RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Anna Þorvaldsdóttir ráðin listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðar Rásar 1

SINFÓ
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Nýtt staðarskáld
 Mynd: Ari Magg - Sinfóníuhljómsveit Íslands
Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, verður listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðar Rásar 1 sem haldin verður í fjórða sinn í haust. „Það eru strax farnar að gerjast ýmsar hugmyndir og það er mjög spennandi að hugsa um í hvaða áttir væri gaman að fara,“ segir Anna.

 

Anna er eitt af forvitnilegustu tónskáldum samtímans og hefur hlotið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum, þar á meðal Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012. Í vikunni bárust fréttir þess efnis að Anna ynni þessa dagana að nýju verki sem samið er eftir pöntun frá Berlínarfílharmoníunni, auk Fílharmóníuhljómsveitar New York borgar, Sinfóníuhljómsveitar Birmingham og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Verkið verður frumflutt í Berlín 27. janúar á næsta ári undir stjórn hins rússneska Kirill Petrenko.

Tónlistarhátíð Rásar 1 fer fram í fjórða sinn í haust. Fyrri listrænir stjórnendur hátíðarinnar eru Berglind María Tómasdóttir, Halla Oddný Magnúsdóttir og Daníel Bjarnason.

 

Tónlistarhátíð Rásar 1 var haldin í fyrsta sinn árið 2017 í samstarfi við Tónskáldasjóð Ríkisútvarpsins og Stefs og Listasafn Reykjavíkur. Undanfarin tvö ár hefur hún verið haldin í Hörpu en hún er jafnframt send út á Rás 1 og menningarvef RÚV.

Hátíðin leggur áherslu á frumsamda tónlist en hverju sinni eru valin fjögur tónskáld til þess að semja ný verk til flutnings á hátíðinni. Meðal tónskálda sem samið hafa fyrir hátíðina eru Hildur Guðnadóttir, Davíð Þór Jónsson, Valgeir Sigurðsson, María Huld Markan Sigfúsdóttir og Páll Ragnar Pálsson. 

 

 

22.04.2020 kl.15:03
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni