„Yrsa hefur skrifað meira spennandi bækur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Yrsa hefur skrifað meira spennandi bækur“

20.11.2019 - 20:30

Höfundar

Sverrir Norland og Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnendur Kiljunnar fjölluðu um Þögn eftir Yrsu Sigurðardóttur og telja þau nokkuð víst að hörðustu aðdáendur Yrsu fljúgi í gegnum hana nokkuð sáttir þó þau hafi sjálf verið efins um margt í uppbyggingu og söguþræði bókarinnar.

Nýjasta glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur, Þögn, kom hún út á dögunum. Í þetta sinn keppast lögreglumaðurinn Huldar og sálfræðingurinn Freyja, sem lesendur þekkja úr fyrri bókum Yrsu, við að leysa dularfullt sakamál sem hefst með óhugnalegu barnshvarfi í Reykjavík. Kolbrún Bergþórsdóttir er sérstaklega hrifin af frásögn af kennslukonunni í sögunni sem reynir að hafa hemil á börnum í skólastofu og segist þekkja þessa reynslu vel á góðum lýsingum Yrsu. „Ég hef sjálf verið kennari og mér finnst henni takast mjög vel að lýsa þessu, þarna er hún upp á sitt besta,“ segir Kolbrún en bætir við að Yrsa hafi þó oft skrifað meira spennandi bækur en Þögn og hún var ekki par sátt við málalok bókarinnar.

„Ég hafði gaman að því að lesa bókina alveg þangað til farið er að ljóstra upp um lausnir mála í lokin. Það átti að koma á óvart en ég fórnaði höndum,“ segir hún. „Maður verður að trúa því að persónur í sögu geti brugðist við á ákveðinn hátt en þarna trúði ég því ekki.“

Sverrir hefur sína umfjöllun á játningu en Þögn er fyrsta bókin sem hann les eftir Yrsu. „Ég þekkti persónurnar ekki og viðurkenni að mér fannst þetta fullmikið persónugallerí og þurfti að hafa mig allan við að fylgja þeim eftir,“ segir Sverrir sem grunar þó að aðdáendum Yrsu takist að þeysast í gegnum bókina án mikillar óánægju eða vandkvæða. „Fyrir mig sem kemur hins vegar kaldur að þessu hefði hún mátt herða á sögunni, stytta hana og hafa söguþráðinn skýrari.“

 „Hún er samt skemmtileg,“ segir Kolbrún að lokum. „Það má kannski finna eitthvað að stílnum hjá Yrsu en hún hefur þennan skemmtilega tón. Ég held að aðdáendur Yrsu verði ósköp sáttir.“

Alla umfjöllunina um Þögn eftir Yrsu Sigurðardóttur má hlýða á og sjá í spilaranum efst í fréttinni

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Spennandi, áreynslulaust og fantavel gert

Bókmenntir

Ein stærstu tíðindin í flóðinu

Bókmenntir

Spennandi og klassískur Arnaldur að hætti hússins