YouTube ritskoðar efni frá hinsegin fólki

Mynd: Ugla Stefanía Jónsdóttir / Ugla Stefanía Jónsdóttir

YouTube ritskoðar efni frá hinsegin fólki

12.01.2020 - 18:08

Höfundar

YouTube hefur tekið að ritskoða efni frá samtökunum Trans Íslandi og frá samfélögum hinsegin fólks víða. Ríkisstjórnir víða um heim og framkvæmdastjórn Evrópusambadsins gagnrýna ritskoðun tæknirisa eins og Google, sem á YouTube.

Google veit allt um okkur

Talið er að 1,8 milljarðar noti YouTube í hverjum mánuði. Allt að átta milljarðar búa á jörðinni sem þýðir að um fjórðungur jarðarbúa fer á YouTube mánaðarlega. 
Í maí á síðasta ári var meira en fimm hundruð klukkutímum af efni hlaðið upp á YouTube á hverri einustu mínútu. 
 

„Þetta er gjörsamlega búið að taka yfir hefðbundnar sjónvarpsútsendingar fyrir ansi marga markhópa, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni,“ segir Theódór R. Gíslason tæknistjóri hjá Syndis.
 
Norska ríkisútvarpið fjallaði nýlega um sjálfsmorðsnet ungra stúlkna á Instagram, sem er í eigu Facebook. Netið kom í ljós þegar farið var að skoða síma ungrar stúlku sem hafði fyrirfarið sér. Stúlkan hafði verið í sambandi við að minnsta kosti 1000 aðrar sem voru í svipuðum hugleiðingum.Talið er að sjálfsmorðsnetið nái til að minnsta kosti 26 þúsunda víða um lönd og vitað er að 15 norskar stúlkur hafa fyrirfarið sér. 

Theodór segir að Google viti allt um okkar líf. „Veit að hverju við leitum, hverju við höfum áhuga á og þegar við sláum einhver leitarorð inn á YouTube þá eru þeir með eitthvert algrím sem lætur þig sjá efni eftir því sem þú leitar. Og ef þú ert að hugsa eitthvað neikvætt eins og sjálfsmorðshugleiðingar þá ertu líklegur til að fá efni í takt við það.“
 
Falsfréttir, hatursorðræða og ofbeldismyndbönd sem birst hafa á YouTube hafa orðið til þess að vaxandi þrýstingur er á eigendur miðilsins að stýra efninu. Og það hafa þeir gert.  

Ritskoða efni frá Trans Íslandi

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir formaður Trans Íslands segir að fyrir nokkrum árum hafi orðið breyting á efni frá þeim
„Þar sem ákveðin orð, ákveðin leitarorð, voru sett í ákveðna ritskoðun þannig ef þú hafðir orð eins og transgender eða gay eða eitthvað tengt því að vera hinsegin þá í rauninni fór það þannig í algóryþmanum hjá þeim að það er falið að vissu leyti og fólk getur ekki fundið þetta efni jafn auðveldlega.“  
 
„Við tókum alveg strax eftir því að það varð breyting á hversu aðgengilegt, hversu auðvelt var að finna myndböndin okkar á netinu.“
 
Hinsegin fólk er ósátt og hefur reynt að fá YouTube til að breyta þessu en án árangurs. Í Bandaríkjunum er verið að undirbúa málaferli. Um það má lesa í ritinu Rolling Stone.   
  
„Ég myndi segja að þessi ritskoðunarstefna sé ákveðin mismunun gagnvart hinsegin fólki að vissu leyti því þarna er verið að gera í því að gera hinsegin efni óalgengara.“

Bandarísku samtökin Special books for special kids hafa það að markmiði að gefa einstökum börnum tækifæri til að koma fram og tjá sig. Þau eru að reyna að normalisera fjölbreytileika manna. Þau hlaða myndböndunum upp á YouTube. Í fyrra var ekki lengur hægt að skrifa komment við myndböndin á YouTube. Forsvarsmenn samtakanna voru verulega ásátt við það eins og heyrist í myndbandi sem þau settu á YouTube. 

„YouTube has put into place discriminatory new actions to disable every single comment section on all of our videos.“

Og að þau hafi tekið eftir því að þær síður þar sem eru auglýsendur eru síður ritskoðaðar á YouTube þó að efni frá þeim falli undir þær reglur sem YouTube hafi sett sér.

„It seems that channels that are larger or that have corporate advertisers behind them they are not being impacted at all even though their content is more subjective to the type of pretation that they´re trying to combat.“

YouTube stýrir neyslu

Theódór segir að YouTube sé að stýra neyslu fólks. „Ég held að upprunalega hafi ritskoðunin verið af góðum vilja en þetta hefur þróast á seinustu 10 árum yfir í kannski að vera þannig að það er verið að stýra neyslu eða hvað við horfum á eða höfum áhuga á út frá þörfum auglýsenda.“

Endurspeglar þessi ritskoðun ekki  stjórnmálaskoðanir eigendanna eða stjórnmálaskoðanir þeirra sem forrita, það eru einhverjir að gera það?  Það gæti verið og það er vegna þess að þeir sem forrita þessi algrím þeir fá einhver tilmæli. Og það kemur að ofan.“
 
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar segir að 70% af þeim tíma sem fólk ver á YouTube sé við að skoða myndbönd sem algorithmi YouTube beinir þeim að.   

„Um leið og þú ert að horfa á samsæriskenningar eða hatursorðræðu þá ertu mjög fljót eða fljótur að fara ofaní mjög rótttækt efni vegna þess að algoritmarnir voru að leiða notendur í þá átt.“

Risastór einkafyrirtæki sem setja sér reglur sjálf

„Við erum eiginlega í svolítið skrítinni stöðu vegna þess að þarna erum við með risastór einkafyrirtæki sem setja sínar reglur sjálf fyrirtækin og með gríðarlega notendafjölda ofboðslega mikla notkun.  Og það er kannski ástæðan fyrir því að ríkisstjórnir í mismunandi löndum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er farin að skoða þetta mál.  

Vill skipta hátæknifyrirtækjum upp

Evrópusambandið hefur ákveðið að samfélagsmiðlar heyri undir nýja persónuverndartilskipun en tilskipunin nær ekki til Bandaríkjanna. Þar hafa komið upp hugmyndir um að brjóta fyrirtækin upp. Ein af þeim sem það vill gera er öldungardeildarþingmaðurinn Elísabet Warren. Hún vill skipta risahátæknifyrirtækjum eins og  Amazon, Google upp.

Theódór tekur undir þau sjónarmið. „Ef þú myndir spyrja mig um skoðun þá myndi ég segja að fyrirtæki eins og Google og þannig, það eigi að brjóta þau niður. Þau mega ekki hafa svona mikinn aðgang að gögnum af því þetta er hættulegt.“
 
 

Tengdar fréttir

facebook

Banna fölsk myndbönd á Facebook en skrumskæling leyfð

Erlent

Gervinotendum eytt af Facebook og Twitter

Tækni og vísindi

Frakkar sekta Google

Erlent

Google þarf ekki að gleyma nema í Evrópu