RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ráðningarferli útvarpsstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hinn 15. nóvember 2019 var auglýst laust til umsóknar starf útvarpsstjóra hjá Ríkisútvarpinu. Auglýsingin birtist í Fréttablaðinu, í Morgunblaðinu, á Starfatorgi og á heimasíðu Capacent. Umsóknarfrestur var framlengdur til og með 9. desember sl. og alls barst 41 umsókn um starfið.

Stjórn Ríkisútvarpsins fékk fyrirtækið Capacent sér til ráðgjafar í ráðningarferlinu. Ráðgjafar Capacent sem komu að ferlinu voru Auður Bjarnadóttir og Hilmar G. Hjaltason.

Auglýsing um starfið var með eftirfarandi hætti:

Stjórn RÚV auglýsir laust starf útvarpsstjóra. 

Útvarpsstjóri hefur það hlutverk að framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Leitað er að öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar. Útvarpsstjóri starfar í umboði stjórnar. Ráðið verður í stöðuna til fimm ára og skal viðkomandi uppfylla hæfnisskilyrði skv. 5. mgr. 9.gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013.

Starfssvið

 • Dagleg stjórnun og ábyrgð á rekstri félagsins.
 • Yfirumsjón og ábyrgð allrar dagskrárgerðar.
 • Stefnumótun og markmiðasetning.
 • Samskipti við hagaðila.
 • Alþjóðlegt samstarf.

Hæfniskröfur

 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
 • Reynsla af stjórnun og rekstri.
 • Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum.
 • Skilningur og áhugi á nýjum miðlum.
 • Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu.
 • Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum.
 • Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti.

Ráðningarferlið

I. Fyrsta mat

Fyrsta mat byggðist á skriflegum gögnum umsækjenda, það er ferilskrá og kynningarbréfi. Umsóknargögn voru metin í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur sem fram komu í auglýsingu. Við matið var stuðst við fyrirfram skilgreind viðmið og vægi sem byggðust á hæfniskröfum í auglýsingu. Markmið fyrsta mats var að vinna forsendur fyrir ákvörðun um hvaða umsækjendur skyldu boðaðir í fyrsta viðtal. Stjórn Ríkisútvarpsins mat öll gögn og tók ákvörðun um vægi hvers matsþáttar. Ráðgjafar Capacent funduðu með stjórn Ríkisútvarpsins til að fara yfir matið og ákvað stjórn að boða 19 umsækjendur í viðtal við ráðgjafa, þá sem þóttu best uppfylla þau hæfnisskilyrði sem komu fram í auglýsingu um starfið.

II. Annað mat

Annað mat fólst í ýtarlegum viðtölum við 19 umsækjendur. Þau viðtöl við umsækjendur tóku ráðgjafarnir Auður Bjarnadóttir og Hilmar G. Hjaltason.

Viðtölin voru sérsniðin með tilliti til starfsins og tóku mið af hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu um starfið. Í viðtölum var reynt að fá fram með skýrum hætti hvernig umsækjendur mátu reynslu sína, þekkingu og hæfni til að sinna starfinu, sem og viðhorf þeirra, metnaði og væntingum um starfið. Leitast var við að meta alla hæfnisþættina sem fram komu í auglýsingu og var notast við staðlað viðtalsform með fyrirfram ákveðnum spurningum.

Niðurstaða annars mats

Að loknum viðtölum funduðu ráðgjafar með stjórn Ríkisútvarpsins þar sem farið var yfir niðurstöður þeirra. Í ljósi niðurstaðna annars mats ákvað stjórn að leggja viðurkennt persónuleikamat OPQ 32 fyrir fjóra umsækjendur sem þóttu hafa sérstöðu í hópi umsækjenda og uppfylla best hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu um starfið.

III. Þriðja mat

Til að stuðla að faglegu ráðningarferli og mati á umsækjendum var lagt fyrir persónuleikamatið Occupational Personality Questionnaire 32 (OPQ32) sem er sérstaklega hannað með ráðningar og starfsþróun í huga. Með því er lagt mat á hvaða persónulega hæfileika próftaki hefur með tilliti til vinnuaðstæðna. Forspárgildi matstækisins um árangur í starfi hefur að sögn ráðgjafa okkar verið staðfestur í fjölda rannsókna og hefur það verið staðlað og staðfært fyrir íslenskan vinnumarkað.

Umsækjendur fengu spurningar matsins í tölvupósti og höfðu tvo sólarhringa til að svara þeim.

Niðurstaða þriðja mats

Þegar niðurstöður persónuleikamatsins lágu fyrir voru umsækjendurnir fjórir boðaðir í viðtal til ráðgjafa sem fór með þeim yfir niðurstöðuna og túlkun hennar.

Niðurstöður persónuleikamatsins voru síðan kynntar stjórn Ríkisútvarpsins. Að teknu tilliti til starfsgreiningar leiddu niðurstöður persónuleikamatsins til þess að þrír umsækjendur þóttu best uppfylla kröfur sem fram komu í auglýsingu um starfið. Stjórn Ríkisútvarpsins ákvað þess vegna að bjóða þessum þremur umsækjendum í framhaldsviðtal og leggja fyrir þá raunhæft verkefni, þar sem þeim gafst m.a. tækifæri til að kynna sýn sína um framtíð Ríkisútvarpsins.

IV. Fjórða mat

Fjórða mat ferlisins fólst í framhaldsviðtölum við þrjá umsækjendur sem þóttu hafa mesta þekkingu, reynslu og hæfni til að sinna starfinu. Matið fól í sér viðtal við stjórn Ríkisútvarpsins og ráðgjafa Capacent. Í upphafi kynntu umsækjendur úrlausn sína á því raunhæfa verkefni sem lagt hafði verið fyrir.

Verkefnið samanstóð af fjórum spurningum?

 1. Lýstu þinni framtíðarsýn fyrir RÚV 2030.  Hver verða lykilverkefni þín næstu 12 mánuði í starfi og hvernig mælir þú að þú sért á réttri leið?
 2. Hvaða þrjár til fjórar helstu áskoranir sérð þú fyrir þér í starfsemi RÚV næstu misserin og hvernig hyggst þú takast á við þær?
 3. Nú stendur RÚV frammi fyrir því að þurfa skera niður í rekstri félagsins. Hvernig myndir þú bregðast við því?
 4. Hvað þarft þú að gera persónulega til að vera góður útvarpsstjóri? Hvaða þróunarplan sérðu fyrir þér til næstu 4 ára og af hverju?

Framhaldsviðtölin sátu stjórnarmennirnir Kári Jónasson, Birna Þórarinsdóttir, Brynjólfur Stefánsson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðlaugur G. Sverrisson, Jón Jónsson, Jón Ólafsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Mörður Árnason og Valgeir Vilhjálmsson, áheyrnarfulltrúi starfsmanna, ásamt ráðgjöfum Capacent, Auði Bjarnadóttur og Hilmari G. Hjaltasyni, og Margréti Magnúsdóttur starfandi útvarpsstjóra.

Niðurstaða fjórða mats

Að loknum kynningum og framhaldsviðtölum ákvað stjórn Ríkisútvarpsins að afla skyldi umsagna með umsækjendunum þremur. Stjórn fól ráðgjöfum Capacent það verkefni að hafa samband við umsagnaraðila.

Á lokafundi sínum í ráðningarferlinu var það niðurstaða stjórnar að öllu framangreindu virtu að Stefán Eiríksson væri best hæfur til starfsins. Stjórnin náði saman um þetta eftir ýtarlegar umræður um styrkleika og veikleika umsækjendanna þriggja þar sem forgangsröðun stjórnarmanna var könnuð oftar en einu sinni. Lokaniðurstaðan var sú að stjórnin tók þá samhljóða ákvörðun án atkvæðagreiðslu að bjóða Stefáni starfið.

Stefán Eiríksson

Stefán Eiríksson lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og hlaut leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1997. Hann hefur síðan m.a. sinnt kennslu í lögfræði á háskólastigi, leiðbeint um lokaritgerðir til meistaraprófs í lögfræði, verið gestafyrirlesari í MBA-námi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, í stjórnunarnámi Lögregluskóla ríkisins og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og námi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Stefán hefur á sama tíma bætt við sig margvíslegu námi. Nú síðast lauk hann stað- og fjarnámi í Bloomberg Harvard City Leadership Initiative sem er sérhæft stjórnendanám fyrir stjórnendur borga.

Stefán hefur fjölbreytta reynslu af stjórnun og rekstri opinberra stofnana og margra opinberra hlutafélaga. Hann sinnti starfi skrifstofustjóra og var staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá árinu 2002 til 2006. Hann stýrði lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá stofnun embættisins árið 2007 til 2014, en mjög reyndi á lögregluna á því tímabili. Á árunum 2002 til 2006 var hann jafnframt stjórnarformaður Neyðarlínunnar hf. Frá árinu 2014 til ársins 2017 starfaði Stefán sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en undanfarin tvö ár hefur hann gegnt starfi borgarritara og haldið þar utan um miðlæga stjórnsýslu borgarinnar og samskipti við hlutafélög í eigu borgarinnar. Hann var jafnframt staðgengill borgarstjóra.

Í störfum sínum hefur Stefán komið umtalsvert að stefnumótun og innleiðingu stefnu, sem og nýsköpun, en slík reynsla var meðal þess sem hæfniskröfur í auglýsingu um starf útvarpsstjóra náðu til. Þegar Stefán tók við starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu fékk hann það verkefni að undirbúa stofnun embættisins. Embættið varð formlega til 1. janúar 2007 við sameiningu þriggja lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu. Hann leiddi verkefnastjórn og síðar framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála sem mótaði þær umfangsmiklu breytingar sem gerðar voru á skipulagi lögreglunnar árið 2007. Auk þessa hefur Stefán komið að fjölmörgum breytingastjórnunarverkefnum, stórum sem smáum, í tengslum við störf sín innan lögreglunnar, hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem og hjá Reykjavíkurborg. Stefán hefur jafnframt haft forystu um verkefni sem hafa meðal annars verið tilnefnd til nýsköpunarverðlauna, bæði hér heima og á erlendum vettvangi.

Stefán hefur þó nokkra þekkingu og reynslu af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum. Hann starfaði um árabil sem blaðamaður á yngri árum, við innlendar fréttir og íþróttafréttir á tveimur dagblöðum. Auk þess að hafa skrifað fjölmargar greinar í blöð og tímarit hefur hann reynslu af því að koma fram í fjölmiðlum. Stefán hefur látið til sín taka í samfélagsmálum, til að mynda í sjálfboðaliðastarfi á vegum Krabbameinsfélagsins en þar sat hann í stjórn félagsins í sex ár auk þess að koma að stofnun Vísindasjóðs félagsins og stýra honum fyrsta árið. Í viðtölum sýndi Stefán jafnframt einlægan áhuga og skilning á nýjum miðlum. Frumkvæði Stefáns sem lögreglustjóra að notkun samfélagsmiðla í miðlun og samskiptum lögreglunnar  við almenning, hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Árangur þessa sýndi sig þegar lögreglunni var veitt viðurkenning fyrir frumkvæði og nýsköpun á sviði nýmiðlunar.

Stefán býr yfir góðri hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Stefán starfaði í rúm tvö ár í sendiráði Íslands í Brussel og sinnti þar alþjóðlegu samstarfi í ensku vinnuumhverfi. Hann hefur einnig setið í ýmsum nefndum á vettvangi Evrópuráðsins, var í viðræðunefnd Íslands vegna endurskoðunar varnarsamnings við Bandaríkin og í samninganefnd Íslands við gerð samstarfssamnings við Europol. Stefán hefur haldið fjölmarga fyrirlestra á erlendum vettvangi, á fundum, ráðstefnum og í kennslu á vegum Evrópska lögregluskólans og hafa flestir fyrirlestrarnir verið á ensku en einnig á dönsku.

Stefán hefur gegnt forystuhlutverki í opinberum stofnunum og hjá Reykjavíkurborg í hátt í 20 ár og tekist á við ýmis flókin og vandasöm úrlausnarefni á starfsferli sínum. Sú reynsla sem hann hefur byggt upp við stjórnun og rekstur opinberra stofnana og í stjórnum hlutafélaga snýr meðal annars að samskiptum við ýmsa hagaðila, til að mynda starfsmenn, stéttarfélög, sveitarfélög og opinberar stofnanir. Stjórn RÚV horfði ekki síst til þeirrar reynslu og þekkingar þegar ákvörðun um ráðningu hans í stöðu útvarpsstjóra var tekin, sem og til leiðtogahæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum, sem staðfest var í umsóknargögnum, viðtölum, prófum og umsögnum. Stefán stóðst einnig með prýði þá kröfu stjórnar RÚV að útvarpsstjóri hefði til að bera reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu. Þá býr hann sömuleiðis yfir þekkingu og reynslu á sviði fjölmiðlunar, menningar og samfélagsmála eins og krafa var gerð um í auglýsingu, og sama á við um tungumálakunnáttu og hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Umsókn Stefáns raðaðist hæst á grundvelli mats á menntunar- og hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu, sbr. fyrstu tvo liði ráðningarferlis. Þá staðfesti ráðningarferlið að öðru leyti styrkleika umsóknar Stefáns.  Það var því skýrt mat stjórnar RÚV að Stefán uppfyllti allar þær hæfniskröfur sem gerðar voru til útvarpsstjóra í auglýsingu um starfið og stæði öðrum umsækjendum framar. Á þeim grunni var ákvörðun um ráðningu hans tekin.

V. Niðurstaða

Stjórn Ríkisútvarpsins tók allar ákvarðanir á hverju stigi í ráðningarferlinu, svo sem um vægi matsþátta og  fjölda þeirra og hvaða umsækjendum skyldi bjóða í viðtal við ráðgjafa. Auk þess tók stjórn ákvörðun um hvaða umsækjendur ættu að gangast undir persónuleikamat og hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í lokaviðtal við stjórnarmenn.

Það var samhljóða niðurstaða stjórnar að loknu heildstæðu mati að Stefán Eiríksson væri hæfastur umsækjenda til að gegna starfi útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.

Reykjavík, 14. febrúar 2020