Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Zaandam fær að sigla í gegnum Panama

29.03.2020 - 00:20
epa08327806 General view of the MS Zandaam cruise ship anchored off the coast of Panama City, Panama, 27 March 2020. Panama's ministry of health denied the ship permission to cross the Panama Canal after four people showing flu-like symptoms died aboard. It is not however confirmed whether they were infected with coronavirus.  EPA-EFE/CARLOS LEMOS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Skemmtiferðaskipið MS Zaandam fékk í dag leyfi til þess að sigla í gegnum Panamaskurðinn. Skipið hefur legið við akkeri við Panama undanfarið, eftir að hafa verið hafnað að leggjast að bryggju við vesturströnd Suður-Ameríku vegna kórónaveirutilfella. Tugir um borð sýna einkenni sjúkdómsins og fjórir eru látnir. Íslensk hjón voru um borð í skipinu, en fengu leyfi ásamt fleirum til þess að fara um borð í annað skip frá sama félagi, MS Rotterdam.

Stjórnvöld í Panama ákváðu að leyfa skipinu að fara í gegnum skurðinn af mannúðarástæðum. Enginn um borð, hvorki úr áhöfn né farþegi, fær hins vegar að stíga á land í Panama. Byrjað var að ferja fólk úr Zaandam yfir í Rotterdam fyrr í dag, en yfirvöld í Panama gáfu ekki upp hversu margir. Um 1.800 voru um borð í Zaandam og yfir 130 orðnir veikir. Aðeins þeir sem eru einkennalausir fá að fara um borð í MS Rotterdam. AFP hefur eftir Noriel Arauz, sjávarútvegsráðherra Panama, að 401 farþegi hafi fengið neikvæða svörun í COVID-19 prófun.

Hallur Metúsalem Hallsson, sem fagnaði sextugsafmæli sínu um borð um daginn, sagði farþega hafa þurft að halda sig í klefum sínum síðan veikindin komu upp á sunnudag. Næstu skref eru óljós, en talið er að Rotterdam sigli aftur til San Diego, þaðan sem það kom með vistir, lyf, veirupróf og heilbrigðisstarfsfólk. Zaandam er hins vegar á leið til Flórída, og þarf að komast í gegnum Panamaskurðinn til þess.