RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Arnhildur hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisráðuneytið
Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður á fréttastofu RÚV, hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september. Verðlaunin fékk hún fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapíuna sem var á dagskrá Rásar 1 síðasta vetur.

 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að með þáttum Arnhildar hafi hún skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. „Fyrst og fremst rýnir Arnhildur þó í viðbrögð og líðan fólks.“

„Hún skoðar pólitíkina í kringum loftslagsmálin og spyr hvort hún sé hluti af lausninni eða standi í vegi fyrir henni og hún reynir að kryfja vandann með hjálp siðfræðinnar og trúarbragða,“ segir í rökstuðningnum.

Í fréttatilkynningunni um verðlaunin segir að Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt.

 

18.09.2020 kl.09:53
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni