RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Tónlistarhátíð Rásar 1 - Þræðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tónlistarhátíð Rásar 1 er haldin í fjórða sinn í ár og Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, er listrænn stjórnandi að þessu sinni. Þema hátíðarinnar í ár er Þræðir og hverfist um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens.

 

Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur á tónleikum sem sendir verða út í beinni útsendingu frá Hörpu á Rás 1 og í mynd á RÚV 2 og RÚV.is miðvikudaginn 25. nóvember kl. 18.30.

Tónskáldin fjögur koma úr nokkuð ólíkum áttum. Þau eru Haukur Þór Harðarson, Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir og Veronique Vaka. Þau vinna með þema hátíðarinnar hvert á sinn hátt og tengingin við tímann birtist á ólíkan hátt í verkum þeirra.

Verkin fjögur munu skapa einstaklega spennandi heild í flutningi hins frábæra tónlistarhóps Elektra og á milli verkanna verða leikin innslög þar sem rætt er við tónskáldin um verkin og gerð þeirra.

 

23.11.2020 kl.10:38
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni