RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Aðgengisstefna RÚV kynnt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrir skemmstu var skipað í aðgengisnefnd RÚV og um leið gefin út aðgengisstefna Ríkisútvarpsins.

Í aðgengisstefnunni er lögð áhersla á þrjá meginþætti, aðgengi að miðlum, aðgengi í og við Útvarpshúsið, aðrar starfsstöðvar RÚV og á viðburðum á vegum þess og að fjölbreytileikinn í samfélaginu endurspeglist í miðlum RÚV.

Í fyrsta meginþættinum felst að tryggja beri aðgengi að miðlum RÚV. Undir þetta fellur aðgengi fyrir blint og sjónskert fólk, heyrnarlaust og heyrnarskert fólk, döff fólk (heyrnarlaust fólk sem talar táknmál), fólk með þroskahömlun og loks aðgengi að miðlum RÚV fyrir fólk með annað móðurmál en íslensku.

Í öðrum meginþætti aðgengisstefnunnar, sem snýr að aðgengi í og við Útvarpshúsið, er meðal annars kveðið á um að tryggja skuli að hjólastólarampar við innganga hússins séu færir allan ársins hring, sjálfvirkir opnarar á hurðum milli svæða í Útvarpshúsinu og allar dyr í Útvarpshúsinu skulu vera nógu breiðar fyrir hjólastóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Þriðji meginþátturinn snýst um fjölbreytileika í miðlum RÚV enda vilji RÚV sýna þversnið þjóðarinnar í miðlum sínum. Þar er meðal annars tiltekið að RÚV hvetji áhugasöm til að sækja um störf óháð kyni, kyntjáningu, þjóðerni og líkamlegu atgervi. Sama á við um gesti í sjónvarpssal eða á annars konar viðburðum RÚV um leið og þess skal gætt að fólk sem tilheyrir jaðarhópum í samfélaginu sé ekki einvörðungu sýnilegt þegar málefni þessara hópa eru til umfjöllunar.

Þann 10 mars sl. var svo skipað í aðgengisnefnd Ríkisútvarpsins, ótímabundið frá og með þeim degi. Nefndina skipa þau Anna Lilja Þórisdóttir, Gísli Þórmar Snæbjörnsson, Helga Ólafsdóttir og Anna Sigríður Þráinsdóttir, sem stýrir starfi nefndarinnar. Jafnframt starfar með nefndinni Atli Sigþórsson, verkefnisstjóri aðgengis og fjölbreytileika hjá RÚV.

Aðgengisnefnd starfar samkvæmt framangreindri aðgengisstefnu RÚV og hlutverk nefndarinnar er að móta aðgerðaáætlun á sviði aðgengismála og hafa eftirlit með því að markmið stefnunnar og einstakar aðgerðir nái fram að ganga. Jafnframt skal nefndin gera tillögur að fræðslu og upplýsingamiðlun til starfsfólks RÚV. Loks skal nefndin reglubundið endurskoða aðgengisstefnu RÚV og aðgerðaáætlun og gera tillögur að breytingum eftir því sem við á.

Aðgengisstefnu RÚV má skoða í heild sinni með því að smella hér.