RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Rás 1 heldur upp á 90 ára afmæli Ríkisútvarpsins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisútvarpið og Rás 1 fagna nú 90 ára afmæli. Af því tilefni verður sérstök afmælisútsending á Rás 1 á mánudag frá morgni til kvölds. Sagan verður rifjuð upp með góðum gestum, lifandi tónlistarflutningur og sent verður út beint frá stöðum þar sem Ríkisútvarpið hefur verið til húsa í tímans rás.

Morgunvaktin verður send út beint frá Hafnarstræti 12. Björn Þór og Þórunn Elísabet munu ræða við Guðjón Friðriksson um Edinborgarhúsið þar sem Útvarpið var fyrst til húsa. Einnig fá þau til sín Gunnar Stefánsson og ræða við hann um sögu RÚV og Helga Lára Þorsteinsdóttir safnstjóri kíkir við og talar um gullkistu RÚV.

Ævar Kjartansson, sem hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 1972, verður gestur Sigurlaugar Margrétar í þættinum Segðu mér en þau verða stödd á Skúlagötunni þar sem Ríkisútvarpið var lengi til húsa.

Gerður G. Bjarklind verður gestur Mannlega þáttarins en þau verða stödd í Landssímahúsinu við Austurvöll. Gerður hafði umsjón með þættinum Lög unga fólksins frá árinu 1963 til 1973. Þátturinn var einn sá vinsælasti á útvarpinu fyrr og síðar. Gerður réði sig svo sem þulur og sinnti því starfi til ársins 2012.

Eftir hádegið tekur Samfélagið við en þau fá meðal annarra til sín Kára Jónasson og ræða við hann um sögu fréttastofu RÚV. Þau verða stödd á Klapparstíg þar sem fréttastofan var til húsa um tíma.

Þátturinn Orð um bækur verður helgaður afmælinu en þar mun meðal annars Stefán Eiríksson útvarpsstjóri lesa brot úr fyrsta erindinu sem flutt var í útvarpinu, af Sigurði Nordal prófessor, og nefndi Sigurður erindi sitt Útvarpið og bækurnar.

Menningarþættirnir Víðsjá og Lestin sameina krafta sína eftir fréttir klukkan 16. Á dagskrá verður lifandi tónlist og spjall við góða gesti. Meðal gesta verða Megas, Marta Nordal og Björn Jörundur. Menningarþættirnir verða sendir út beint úr Stúdíó 12 í Efstaleiti.

 

20.12.2020 kl.17:43
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni