RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fjölmiðlaþjálfun FKA og RÚV

Mynd með færslu
 Mynd:
Konur úr fjölbreyttum greinum atvinnulífsins komu saman og lærðu að takast á við helstu áskoranir í fjölmiðlaheiminum um helgina.

 

„Námskeið er eitt, þjálfun er annað, þjálfunin skilur eftir dýpri spor í vöðvaminninu og það er auðveldara að sækja þá þekkingu undir álagi“ sagði reyndur stjórnandi sem tók þátt í verkefninu.

Leiðbeinendur voru Þórhallur Gunnarsson, fjölmiðlamaður og Andrés Jónsson almannatengill. Einnig komu Sirrý Arnardóttir og Eva Laufey Kjaran, að þjálfuninni.

„Við lítum allar út fyrir að hafa gert þetta margsinnis áður,“ sagði ein við mig eftir að hafa þreytt frumraun á skjánum enda gaf þjálfunin okkur mikið, bætir Hulda Ragnheiður við. „Steinunn Þórhallsdóttir hjá RÚV og fjölmargir aðrir lögðu hönd á plóg, tæknimenn, sviðsmenn og aðrir sem eru vanir því að starfa á bak við tjöldin. Þá fengu þátttakendur tækifæri til að hitta, spjalla og læra Bergsteini Sigurðssyni og Huldu Geirsdóttur útvarpskonu sem gaf öllum þátttakendum tækifæri til að koma í ,,alvöru” útvarpsviðtal,“ segir Hulda Ragnheiður sem bendir á að auk RÚV og FKA kemur starfsfólk Stöðvar 2 og Hringbrautar að framtakinu og að umsóknir voru metnar af sérstakri valnefnd sem sá um yfirferð umsókna.

Konurnar sem tóku þátt í námskeiðinu munu deila af reynslu sinni með FKA konum á Sýnileikadegi FKA sem haldinn verður í höfuðstöðvum Arionbanka 28. mars 2020. Þannig munum við margfalda áhrifin af námskeiðinu og breiða út þá þekkingu sem þær hafa öðlast þar. Lykillinn að því að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlum er að gefa konum tækifæri til að mæta til leiks, fullar af sjálftrausti og sannfæringu um að þær komi vel fyrir og komi á framfæri því sem máli skiptir.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Ég vissi ekki að það væri svona auðvelt að fara í sjónvarpsviðtal,” er ein af þeim setningum sem bergmáluðu um ganga Útvarpshússins í Efstaleitinu um helgina. „Það var ofboðslega gefandi að verja deginum með þessum flotta hópi sérfræðinga, leiðbeinendum og öllu fagfólkinu hjá RÚV“, segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu

12.02.2020 kl.11:53
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni