Yrði ekki með hættulegri gosum á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Ef það færi að gjósa á Reykjanesi yrði það gos líklega svipað og önnur gos þar á síðustu árþúsundum og þau flokkast ekki með hættulegri gosum á landinu. Þetta kom fram í máli Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun, á íbúafundi í Íþróttahúsi Grindavíkur sem nú stendur yfir.

Ríkislögreglustjóri lýsti í gær yfir óvissustigi vegna landriss og jarðskjálfta vestan við fjallið Þorbjörn, í næsta nágrenni við Grindavík. Nú stendur yfir íbúafundur og er íþróttahúsið þétt setið. 

Líklega er landrisið og skjálftarnir vegna kvikusöfnunar. Magnús Tumi sagði að svo gæti farið að hún hætti fljótlega. Annar möguleiki er að hún  haldi aðeins áfram og hætti svo. Hann tók kvikuinnskot í Öræfajökli sem dæmi, það hafi staðið í ár og svo hætt. Þá geti einnig farið svo að það komi eldgos. Það sé þó svo í níu tilvikum af tíu að kvikuinnskot leiði ekki til goss. 

Engin eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga í tæplega 800 ár. Síðasta gos var þar árið 1240. Færi svo að það fari að gjósa, þá myndi það líklega vera svipað að stærð og gosið í Kröflu árið 1984, flæðigos sem myndar hraun, öflugt fyrsta sólarhringinn og minna eftir það og standi í daga eða vikur. 

Mesta hættan yrði af völdum hraunsins, sagði Magnús Tumi, en að með nútímatækni væri afar ólíklegt að fólk verði undir því en eignatjón gæti orðið töluvert.