RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Páskar á RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: cottonbro - Pexels
Sjónvarpsdagskrá RÚV er vönduð og fjölbreytt um páskana. Nýtt íslenskt efni, heimildarmyndir og skemmtilegt barnaefni eru í öndvegi yfir alla hátíðina.

Á skírdag er heimildarmyndin Milli fjalls og fjöru á dagskrá en þar er ljósi varpað á skóga á Íslandi í aldanna rás, allt frá því fyrir landnám og til dagsins í dag. Fjallað er um áhrif landnáms, járnvinnslu og skepnuhald á skóga landsins, upphaf skógræktar á Íslandi og gróðursetningu trjáa nú á dögum til að sporna gegn hamfarahlýnun. Þá verður íslenska kvikmyndin Dís sýnd á skírdag en þar segir frá Dís, 23 ára konu á krossgötum. Hún býr í miðbæ Reykjavíkur og vinnur á Hótel Borg á meðan hún fikrar sig áfram á menntabrautinni og á torfærum vegum ástarinnar.

Á föstudaginn langa er af nægu að taka fyrir börnin, svo sem Fólkið í blokkinni, Músin Marta og Víti í Vestmannaeyjum. Um daginn er Popp í Reykjavík á dagskrá sem er heimildarmynd um íslenska popptónlist sumarið 1998. Tuttugu og fjórar hljómsveitir og tónlistarmenn koma fram í myndinni, í tali og tónum. Búðin er heimildarmynd um Bjarna Haraldsson, kaupmann í Verzlun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki en hann og búðin voru með síðustu minnisvörðum á Íslandi um hverfandi verslunar- og viðskiptahætti hér á landi. Klukkan 17:00 er Helgistund á dagskrá í umsjá Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, og kl. 19:40 er komið að Páli Óskari 50 ára en það er upptaka frá fimmtíu ára afmælistónleikum Páls Óskars sem haldnir voru í Háskólabíói í lok mars. Á tónleikunum stígur Páll Óskar á svið ásamt 17 manna hljómsveit og flytur uppáhaldslög sín af löngum ferli.

Loks er Alma á dagskrá föstudagsins langa en það er íslensk kvikmynd frá 2021. Þar segir frá Ölmu, ungri konu sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærasta sínum, án þess að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé á lífi og á leið til landsins. Alma ákveður þá að myrða hann þar sem hún er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Laugardaginn 16. apríl er íslenska landsliðið í handbolta að spila mikilvægan leik við Austurríki í umspili fyrir HM. Uppselt er á leikinn og spennan mikil. RÚV verður með beina útsendingu og ómissandi HM-stofu. Um kvöldið er Bandaríska söngvakeppnin á dagskrá og spennumyndin Allied með Brad Pitt í hlutverki kanadísks leyniþjónustumanns sem fer til Marokkó til að taka hættulegan nasistaforingja af lífi með aðstoð franskrar andspyrnukonu.

Á sunnudegi páska sýnir RÚV leikritið Rauðhettu þar sem Leikhópurinn Lotta fer á kostum, íslensku teiknimyndina Lói - þú flýgur aldrei einn ásamt ýmsu öðru spennandi barnaefni. Síðdegis er svo íslenska kvikmyndin Bíódagar á dagskrá og um kvöldið er röðin komin að Landanum og og klukkan 20:15 er á dagskrá lokaþátturinn af Hringfarinn – einn á hjóli í Afríku sem segir frá ævintýralegu ferðalagi Kristjáns Gíslasonar á mótorhjóli eftir endilangri Afríku. Kl 21:10 er svo komið að frumsýningu á þáttaröðinni Vitjanir sem segir frá bráðalækninum Kristínu. Draugar fortíðar ásækja hana með fleiri en einum hætti þegar hún flytur með unglingsdóttur sinni í foreldrahús á landsbyggðinni og reynir að ná áttum eftir framhjáhald eiginmanns síns.

Á annan í páskum sýnir RÚV Hákarlabeitu, Regínu og fleira fyrir börnin og eftir kvöldfréttir eru Hvunndagshetjur á dagskrá, íslensk heimildarmynd frá 2021 um fjórar konur af erlendum uppruna sem eiga það sameiginlegt að hafa búið á Íslandi í 20 ár en hafa allar mismunandi ástæður fyrir því að setjast að hér á þessari köldu eyju í norðri. Attenborough: Furðudýr í náttúrunni tekur svo við þar sem David Attenborough sýnir okkur furður náttúrunnar eins og honum einum er lagið.

Eins og málverk eftir Eggert Pétursson er heitið á íslenskri heimildarmynd frá 2020 um listmálarann Eggert Pétursson og verk hans. Þar lýsir hann sköpunarferlinu og málverkum sínum sem eru nátengd íslenskri náttúru. Auk þess njóta áhorfendur leiðsagnar Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, grasafræðings, sem sameinar upplifun okkar á íslenskri náttúru og flórumengi blómamynda Eggerts.

Loks má ekki gleyma Spilaranum en þar verður nóg af fjölbreyttu  og skemmtilegu efni og má þar nefna fjölskylduefni í renningnum Kósýkvöld og þar sem gróðurinn er að vakna er þar efni um garðyrkju undir yfirskriftinni Vor í lofti.

Mynd: RÚV / RÚV

RÁS 1 um páska

Dagskráin á Rás 1 verður fjölbreytt og forvitnileg um páskana. Boðið verður upp á tónleika með Grammy-verðlaunahafanum Dísellu Lárusdóttur sem fram fóru í Salnum í Kópavogi, Elektra eftir Richard Strauss verður flutt beint heim í stofu frá Metrópolitan óperunni í New York. Tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur, Gullöld sveiflunnar sem fram fóru í Hörpu þann 1. apríl verða á dagskrá Rásar 1 á öðrum degi páska kl. 16.05. Tónleikar Ssens-tríósins frá Noregi sem fram fóru Hörpu í nóvember undir merkjum Kammermúsíkklúbbsins verða á dagskrá á skírdag. Á efnisskrá er meðal annars Strengjatríó op. 54, Lebensfries, eftir Hafliða Hallgrímsson en Guðni Tómasson hefur einnig umsjón með þættinum Lífsstrigi Hafliða þar sem hann ræðir við tónskáldið. 

Við fáum að vera fluga á vegg í eldhúsinu hjá Kristínu Helgu Gunnarsdóttur rithöfundi og svo kynnumst við einnig heiðursverðlaunahafa Íslensku tónlistarverðlaunanna, Önnu Guðný Guðmundsdóttur. Frumflytjum glænýtt útvarpsleikrit, Fjöldasamkoman á Gjögri. Leikritið fjallar um hóp fólks hittist reglulega á Hótel Gjögri á Ströndum, það er komið að næstu samkomu. Höfundar verksins eru þær Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Eygló Höskuldsdóttir Viborg. Sigríður Jónsdóttir, sviðslistasérfræðingur og söngleikjaaðdáandi fjallar um ævi, störf og arfleið bandaríska söngleikjaskáldsins Stephen Sondheim í þáttunum Að klára hattinn. 

Sonur smiðsins, sonur guðs eru þættir um Jesú frá Nasaret. Hver var hann þessi gyðingur frá Galileu sem breytti mannkynssögunni og um leið lífi milljóna manna um alla heimsbyggðina? Jón Ársæll Þórðarson ræðir við lærða og leika um manninn Jesú frá Nasaret. Fólksflóttinn frá Úkraínu undanfarnar vikur er sá mesti sem sést hefur í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Metfjöldi flóttafólks kemur hingað til lands og móttökukerfi á landamærum hefur verið fært á hættustig. Í þáttunum Á flótta heyrum við sögur þeirra sem flýja til Íslands. Þá var bara þögn eru þættir í umsjón Melkorku Ólafsdóttur um Kvennaathvarfið. Kvennaathvarfið er heimili um stundarsakir, athvarf fyrir konur og börn sem ekki geta búið heima hjá sér sökum ofbeldis. Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá stofnun Kvennaathvarfsins kynnum við okkur tilurð þess að samtök um Kvennaathvarf voru stofnuð, förum yfir sögu Kvennathvarfsins og kynnum okkur starfsemi þess.  Nýja geimkapphlaupið er þáttaröð úr smiðju Ratsjár þar sem umsjónarmaður sendir merki út í veröld vísinda og tækni og segir frá því sem berst til baka. Í þetta sinn er spurt, hvers vegna að fara út í geim? Neðanjarðar eru þættir í umsjón Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur. Í þáttunum er fjallað um 33 námuverkamenn sem festust á 700 metra dýpi í San José námunni í norður Chile árið 2010. Þar beið þeirra löng einangrun í myrkri, hita og raka. Hvernig tókust þeir á við hungur og vísan dauða? Hvernig brugðust ættingjar þeirra við? Hvernig var hægt að finna þá og bjarga þeim? Í þáttaröðinni Kerfinu sem er í umsjón Guðmundar Pálssonar og Ágústs Ólafssonar er leitast við að draga upp mynd af íslenska kvótakerfinu. Forsögu þess, markmiðum, framtíð og áhrifum á samfélög, atvinnuhætti og nýtingu sjávarafurða. Rætt er við fræðafólk, útgerðarmenn, fiskverkafólk og íbúa í sjávarþorpum.  

Á þessu ári er öld liðin síðan tvö af helstu verkum módernismans komu út, Ulysses eða Ódysseifur eftir írska rithöfundinn James Joyce og Wasteland eða Eyðilandið eftir bandarísk-breska skáldið T.S. Eliot. Í þáttaröðinni Óróapúls 1922 er ætlunin að varpa ljósi á þessi verk, áhrif þeirra en ekki síður tímann sem þau eru sprottin úr, menningarlegt og fagurfræðilegt umhverfi þeirra og sömuleiðis samfélagslegar og sögulegar aðstæður skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar á þriðja áratugnum. Við fáum einnig að heyra Sögur úr Skálholti en Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir drepur niður á stöku stað í sögu Skálholts með hjálp góðra gesta. Meðal annars segir Karl Sigurbjörnsson frá dýrlingnum Þorláki helga, Hildur Hákonardóttir ræðir um biskupsfrúrnar á Skálholti og Friðrik Erlingsson rekur hina örlagaríku sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Þetta og margt fleira verður á dagskrá Rásar 1 um páskana.

Mynd: RÚV / RÚV

Páskadagskráin á Rás 2

Það rekur hver krásin aðra í dagskrá Rásar 2 um páskana og hvort sem hugur hlustenda stendur til popps, rokks, tónlistarhátíða eða margslungins sambands matar og músíkur, þá munu allir finna eitthvað við sitt hæfi á páskahlaðborði rásarinnar.

Nei hættu nú alveg! snýr aftur

Eins og alþjóð veit eru páskarnir hátíð upprisunnar og hins eilífa vors. Það er því vel við hæfi að hinn goðsagnakenndi spurningaþáttur Nei hættu nú alveg! snýr aftur á Rás 2 og verður á dagskrá alla páskadagana frá Skírdegi kl. 11:02. Höfundur spurninga og spyrill er sem fyrr Vilhelm Anton Naglbítur Jónsson og fyrirliðar verða þau Vignir Rafn Valþórsson og Steiney Skúladóttir. Tveir himneskir gestir mæta svo í hvern þátt og munu fræða hlustendur um allt sem þú vissir ekki að þú þyrftir ekki að vita.

Samhengið milli listar og lystar

Á Skírdag og föstudaginn langa kl. 16:05 er þátturinn Músík og matur á dagskrá Rásar 2. Þar ætlar veitingamaðurinn og matarspekúlantinn Ólafur Örn Ólafsson að skoða músík og mat, spjalla við tónelska matgæðinga og stúdera með þeim samhengi listar og lystar. 

Aldrei fór ég suður í beinni útsendingu

Föstudaginn langa og laugardag kl. 19:20 ætlar Matthías Már Magnússon að vera á staðnum á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður og við fáum „aldrei“-stemninguna beint í æð að vestan.

Rokk í Reykjavík um páskana

Á páskadag ætlar Ólafur Páll Gunnarsson að rýna, ásamt helstu persónum og leikendum, í kvikmyndina Rokk í Reykjavík og rifja upp plötuna og tónlistina sem öllu breytti á Íslandi fyrir 40 árum. Rokk í Reykjavík í 40 ár er á dagskrá á páskadag kl. 17:04.

Rokk í Reykjavík-veislunni er þó ekki þar með lokið heldur ætlar Þorsteinn „Þossi“ Hreggviðsson að fjalla nánar um eftirköst og áhrif kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík og tónlistarinnar. Hann ræðir við fólk úr tónlistarbransanum og skoðar hvaða áhrif myndin hafði á næstu ár í bransanum og menningunni almennt. Rokk í Reykjavík – Eftirköst og áhrif er á dagskrá Rásar 2 annan dag páska kl. 18:04

Rás 2 í beinni um páskana 

Að auki verða dagskrárgerðarmenn Rásar 2 í beinni alla páskadagana: Ingi Þór Ingibergsson, Rúnar Róbertsson, Hulda G. Geirsdóttir, Andrea Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Snærós Sindradóttir, Felix Bergsson og Bjarni Daníel Þorvaldsson verða með hlustendum og fylgjast með því helsta sem um er að vera um páskana og leika létta tóna.

12.04.2022 kl.15:10
Valgeir Vilhjálmsson
Samskiptasvið
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni, Páskar