að vita hvernig maður tekst á við það?

„Já. Sko, ég í rauninni tekst á við það rosa mikið einn dag í einu. Og hugsa þá bara áfram um dauðann sem hlut sem er þarna einhvers staðar, hann er bara einhvers staðar þarna úti. Og hvursu nálægt hann er skiptir mig kannski ekki öllu máli vegna þess að ég er á lífi í dag. Og ég er hér í dag og er að fást við það sem mér finnst skemmtilegt. Og ég mun að öllum líkindum gera það líka á morgun. Og það nægir mér svolítið.“