RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Nýtt útvarpsleikrit frumflutt á aðfangadag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á aðfangadag klukkan 15 verður frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 glænýtt útvarpsleikrit í fjórum hlutum eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Með tík á heiði. Leikstjóri er Silja Hauksdóttir og með aðalhlutverk fara María Heba Þorkelsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Í verkinu fléttast saman sögur tveggja kvenna, Erlu og Þorgerðar. Erla er nútímakona sem býr í Hveragerði. Þorgerður var uppi fyrir 100 árum. Sagan er einskonar frjósemissaga þessarra kvenna, brot úr æviskeiðum þeirra.

Þegar leikritið hefst er Erla á leið yfir Hellisheiði til Reykjavíkur í uppsetningu fósturvísis. Þegar við kynnumst Þorgerði er hún sem unglingur send á næsta bæ til að aðstoða við fæðingu. Eftir að hafa orðið vitni að þeim atburði sver hún þess eið að eignast aldrei börn. Hvernig virkar það á hennar tímum án getnaðarvarna og þegar önnur viðhorf til hlutverka kvenna er við lýði?

Leikritið varpar ljósi á það hlutskipti kvenna að vera með leg, ólíka sýn þeirra á barneignir og þá mögulegu kvöð.

Fyrsti hluti er á dagskrá Rásar 1 á aðfangadag klukkan 15, síðari hlutar eru á dagskrá klukkan 15.00 dagana 25., 26. og 27. desember.

 

22.12.2020 kl.15:25
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni