Blóði drifinn milljónabransi

Bóndi, sem missti fjórar blóðmerar vegna reynsluleysis dýralækna, gagnrýnir framkomu eina líftæknifyrirtækisins sem kaupir blóðið af bændum. Hún segir að málið sé þaggað niður. Blóðmerahald er í uppnámi vegna hertra reglugerða.

Um 5.000 merar eru haldnar á Íslandi til að tappa af þeim blóði fyrir mikla fjármuni. En þetta rauða gullæði er umdeilt. Myndir sem dýravinir náðu af blóðbændum vöktu óhug og óvissa er um starfsemi Ísteka, eina fyrirtækisins sem kaupir blóðið og vinnur úr því hormón, vegna reglugerðarbreytinga.

Blóðbóndi sem Kveikur ræddi við segir að brotalamir séu í eftirliti með blóðmerahaldi. Þær birtist meðal annars í því að hún var beðin um að þagga málið niður þegar fjórar merar drápust í tengslum við blóðtöku á bæ hennar. Hún var beðin um að grafa merarnar og stinga krufningarskýrslu, sem hún þurfti að berjast fyrir að yrði gerð, undir stól. Ísteka hefur ekki mætt kröfum hennar um bætur.

Blóðinu í tappað af í þartilgerða plastbrúsa með sverum nálum. Dýralæknar á vegum Ísteka framkvæma blóðtökuna fyrir bændur.

Í lok nóvember 2021 birtist myndband sem kom flestum í opna skjöldu. Það sýndi hestahald sem fáir vissu að væri stundað hér á landi. Umfjöllunin vakti óhug og virtist sýna dýraníð. Í það minnsta meðferð sem ekki samrýmdist þeim stalli sem íslenski hesturinn hefur verið á.

Skjáskot úr myndbandi AWF, sýnir hryssu engjast um í blóðtöku.

Myndirnar komu frá svissnesku dýraverndarsamtökunum AWF sem sögðust hafa tekið þær með leynd. Þar sáust íslenskir bændur tappa blóði af fylfullum merum að því er virtist á mjög harkalegan hátt. Á vef Ístaka má finna myndband sem sýnir blóðtökuna í allt öðru ljósi. Hvor myndin er rétt? Eða er sannleikurinn einhver allt annar?

Blóðmerar eru aðeins haldnar í örfáum löndum í heiminum. Það er í Argentínu, Úrúgvæ og hér á Íslandi. Á Íslandi eru um 5.000 blóðmerar á um 90 bæjum. Úr hverri meri eru teknir allt að 40 lítrar af blóði á hverju ári yfir 8 vikna tímabil, síðsumars og fram á haust.

Í blóðinu er að finna verðmætt hormón sem Ísteka vinnur úr og selur til útlanda. Þar er unnið úr því lyf sem nýtt er til að auka frjósemi annarra spendýra, aðallega svína.

Frjósemislyfið sem verður til er notað í svínabúum um allan heim. Lyfið á að tryggja að hver gylta eignist minnst 14 grísi í hverju kasti, sem er hámarksgeta hennar, því hún hefur aðeins 14 spena. Ef fleiri en 14 fæðast drepast þeir sem ekki fá spena.

Mynd af grísum í útlensku svínabúi

Ísteka hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu 10 árin og heildarfjöldi blóðmera ríflega tvöfaldast. Tekjur fyrirtækisins hafa farið upp í tæpa tvo milljarða króna á ári og hagnaður í sex hundruð milljónir. Forsvarsmenn fyrirtækisins, Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri og Kristinn Hugason, samskiptastjóri neituðu Kveik um sjónvarpsviðtal og vildu einungis svara skriflegum fyrirspurnum sem má lesa neðst á síðunni.

Í sumar komst ESA, eftirlitsstofnun EFTA, að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið reglulgerð um notkun dýra sem notuð eru í vísindaskyni. Íslensk stjórnvöld voru í ofanálag áminnt fyrir setningu sérreglna um blóðtöku úr fylfullum merum. Milljarðahagsmunir eru í húfi bæði fyrir Ísteka og blóðbændur, svo miklir að þeir sem að blóðmerahaldi koma tala sumir sín á milli um rauða gullið.

Hryssublóðinu er dælt í brúsa við bæina.

Nýja reglugerðin setur starfseminni mjög þröngar skorður og óvíst er að Ísteka takist að uppfylla skilyrðin til að fá starfsleyfi sitt endurnýjað. Meðal annars er í henni ákvæði sem segir að starfsemin eigi ekki rétt á sér ef sé til annað frjósemislyf sem hægt er að búa til án þess að dýr séu notuð. Í skýrslu sem þýska þingið óskaði eftir fyrir nokkru kom fram að 36 lyf væru á markaðnum sem gegndu sama hlutverki og PMSG-hormónið úr hryssublóðinu.  Hvernig er þá réttlætanlegt að nota blóðmerar áfram?

„Já það er einmitt það sem þarf að koma fram í umsókninni. Eru til staðgöngulyf og hver eru þau?“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir MAST. „En það er auðvitað vitað að það er ekki til neitt lyf sem er nákvæmlega eins og PSMG og það þarf að vita hver er þá munurinn og er hægt að komast af án þess að nota þetta lyf.“

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir

Ásamt því að hafa unnið myndbönd um blóðmerarhald á Íslandi og í Argentínu fer Sabrina Gurtne fyrir hópi sérfræðinga AWF sem leiðir vinnu við að útrýma á heimsvísu notkun hormónalyfsins PSMG sem unnið er úr hryssublóðinu. Hún segir vitnisburð þýskra bænda sem hafa reynt staðgöngulyfin staðfesta að þau skili sama ávinningi og PMSG.  „Svo okkar skoðun er að MAST geti ekki veitt nýtt starfsleyfi,“ segir Sabrina.

Sabrina Gurtne, dýraverndarsinni hjá AWF leiðir hóp sem vill útrýma notkun PMSG-hormónalyfsins á heimsvísu. Hún segir fjölda annarra lyfja á markaði sem gegni sama hlutverki. Þau séu hægt að búa til án þess að nokkur dýr séu notuð.

Ísteka telur reyndar að fyrirtækið geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, því starfsleyfi sé í gildi bæði fyrir 2024 og 2025. Það leyfi var reyndar gefið út áður en ESA skammaði íslensk stjórnvöld og breyta þurfti reglugerð.

Ísteka sættir sig ekki við þá niðurstöðu og hefur því stefnt íslenska ríkinu. Það gæti bent til þess að fyrirtækið eigi í erfiðleikum með að uppfylla ný skilyrði. Ísteka stendur fast á því að blóðvinnslan sé landbúnaður — þótt fyrirtækið kynni sig sjálft á heimasíðu sem lyfja- og líftæknifyrirtæki.

Bændur segjast ekki halda hryssur sem þeir hafa engin not fyrir og engar tekur af, því dýrahaldi fylgi kostnaður. Hvað vilja dýraverndarsinnarnir þá að gert verði við allar 5000 hryssurnar verði blóðtökunni hætt? Myndu þær ekki nýtast áfram í kjötframleiðslu?

„Það er nú einfaldlega þannig að folaldakjötframleiðslan borgar ekki nema kannski helminginn af uppihaldinu á hverju hrossi, segir Kristján Þorbjörnsson, blóðbóndi á Gilsstöðum í Vatnsdal í Húnavatnssýslu. „Þeir sem eru að segja að við séum að níðast á hryssunum hafa rangt fyrir sér. Þeir sem eru að segja að þetta eigi ekki rétt á sér eru að krefjast þess að við skjótum 5000 hryssur. Ef það er dýragæska þá ætla ég að vera einhvers staðar annars staðar. Það segir mér enginn að skjóta hryssurnar mínar af því það eru ekki not fyrir þær lengur. Aldrei.“

Kristján Þorbjörnsson, blóðbóndi á Gilsstöðum í Vatnsdal. Hann er með 41 blóðmeri. Hann þekkir þær allar með nafni og hefur aldrei misst meri í tengslum við blóðtöku.

Kristján hefur haldið blóðmerastóð í tíu ár og segist aldrei hafa misst hryssu sem hefur verið í blóðtöku. „Þær skila mjög  vænum folöldum. Þeim líður vel og þær eru í góðum holdum og þær jafna sig á blóðtökunni bara á einhverjum hálftíma, klukkutíma. Þá er það bara búið. Það eru dýralæknar sem sjá um um stungurnar og blóðtökuna og þær er deyfðar fyrst. Þetta er afskaplega rútínerað þegar að það er hjörð sem er vön í blóði. Hún veit hvað stendur til.“

Ekki eru þó allir eins lánssamir og Kristján. Sæunn Þóra Þórarinsdóttir bóndi á Lágafelli í Landeyjum hafði verið með 80 merar í blóðtöku í 20 ár. Hún er nú hætt og hyggst selja merarnar sínar.

„Ég bara get ekki Ísteka meir. Það kom hérna allt í einu einhver samningur sem við áttum að undirrita og var allur svona.....maður bara las í gegnum hann. „Ísteka er varið, Ísteka er varið.“ Við mættum ekki tala um þetta. Engum segja að við værum blóðbændur og þetta var allt í einhverjum feluleik og ég var bara ósátt við það. Þessir samningar Ísteka eru bara þannig. Sorrý ég ætla bara fá að vera ógeðslega hreinskilnin með  það að það er alveg sama hvernig bændurnir vinna, þeirra er alltaf óhagurinn. Og þetta dýravelferðarmyndband sem Svisslendingarnir gerðu, það er bara ekkert í þessu myndbandi sem er líkt við það hvernig við stöndum að blóðtökunni hjá okkur.“

Sæunn Þóra Þórarinsdóttir, bóndi á Lágafelli í Landeyjum missti fjórar merar í tenglsum við blóðtöku haustið 2022. Hún segist hafa verið beðin um að þagga málið niðuður, grafa merarnar og stinga krufningarskýrslu, sem hún þurfti að berjast fyrir að yrði gerð, undir stól.

Hvað var það sem gerðist? „Það drápust hér fjórar merar. Allt í einu þarna sumarið 2022 eru bara ráðnir inn dýralæknar sem ráða ekki við verkefnið. Það var bara algjör vangeta. Það bara spýttist blóð í allar áttir og í eitt skiptið fór meri út úr blóðtökubásnum eftir að hafa verið stungin vitlaust, hóstandi og hnerrandi og við vissum ekkert hvað var að gerast. Hún bara hristi sig og var endalaust að koma inn og láta vita að það væri eitthvað. Og ég var alltaf að spyrja dýralækninn: „Bíddu, gerðist eitthvað? Hún er öll í blóði. Hvað er að ske? Og þau bara: Nei, nei látið hana bara fara. Og ég hringi strax og læt vita inn í stjórnstöð Ísteka og spyr hvað ég eigi að gera og það var bara: Fyrst að þeir segja, eða dýralæknirinn segir það, þá á bara að treysta dýralækninum og þá er þetta bara allt í lagi. Svo bara morguninn eftir þá fundum við hana dauða.“

Nokkrum vikum síðar hafi hryssa drepist í sjálfri blóðtökunni eftir að hafa háð 10-20 mínútna langt dauðastríð fyrir framan þrjá dýralækna á vegum Ísteka.

„Og það stendur í dýralæknalögum að koma skal dýri til aðstoðar í neyð. Þeir voru örugglega með efni til að fara og fella hana í staðinn fyrir að láta hana engjast þarna fram og til baka. Þau vissu alveg í hvað stefndi.“

„Það eru enn þá allir í sjokki. Það fá ennþá allir tár í augun og ég veit ekki hvað ég er búinn að grenja yfir þessari meri. Það var bara: „Hvað ertu ekki bara með óþarfa tilfinningasemi?“ Þá sagði ég: „Hingað og ekki lengra! Ég ætla að fá dýralækni, óháðan sem krefur þessa meiri. Því ætla að fá að vita hvað er að.“

Í krufningarskýrslu Guðmars Aubertssonar dýralæknis, sem Kveikur hefur undir höndum, segir að fyrir mistök hafi nálinni verið beitt þannig að hún rauf gat í gegnum hálsslagæðina og inn í barkann á hryssunni. Blóðið hafi því runnið þangað, í öndunarveg hryssunnar og ofan í lungun. Hún hafi drukknað í eigin blóði.

Mynd úr krufningarskýrslu Guðmars Aubertssonar, dýralæknis. 

„En honum var sagt: „Stingdu þessu ofan í skúffu. Ekki tala um þetta. Innan MAST. Og þessi síðasta meiri sem féll við fórum sem sagt og ætluðum að sækja hross þá lá hún dauð í blóðpolli. Það var búið að vera rigning og rigning og rigninga og búið að skíta yfir hann alla. Hún var öll blaut og ógeðsleg og það var búið að plokka úr henni augun. Heyrðu þar með var bara stóra svarið hjá Ísteka: “Þetta er löngu dauð meiri.” En ég meina það var alveg hægt að lesa hana og það var alveg sýnt. Hún var í blóðtöku vikuna áður.

„Sko ég bara spurði strax við fyrstu merina: „Bíddu á bara að grafa hana? „Já, bara farðu bara og grafðu hana strax og þetta má ekki uppgötvast og dýraverndarsamtökin gætu verið á ferðinni með myndavélar og grafið hana strax! Og við bara borgum hana!“ Þetta voru viðbrögðin.“ Frá Ísteka? „Já, frá Ísteka. Og við náttúrulega bara eins og hundar, fórum bara og grófum merina og bara vissum ekki neitt,“ segir Sæunn.

„Ég var búinn að spyrja: „Á ekki að kryfja hana? Er það ekki í dýraverndarsamningnum og er það ekki dýraverndarlögunum að það þarf þá alla vega að koma í ljós hvað gerðist? Af hverju merin er dauð?“ Nei það var bara: “Grafið hana strax! Við borgum hana bara.” Ég upplifði sjálf að ég væri búinn að brjóta lög. Ég var bara komin með einhver svona Stokkhólm-syndróm eða eitthvað. Mér bara leið skelfilega.“

Í skriflegum svörum Ísteka til Kveiks segir að í aðdraganda tímabilsins 2022 hafi atkvæðamikil dýralæknastofa dregið sig úr blóðsöfnun. Við það hafi skapast neyðarástand. Dýralæknar af EES-svæðinu hafi þá verið fengnir til starfa og þeir hafi staðið sig mjög vel. Þeir hafi uppfyllt öll sett skilyrði. Auk þess hafi Ísteka sett upp þjálfunarferli sem sé í sífelldri endurskoðun til að auka færni þeirra enn frekar. Fyrirtækið neiti að svara spurningum sem tengjast einstaka bændum.

Sæunn segir MAST hafa staðið sig ömurlega í þessum málum. „Ég er búinn að láta liggja inni bréf þarna, umkvörtun um það hvernig er komið fram við blóðbændur, hvernig er komið fram við dýrin. Og ég hef ekkert heyrt í þeim. Engum!“  Hvernig stendur á því?  „Ég veit það ekki. Hver vinnur þarna á þessari stofnun? Hvað er þetta fólk að gera? Ydda blýanta eða? Mér er spurn.“

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir stofnunina hafa ársskýrslu til margra áratuga. Hún viti ekki um neitt búfjárhald sem hafi jafnlág afföll og í blóðmerahaldi. Afföllin séu 01%-0,2% á ári.

En það er allt úr skýrslum Ísteka? „Að sjálfsögðu já.“ Og þú hefur enga ástæðu til að ætla að þetta séu eitthvað skökk gögn? „Nei ég hef ekki ástæðu til þess.“ En er ekki einhver hvati þeirra megin að gera ekki endilega grein fyrir öllum atvikum? „Jah, ábyrgðin er þeirra. Þeim ber að upplýsa og við vitum ekki annað en að þeir geri það. Ég bara sé ekki af hverju menn ættu ekki að tilkynna.“

En það eru ákvæði í þessum reglugerðum sem segja að það sé hægt að svifta starfsleyfi og eða stöðva tímabundið blóðtöku með tilheyrandi tekjumissi fyrir viðkomandi bónda og þá væntanlega Ísteka líka. Er þá ekki hvati hjá þeim að gera ekki endilega grein fyrir öllu sem að upp á kemur? „Þá eru þeir að brjóta lög. Þeim ber að tilkynna þetta.“ Já en ef að enginn kemst að því? „Já þá get ég ekkert gert í því. Það er bara eins og allt annað. Ef þú keyrir yfir á rauðu ljósi og segir ekki frá því þá kemstu upp með það.“

En þið sem eftirlitsstofnun finnst ykkur ekki að það eigi að vera frumkvæði hjá ykkur að tryggja að þetta sé í lag? „Það er ekki okkar að tryggja viðskipti eða viðskiptasambönd. Það er okkar að tryggja að það sé farið að lögum og reglugerðum. Ef að við myndum verða þess áskynja að dýralæknir sem vinnur við blóðtökuna og verður var við að það sé brotið á dýrinu, ef hann tilkynnir það ekki til okkar þá ber okkur að grípa til aðgerða. En mér er ekki kunnugt um neitt slíkt tilvik.“

En við höfum vitneskju um að þeir hafi ekki gert það og jafnvel verið beðnir um að stinga krufningarskýrlsu undir stól? „Þá verður að tilkynna um það til okkar. Við höfum ekki fengið slíkt. Þetta kemur mér bara virkilega á óvart. Þessar áhyggjur því að ég hef svo mikla trú á þeim sem að halda dýr og eiga dýr að þeir geri það af heilum hug og láti dýrin alltaf njóta vafans.“

Hvað þetta varðar segir Ísteka dýralæknana vera sérfræðinga á sínu sviði en þeir geti aldrei vitað allt. Bændur geti alltaf leitað annars álits um sína gripi. Samningar fyrirtækisins við þá gangi ekki framar landslögum. Bændur geti alltaf stöðvað blóðtökur á sínum bæ.

Höfuðstöðvar lyfja- og líftæknifyrirtækisins Ísteka við Grensásveg 8 í Reykjavík.

Í sama húsi og höfuðstöðvar Ísteka eru, við Grensásveg er að finna einhverja hörðustu andstæðinga blóðmerahalds, Dýraverndarsamband Íslands. Þar er Linda Karen Gunnarsdóttir formaður. Ásamt því að vera kennari er hún menntaður hestafræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólanum á Hólum.

Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands

„Það sem að okkur finnst hjá Dýraverndarsambandinu vera alvarlegast það er að þessar blóðtökur geta orðið hryssunum að aldurtila. Það er ekkert auðvelt að vera með hálfs sentimetra þykka eða svera nál og stinga henni inni í hálsbláæð á hrossi sem er í rauninni mjög hrætt og mjög órólegt. Það þurfa að vera  bara aðilar sem eru vanir að vinna með stórgripi og varnir því að vera með í allskonar aðstæðum með þessi dýr. Sömuleiðis er þetta mikil þjáning að missa svona mikið blóð.“

Hún segir að hross fari í ástand sem kallast lært hjálparleysi þegar þau átta sig á því að þau geta ekki barist og ekki flúið. Þá upplifi dýrið sig algerlega varnarlaust. „Og það þýðir það að dýrið bara gefst upp. Og þetta er gríðarlega grimmt. Þetta samræmist ekki lögum um velferð dýra.“

Í reglugerðinni sé ákvæði sem segi að dýr eigi ekki að líða þjáningu, sársauka eða ótta af því að þau eru skyni gæddar verur.

Linda segir að það séu dýralæknar á vegum Ísteka sem taki niður frávik sem verða í blóðtökunni. Eftirlitsfulltrúar MAST séu ekki endilega alltaf á staðnum. „Svo að það er í rauninni fyrirtækisins. Það er hagsmunaaðilinn, sem fær að bera ábyrgðina á því að skrá niður frávik. Og við sjáum til dæmis árið 2021 að þá er ekkert alvarlegt frávik skráð sem kemur mjög mikið á óvart. Árið 2022, eftir að eftirlitið var hert, eru svo komin átta alvarleg frávik, og þá erum við að tala um dauðsföll, en þau voru engin 2021.“

Hún segir eftirlit MAST með blóðtökunum losaralegt. „Það er treyst allt of mikið á upplýsingar frá fyrirtækinu sem er svo mjög alvarlegt, sérstaklega af því að MAST hefur það hlutverk að verja velferð dýra í landinu. Þau fara með eftirlitið og þau ættu að standa betur með þessum dýrum.“

Rósa Líf Darradóttir situr í stjórn Samtaka um dýravelferð. Hún starfar sem læknir og hefur verið í reiðmennsku frá barnsaldri.

Rósa Líf Darradóttir, situr í stjórn Samtaka um dýravelferð 

„Blóðtakan ein og sér í þessu magni er dýraníð. Það fylgir því þjáning að vera blóðlaus. Íslenski hesturinn er með 26 lítra af blóði þannig að þið sjáið á einu tímabili er búið að taka 40 lítra úr einni hryssu. Þetta er álag fyrir líkamann að vera stöðugt að vinna upp þetta blóðtap.“

Í spánnýrri rannsókn á blóðhag þessara hryssna, og þeirri fyrstu sem gerð hefur verið í rúm 40 ár, segir að 90% hryssnanna hafi ekki sýnt merki blóðleysis og ekki átt erfitt með að halda uppi eðlilegum blóðhag. Lægstu meðalgildi hryssanna voru yfir lágmarksviðmiðum um blóðleysi. Það segir okkur þó að 10% eða um 500 hryssur glími við blóðleysi. Rósa segir þær kljást við orkuleysi, kuldatilfinningu, mæði og slappleika, hungurtilfinningar og svima. „Það geta líka verið svona breytingar á tilfinningaástandi eins og kvíði eða svoleiðis. Þetta er allt of mikið blóð og tíðni blóðtaka er alltof mikil. Það að þessar hryssur ganga lausar mestan part af ári réttlætir ekki þessa meðferð.“

Rósa segir einfaldar mælingar á hjartsláttar- og öndunartíðni vanta í nýju rannsóknina. Slíkar upplýsingar gætu gefið mikilvæga innsýn í líðan dýranna. Ein hryssan í rannsóknarstóðinu hafi mælst með mjög alvarlegt blóðleysi og henni hafi því verið hlíft við blóðtöku vikuna eftir. Átakanlegt sé að hugsa til fjölda þeirra hryssa sem hafa haft svipuð blóðgildi en samt gengist undir ítrekaðar blóðtökur.

„Við erum taka íslenskar hryssur, binda þær í bás, stappaða þær niður stinga þær í hálsinn, taka úr þeim gífurlegt magn af blóði til að framleiða lyf sem er síðan notað á húsdýr erlendis til að auka á frjósemi þeirra umfram þeirra náttúrulegu getu. Þannig að við erum að auka á þjáningar þeirra líka, svo ég bara hreinlega geta ekki séð hvernig er hægt að réttlæta þetta.“

Hver framtíð blóðtöku og blóðmerarhalds á Íslandi verður ætti að skýrast á næstu vikum. Næsta blóðtökutímabil hefst í ágúst.

Hér má lesa skrifleg svör Ísteka við fyrirspurnum Kveiks


Hvers vegna hefur Ísteka keypt hrossastóð og jarðir að undanförnu? Hversu margar hryssur eigið þið og hvaða jarðir og hvernig hafa þessar tölur þróast frá því þið hófuð starfsemina?

Ísteka keypti seinast jörð árið 2019 og leigir auk þess jarðir bæði til beitar og nytja. Hryssur fyrirtækisins skiptast í blóðnytjahryssur sem gefa blóð og ala folöld annars vegar og ásetningsfolöld og trippi hins vegar. Blóðnytjahryssur fyrirtækisins hafa verið nokkuð stöðugur fjöldi, um 300 sl. 7-8 ár. Eigin rekstur hefur gert okkur kleift að skilja betur þarfir skepnanna og vinnuaðstæður bænda og hafa þetta t.a.m. til hliðsjónar við gerð leiðbeininga, greiðslufyrirkomulags auk þess að beina vænlegum gripum til bænda. Í þessum tilgangi stundar Ísteka kaup og sölu blóðnytjahryssna.

Hverjar eru tekjur Ísteka á ársgrundvelli og hver hefur hagnaður hvers árs verið frá upphafi?

Heildarvelta ársins 2023 var um 1,9 milljarðar og varð hagnaður af starfinu það árið þótt hann hafi minnkað umtalsvert frá því sem mest var. Sögu veltu, hagnaðar og annarra bókhaldsþátta má finna í ársreikningum félagsins sem eru opinberir og vistaðir hér: https://www.skatturinn.is/fyrirtaekjaskra/leit/kennitala/6112003150

Nýjar reglur frá því í sumar setja starfseminni annan ramma en verið hefur. Hvernig ætlar Ísteka að haga sinni starfsemi svo að hún falli að þeim ramma? Hvaða breytingar sér fyrirtæki fyrir sér að verði? Hvernig verða þær útfærðar?

Ísteka hefur þurft að aðlaga sig að ýmsum nýjum reglum í gegnum tíðina og mun halda því áfram eftir þeim kröfum sem gerðar eru hverju sinni til allrar framtíðar.

Fyrirtækið hefur stefnt Matvælaráðherra. Hvað verður ef fyrirtækið tapar þeirri málssókn?

Unnið verður eftir gildu starfsleyfi félagsins til blóðsöfnunar árin 2024 og 2025 og sótt um nýtt leyfi eftir það á grundvelli þá gildandi laga og reglugerða.

Ísteka fékk leyfi til að framleiða lyfjaefni úr 600 tonnum af blóði sem er ríflega fimmfalt meira en nú. Sér fyrirtækið fyrir sér aukna framleiðslu og hvernig á að útvega blóðið?

Starfsleyfi UST er gefið út miðað við mestu reiknuðu afköst verksmiðjunnar. Framleiðslan er háð framboði af blóði innan þessa marka.

Óskað er eftir yfirliti útflutts magns hormónsins og eða lítrana af blóðinu áratugi aftur í tímann, helst frá upphafi?

Nokkuð jafn vöxtur var í mörg ár. Fyrir 20 árum (2004) var heildarmagn blóðs um 25 tonn, fór hæst í tæp 160 tonn árið 2021 og hefur verið nálægt 120 tonnum síðan.

Hvert er lyfjaefnið flutt og hvað verður um það?

Lyfjaefnið er selt erlendum dýralyfjaframleiðendum sem nota það í lyf sem eru markaðssett eru um heim allan.

Hvers vegna er ákvæði í samningum ykkar við bændur um að það megi ekkert mynda?

Það er tiltölulega algengt að myndatökur á vinnustöðum séu bannaðar, s.s. vegna persónuverndasjónarmiða og til að forðast mistúlkun gagnvart áhorfendum sem ekki þekkja til. Málefnalegar beiðnir um myndatökur eru þó ávallt skoðaðar. Allir á viðkomandi stað þurfa að vera samþykkir hverju sinni.

Hvers vegna hafið þið beðið blóðbændur um að fjarlægja myndir af blóðtöku á sínum bæjum af netinu?

Sárasjaldan hefur þurft að grípa til þess og þá í samræmi við gildandi samning, sjá einnig ofangreint.

Hvernig er greiðslum ykkar til dýralækna háttað? Fá þeir heildarlaun eða fá þeir greitt fyrir fjölda hryssna?

Það fer eftir samningi, getur verið í formi tímakaups eða fyrir hvert unnið verk.

Hvenær og vegna voru ráðnir erlendir dýralæknar? Eru þeir enn að störfum?

Atkvæðamikil dýralæknastofa dró sig úr blóðsöfnun með skömmum fyrirvara í aðdraganda tímabilsins 2022. Við það skapaðist neyðarástand sem bregðast þurfti við og hefur þegar verið lýst í fjölmiðlum. Dýralæknar af EES svæðinu komu fyrst til starfa í lok júlí 2022 og aftur í júní 2023. Gert er ráð fyrir að fá þá aftur í ár enda hafa þeir staðið sig mjög vel.

Hvaða kröfur þurftu umsækjendur/dýralæknarnir að uppfylla? Höfðu þessir læknar reynslu af blóðtöku úr merum? Hvaða reynslu höfðu þeir sem talin var gera þeim kleift að sinna þessu starfi?

Dýralæknar þurfa að uppfylla skilyrði til að starfa sem slíkir innan EES og tilkynna sig til MAST. Auk þessa lögboðnu skilyrða hefur Ísteka sett upp þjálfunarferil sem er í sífelldri endurskoðun og með það í huga að bæta enn frekar færni þeirra.

Hver er skýringin á því að fram til ársins 2021 er ekkert alvarlegt frávik skráð af ykkar dýralæknum og eftirlitsaðilum frá MAST en frá 2022 koma upp 8 alvarleg atvik (dauðsföll)? Hvernig hafa frávik og dauðsföll þróast frá upphafi?

Spurningin virðist byggð á misskilningi. Slys og dauðsföll hafa verið skráð skv. reglum þar um í fjöldamörg ár, sjá einnig: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-08-03-erlendum-dyralaeknum-sem-starfa-vid-blodtoku-ur-fylfullum-hryssum-fjolgar-389113.

Í World Fengur má sjá að folöldum hafi verið slátrað um tveggja mánaða? Hvers vegna er það gert? Voru þessi folöld úr ykkar stóðum?

Langflestum stóðfolöldum á Íslandi er slátrað síðla sumars, að hausti eða í vetrarbyrjun, það sama á við um þau folöld Ísteka sem eru ekki sett á vetur. Tímasetning fer að mestu eftir skipulagi sláturhússins sem skipt er við. Folöld Ísteka fóru til slátrunar í september s.l. haust og svo fáein í október. Þau fæddust flest í maí og munu því hafa verið um 4 mánaða gömul að jafnaði. Bent skal á hvað aldursskráningu folalda varðar í gagnavörslukerfinu WF að sé aldur þeirra ekki skáður sérstaklega, þ.e. fæðingardagur, skráir kerfið hann sjálfkrafa sem 15.júni.

Blóðbændur sem Kveikur ræðir við í þættinum setja fram margskonar ásakanir á hendur Ísteka sem óskað er viðbragða við:

Bændur eru ósáttir við viðbrögð Ísteka eftir myndskeið dýraverndarsamtakanna AWF fór í loftið og segja fyrirtækið hafa varpað ábyrgðinni yfir á þá.

Bændur sem og starfsmenn Ísteka voru undir gífurlegu álagi og sættu stöðugum ágangi ýmissa aðila sem reyndi á alla á þessum tíma. Ísteka er í góðu samtali við bændur og samtök bænda og við sem hópur leggjum ríka áherslu á dýravelferð hér eftir sem hingað til.

Bændur segja Ísteka hafa ráðið inn dýralækna sem ekki kunnu til verka, hafi borið sig rangt að og það hafi jafnvel leitt til þess að merar drápust.

Sjá fyrra svar og ofangreinda frétt RÚV.

Hvers vegna báðuð þið Sæunni Þóru Þórarinsdóttur að grafa meri sem drapst á hennar bæ vegna blóðtöku þegar hennar krafa var að kryfja hana til að fá staðfesta dánarorskök?

Ísteka hefur ekki í hyggju að svara spurningum sem tengjast einstaka bændum á þessum vettvangi. Þess skal þó getið að téður bóndi hefur látið hafa eftir sér að hann hyggist stefna Ísteka fyrir ætlaðar sakir og bíðum við átekta í því máli, sjá auk þessarar spurningar tvær þær næstu.

Hvers vegna var meri Sæunnar sem drapst í blóðtöku ekki aflífuð á staðnum þegar ljóst var að hún var að kafna í eigin blóði? Fólk sem var vitni að þessu segir að hryssan hafi háð 10-20 mín dauðastríð. Hvers vegna vilduð þið ekki fallast á kröfur Sæunnar um bætur?

[Ekkert svar]

Ber dýralæknunum sem eru á ykkar vegum ekki að aflífa strax ef upp kom atvik þar sem dýrið er að heyja dauðastríð?

Jú og það er gert í þeim undantekningartilfellum að það þurfi. Einnig er þekkt dæmi um að hryssa hafi drepist svo snögglega að ekki hafi unnist tími til aflífunar.

Bændur bera Ísteka sökum og segja stjórnstöð hafa sagt bændum að treysta dýralæknum, en hryssa sem hringt var út af hafi samt fundist dauð daginn eftir. Telur Ísteka að viðbrögð og verklag hafi verið í lagi í þessum tilvikum og öðrum sambærilegum?

Dýralæknar eru sérfræðingar á sínu sviði en vita aldrei allt. Bændur geta alltaf leitað annars álits um sína gripi.

Í skilyrðum Matvælastofnunar fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum er í fyrsta ákvæði tekið fram að blóðtaka sé aðeins heimil á starfsstöðvum og bæjum þar sem ekki hafi komið upp alvarleg frávik vegna dýravelferðar við hrossahald á starfsstöðinni á undangengnu ári. Hvers vegna héldu blóðtökur áfram á bæ Sæunnar eftir að hryssur drápust þar?

Dauði hryssu er alltaf alvarlegur og leiðinlegur, sérstaklega ef koma hefði mátt í veg fyrir hann með öðrum vinnubrögðum, venjum eða aðstöðu. Hins vegar er alvarlegt frávik í þessu samhengi það þegar MAST verður vart við kerfislæga brotalöm á viðkomandi bóndabæ við skoðun. Frávik s.s í fóðrun, meðferð eða umhirðu sem ekki er brugðist við innan settra tímamarka getur talist alvarlegt og útilokað bæ frá þátttöku í blóðsöfnun.

Hversu oft hafið þið hætt eða stöðvað tímabundið blóðtökur á bæjum vegna atvika sem dýralæknar og eða bændur hafa gert athugasemdir við frá upphafi?

Dýralæknum ber að meta það á þeim bæjum sem þeir sinna hvort dýravelferð sé þar í fullnægjandi standi. Þeim ber skv. opinberum skyldum sínum að stöðva eða hefja ekki eftir atvikum blóðtökur telji þeir einhverju þar ábótavant. Ísteka tekur ekki fram fyrir hendur á dýralæknum sem ákveða slíkt. Samningar við dýralækna ganga ekki framar landslögum. Bændur geta alltaf stöðvað blóðtökur á sínum bæ.

Bændur segja Ísteka senda allt að þrjá starfsmenn, eftirlitsmenn og til að gera atvikaskrá, en að þeir starfsmenn hafi mestmegnis sofið úti í bíl og engu eftirliti sinnt. Hver eru viðbrögð Ísteka við þessum ásökunum?

Við blóðsöfnun eru það dýralæknar sem taka blóð og sinna eftirliti með heilsu hrossanna. Starfsmenn á vegum Ísteka flytja brúsa til og frá blóðtökustað og eru m.a. dýralæknum og bændum innan handar.

Bændur kvarta yfir því að Ísteka sé einokurnarfyrirtæki sem bændur hafi ekki getað samið við. Tekjur Ísteka séu miklar en hlutur bænda óeðlilega lítill að þeirra sögn. Telur Ísteka tekjur bænda eðlilegar? Hver eru viðbrögð Ísteka við umkvörtunum bænda?

Öllum er frjálst að stunda þá starfsemi sem Ísteka hefur með höndum, að uppfylltum skilyrðum til lyfjaframleiðslu. Það er ekki einokun þó að enginn annar hafi valið að gera það hér á landi.

Verðskrá Ísteka hefur hækkað mun meira en aðrar afurðir bænda a.m.k. seinustu 10-15 árin og aldrei staðið í stað. Hér að neðan er graf sem sýnir þróun blóðverðs miðað við neysluverðsvísitölu annars vegar og afurðaverð lambakjöts hins vegar á árunum 2011-2021. Frá 2021 hefur blóð til bænda svo hækkað samtals um næstum 50% að jafnaði.

Ísteka selur ekki blóð. Ísteka selur vöru sem unnin er úr blóði með hugviti og í þeirri keðju eru, auk bænda og dýralækna, um 40 manns á launaskrá allt árið um kring. Ábata af framþróun í faginu sem Ísteka hefur staðið fyrir á síðustu árum sem og stærðarhagkvæmni sem kom til með árunum hefur Ísteka látið ganga áfram til bænda.

Bændur sem við ræddum við segja ykkur ekki vilja deila með þeim upplýsingum um gæði blóðsins sem þeir selja ykkur. Hvers vegna viljið þið það ekki?

Greiðslur til bænda hafa alltaf verið tengdar við árangur hryssna þeirra. Með nýju greiðslukerfi sem var tekið upp árið 2022 var skerpt enn frekar á þessari tengingu sem er öllum í faginu til góða. Greiðslur eru byggðar á hlutfalli við meðalstyrk eCG í blóðinu sem er reiknað út frá safni u.þ.b. 130.000 mælinga árin á undan. Hver þessara mælinga er ein og sér fremur ónákvæm og því ekki birtingarhæf en þegar þær koma saman fæst þokkalega áreiðanlegt meðaltal. Hryssa sem gefur aðeins einu sinni er með mjög lítinn meðalstyrk í blóðinu en hryssa sem gefur átta sinnum er með margfalt meiri styrk í sínu blóði og endurspeglar brúsaverðið til bænda það og þar með gæðin.

Hvað fá bændur greitt fyrir lítrann af blóði og hvernig hefur verðið breyst yfir tíma?

Sjá að ofan