RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Hefur þú hugmynd?

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Nú er tækifæri til að senda inn hugmynd að dagskrárefni fyrir RÚV en Hugmyndadagar RÚV fara fram í tíunda sinn 18.-19. október. Innsendingarfrestur hugmynda er til og með 2. október 2022.

Hugmyndadagar RÚV fara fram tvisvar á ári og voru fyrst haldnir í október 2017. Hugmyndasmiðum, höfundum, framleiðendum og öðrum gefst kostur á að kynna hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárdeildum RÚV á Hugmyndadögum.

Sjá innsendingargátt hér

Alls hafa meira en 2200 hugmyndir borist Hugmyndadögum frá upphafi, um 550 hópar og einstaklingar verið boðaðir á fund í Efstaleiti eða á Teams til að kynna tillögur sínar nánar og um 100 verkefni hafa þegar orðið að veruleika, eru í þróun eða í frekari skoðun. Markmiðið er að auka enn á fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja tengsl RÚV og sjálfstæðra framleiðenda. 

Að þessu sinni er leitað að:

Fyrir sjónvarp: efni ætlað unglingum, efni tengdu landsbyggðinni í framleiðslu eða innihaldi eða skemmtiefni af hverskyns toga.

Fyrir Rás 1: nýjum þáttaröðum fyrir hlaðvarp, leiknu efni, skemmtiefni og efni fyrir börn og ungmenni.

Fyrir Rás 2: þáttaröðum um íslenskt mannlíf, dægurmál og íslenska tónlist.

Frestur til að koma hugmyndum og tillögum á framfæri er 2. október, en unnið verður úr innsendum hugmyndum og völdum hópi boðið að kynna hugmyndir sínar á Hugmyndadögum 18.-19. október. Framleiðslufyrirkomulag er rætt á seinni stigum, en í dag framleiðir RÚV hluta af efni sínu sjálft en vinnur annað í samstarfi.

 

Mynd með færslu
 Mynd:
23.09.2022 kl.10:46
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni