RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Lögin í Söngvakeppni sjónvarpsins tilkynnt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Mummi Lú
Í kynningarþætti Söngvakeppninnar sem sýndur var á RÚV í kvöld var kunngjört hvaða lög munu taka þátt og keppast um að verða framlag Íslands í Eurovision í ár. Lögin eru tíu talsins og munu þau keppa á tveimur undanúrslitakvöldum sem fara fram þann 8. og 15. febrúar.

Tvö lög úr hvorri undankeppni komast áfram í úrslitin í gegnum símakosningu almennings og munu því fjögur lög keppa til úrslita í Laugardalshöll 29. febrúar þegar framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni í ár verður valið. Framkvæmdastjórn keppninnar hefur þó sem fyrr möguleika á að bæta einu lagi við sem fer þá áfram sem „wild card“ eða eitt lag enn eins og það er stundum kallað og nýti hún það munu fimm lög keppa á úrslitakvöldinu. Kynnar í keppninni verða þau Björg Magnúsdóttir, Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Mummi Lú
Benedikt, Fannar og Björg verða kynnar eins og síðastliðið ár.

Keppnin hefur vaxið og dafnað síðustu árin og í ár verður ekki slegið slöku við.  Boðið verður upp á skemmtiatriði á öllum viðburðunum og sönghópurinn Keiino sem keppti fyrir hönd Noregs í Eurovision í fyrra með laginu Spirit in the Sky kemur fram á úrslitakvöldinu 29. febrúar. Almenningi gefst sem fyrr kostur á að vera á staðnum en miðasala hefst fimmtudaginn 23. janúar á tix.is.  Undanfarin ár hefur skapast mikil fjölskyldustemmning á viðburðunum sjálfum en í ár munu þeir Gunni og Felix hita áhorfendur í sal upp.

Í reglum keppninnar segir að í undanúrslitum verði lagið að vera flutt á íslensku en í úrslitunum megi höfundur ráða hvort það verður á íslensku eða á öðru tungumáli. Í keppninni í ár hafa 4 höfundar ákveðið að hafa lögin sín áfram á íslensku komist þau í úrslit, en hinir 6 höfundarnir munu láta flytja sín lög á ensku. Hér að neðan má sjá enskan titil lagsins aftan við þann íslenska þegar svo á við.

Flytjendur í ár verða í þessari röð:
Kid Isak
Brynja Mary
DIMMA
Elísabet Ormslev
Ísold og Helga
Daði og Gagnamagnið
Hildur Vala
Íva Marín Adrichem
Matti Matt
Nína

Hlýða má á lögin í keppninni í ár má á heimasíðu Söngvakeppninna hér. 

 

20.01.2020 kl.10:00
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni