RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Aðalfundur RÚV 2022

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðalfundur Ríkisútvarpsins var haldinn var í Útvarpshúsinu við Efstaleiti miðvikudaginn 27. apríl. 

Í ársreikningi kemur fram að reksturinn var jákvæður að nýju. „Árið 2021 var sannarlega viðburðaríkt í íslensku samfélagi. Allt árið glímdum við saman við heimsfaraldur og eldgos hófst á Reykjanesskaga í fyrsta sinn í 800 ár, svo ég nefni það helsta. Ríkisútvarpið gegnir dag hvern, og sérstaklega við slíkar aðstæður, ríku öryggishlutverki sem sinnt var með fjölbreyttum hætti. “ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.

Þjónusta RÚV og notkun 

Mikill meirihluti þjóðarinnar nýtti sér þjónustu RÚV árið 2021. Daglega nota 58% landsmanna ljósvakamiðla RÚV og 88% í hverri viku samkvæmt rafrænum mælingum Gallups á áhorfi og hlustun. Að auki notar tæpur þriðjungur landsmanna ruv.is daglega. Viðhorf til RÚV er áfram afar jákvætt, 70% eru mjög jákvæð eða jákvæð í garð RÚV.  Þegar spurt var til hvaða fjölmiðils leitar þú helst eftir íslensku efni, íslensku leiknu efni og menningarefni er Ríkisútvarpið efst í huga landsmanna. Fréttastofan nýtur mikils trausts og langflestir telja að RÚV sé mikilvægasti fjölmiðill þjóðarinnar. 

Stefnu- og áherslubreytingar birtast enn á ný í samantekt á þróun dagskrárefnis. Á síðustu fimm árum hefur framboð á íslensku efni aukist um 74% og norrænu efni um 214% en bandarískt efni hefur dregist saman um 34%. Með áherslubreytingum á undanförnum misserum hefur þjónusta við börn og ungt fólk stóraukist, m.a. með öflugri starfsemi KrakkaRÚV, UngRÚV og MenntaRÚV. Þá hefur áhersla á menningu og listir verið aukin, sem og áhersla á stafræna miðlun, samstarf og þróun.

Afkoma RÚV jákvæð

Samkvæmt rekstrarreikningi og yfirliti um heildarafkomu var hagnaður af rekstri RÚV 45 milljónir króna á árinu eftir skatta á árinu 2021. Í árslok námu heildareignir 8.766 milljónum króna, eigið fé var 1.968 milljónir króna og eiginfjárhlutfall var 22,5% í árslok 2021. Vísað er til eiginfjáryfirlits í ársreikningnum um breytingar á eiginfjárreikningum. Fjöldi ársverka var 252.

Í stuttu innleggi Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra á aðalfundinum kom fram rík áhersla á fjölbreytileika, jafnræði og virka þátttöku og sýnileika allra hópa í miðlum RÚV. „Við eigum að endurspegla samfélagið og um leið að tryggja öllum aðgang að þjónustu okkar. Stórt skref var stigið árið 2021 þegar táknmálstúlkun allra aðalfréttatíma sjónvarpsins hófst sem og táknmálstúlkun Krakkafrétta. Aukin upplýsingamiðlun á ensku og pólsku á vefnum okkar er einnig liður í þessu verkefni og margt fleira mætti nefna.“

Ársskýrsla RÚV er nú líkt og undanfarin ár sex ár eingöngu gefin út á rafrænu formi.  Hún er alfarið unnin innanhúss af starfsfólki RÚV. Hægt er að nálgast ársskýrsluna hér: http://www.ruv.is/arsskyrsla/   

Ný stjórn RÚV  

Þann 8. apríl kaus Alþingi stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/123 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í stjórn sitja

Nanna Kristín Tryggvadóttir, Margrét Tryggvadóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir (formaður), Jón Ólafsson (varaformaður), Þráinn Óskarsson, Ingvar Smári Birgisson, Mörður Áslaugarson, Aron Ólafsson, Diljá Ámundadóttir Zoëga. Fulltrúi starfsmanna í stjórn RÚV er Hrafnhildur Halldórsdóttir.

 

28.04.2022 kl.13:27
Valgeir Vilhjálmsson
Samskiptasvið
Birt undir: Í umræðunni, Aðalfundur, Í umræðunni