YouTube og Facebook ritskoða Hatara

Myndir sem sjónvarpsstöðin KAN sendi okkur
 Mynd: Ohad Kab - KAN

YouTube og Facebook ritskoða Hatara

13.01.2020 - 15:34

Höfundar

Efni frá fjöllistahópnum Hatara hefur verið ritskoðað á YouTube og ekki hefur verið hægt að dreifa myndbandinu með laginu Spillingardans með keyptum auglýsingum á Facebook. Matthías Tryggvi Haraldsson liðsmaður hópsins segir að völdin á internetinu séu að færast á hendur færri og að það ætti að sporna við þeirri þróun. 

YouTube herðir ritskoðun

YouTube hefur aukið ritskoðun á miðlum sínum síðustu misseri. Mikil óánægja er með hana ekki síst vegna þess að Google, sem á YouTube, hefur safnað að sér gríðarmiklum upplýsingum um fólk og fyrirtækið er orðið miklu stærra en mörg þjóðríki.

Komið hefur fram að YouTube ritskoðar efni frá Trans Íslandi og frá samfélögum hinsegin fólks víða. Einnig efni frá fjölmörgum öðrum, bæði samtökum og listamönnum. Fjöllistahópurinn Hatari hefur fundið fyrir þessu.

Ritskoða geirvörtur, fæðingar og Hatara

Matthías Tryggvi Haraldsson, liðsmaður Hatara segir að myndbönd frá þeim hafi ekki verið bönnuð á YouTube en þeim hafi verið sópað til hliðar.  

„Við höfum fundið fyrir því að myndefni frá okkur þykir ekki - ja [...] því er alla vega stýrt þannig að færri sjá það.“

Það hafi komið í ljós til dæmis með lagið Spillingadans.

„Við fundum fyrir því að það kom ekki upp í uppástungum og við máttum heldur ekki sponsora það á Facebook, sem sagt dreifa því með keyptum auglýsingum á Facebook.“

Matthías segir að þetta skjóti skökku við: „Það er alls konar óheppilegt efni sem fær mjög mikla dreifingu á netinu, rangfærslur og samsæriskenningar og túlkanir á viðburðum sem ala á ótta og andúð og það kemst alveg í dreifingu en konur sýna á sér geirvörtuna það er allt í einu er orðið bannefni. Fæðingar veit maður að hafa verið bannaðar og við í leðurólum að búa til fallegt tónlistarmyndband með fullu samþykki og bara af gleði og listfengi eftir bestu getu. Þannig það skýtur skökku við hvað er ritskoðað.“
 

Völdin á netinu færast á hendur færri

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, sagði í fréttum í gær  að 70% af þeim tíma sem fólk ver á YouTube sé við að skoða myndbönd sem algorithmi YouTube beinir þeim að. „Við erum eiginlega í svolítið skrítinni stöðu vegna þess að þarna erum við með risastór einkafyrirtæki sem setja sínar reglur sjálf.“ Ríkisstjórnir í mismunandi löndum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sé farin að skoða þetta mál. Í Bandaríkjunum hafa komið fram hugmyndir um að brjóta risahátæknifyrirtæki eins og Amazon og Google upp.

Matthías tekur undir það. „Frá því netið leit fyrst dagsins ljós hefur þetta verið mjög lýðræðislegt tæki og valdeflandi fyrir fjölda fólks og við þekkjum dæmi um það bara í nútímasögunni. En það virðist vera að völdin á netinu færist í hendur færri eftir því sem á líður og öll svona átök til að brjóta það upp eða til að sporna við þeirri þróun eru mjög mikilvæg og við ættum að styðja þau.“
 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

YouTube ritskoðar efni frá hinsegin fólki