RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Umfjöllun RÚV fyrir forsetakosningarnar 2020

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Fari svo að fleiri en eitt gilt framboð til embættis forseta Íslands berist áður en framboðsfrestur rennur út þann 23. maí fjallar RÚV um kosningarnar á vef, í sjónvarpi og í útvarpi.

 

Sú umfjöllun hefst í júní. Eftirfarandi línur hafa verið lagðar en nánari útfærslur og upplýsingar um tímasetningar verða birtar síðar.

· Kosningavefur RÚV vegna forsetakosninga 2020, opnaður í júní.

· Viðtöl við frambjóðendur í fréttatengdum þáttum RÚV.

· Viðtalsþættir í sjónvarpi, Forystusætið, þar sem hver frambjóðandi situr fyrir svörum.

· Kosningavaka að kvöldi kjördags, 27. júní.

Í föstum þáttum og dagskrárliðum RÚV kann að verða fjallað um kosningarnar, embættið og frambjóðendur. Verði frambjóðendum boðið til viðtals gildir sú regla að gefa verði öllum frambjóðendum jafnt tækifæri til að kynna sig og stefnumál sín.

RÚV býður frambjóðendum auk þess frían útsendingartíma fyrir kynningarefni um framboðið. Þetta er gert í samræmi við 7. tl. 2.mgr. 3.gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. RÚV birtir reglur þar að lútandi. Kynningarefnið verður sýnt í síðustu vikunni fyrir kosningar. Kynningarefnið þarf að vera tilbúið og því skilað til RÚV eigi síðar en 17. júní.

Fjallað verður um framboð til forseta Íslands í fréttatímum RÚV. Gætt verður að því að gera framboðum jafn hátt undir höfði en fréttamat gildir hverju sinni. Um aðgang frambjóðenda að fréttum RÚV gilda reglur um takmarkanir á þátttöku frambjóðenda til almennra kosninga í dagskrá RÚV. Þar segir m.a. að fréttastofa og aðrar dagskrárdeildir skuli forðast að leiða frambjóðendur fram í fréttum, fréttatengdum þáttum eða annars staðar í dagskrá eftir að framboðsfrestur rennur út og þar til kosningar eru um garð gengnar, nema sterk rök mæli með nauðsyn þess að viðkomandi komi fram, eða til hans sé vitnað vegna sérstakra atvika. Þetta á þó ekki við um sérstaka dagskrá eða fréttapistla sem samþykkt hafa verið í tilefni af kosningaundirbúningi.

RÚV kynnir því öll framboð með viðtölum við frambjóðendur, í fréttum og fréttatengdum þáttum auk þess að sýna kynningarefni þeirra.

Ríkisútvarpið áskilur sér rétt til þess, verði frambjóðendur margir, að takmarka þann fjölda frambjóðenda sem mætast hverju sinni í viðtals- eða umræðuþáttum. RÚV mun þó gæta þess að allir frambjóðendur fái jafnan aðgang að slíkum þáttum. Markmiðið með þessu er að stuðla að upplýstri umræðu í aðdraganda kosninga og skila áhorfendum meiru en unnt væri í umræðum allra frambjóðenda á sama tíma í umræðuþætti. Með þessari framkvæmd er meðal annars brugðist við ábendingum sem koma fram í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um framkvæmd alþingiskosninganna 2013. Í skýrslunni kemur m.a. fram að frambjóðendur og áhorfendur töldu að skort hefði á dýptina í umræðuþáttum með of mörgum þátttakendum. Í handbók Evrópuráðsins um fjölmiðla og kosningar frá árinu 1999 er fallist á nauðsyn þess að skipta stórum frambjóðendahópum niður fyrir umræðuþætti, meðal annars á grundvelli stöðu þeirra í könnunum. Hér má finna skýrslu ÖSE frá 2013.

 

24.04.2020 kl.10:41
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni