Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yngsta þingkonan boðar nýtt grænt samkomulag

Mynd:  / 

Yngsta þingkonan boðar nýtt grænt samkomulag

13.02.2019 - 17:46

Höfundar

Bandaríska þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez stal senunni fyrir síðustu helgi þegar hún kynnti nýja róttæka stefnu Demókrata í umhverfismálum, Green New Deal, Nýja Græna Samkomulagið.

The Green New Deal er tilllaga um gjörbreytta stefnu í efnahags- og umhverfismálum Bandaríkjanna en nafnið vísar í fræga aðgerð Franklin D. Roosevelt til að vinna bug á heimskreppunni miklu. Nýja græna samkomulagið er á margan hátt endurómur frá þeirri stefnu, með aukinni aðkomu ríkisins, auknum opinberum framkvæmdum á að blása nýju lífi í atvinnulífið, en nú með miklum grænum áherslum, með aukinni endurvinnslu og endurnýjanlegum orkulindum til þess að minnka gróðurhúsaáhrif og umhverfisspjöll. Til mynda með því að lækka alla skatta á sólarraforku-framleiðslu og fleira. Þessi stefna Demókrata hefur vakið  mikla athygli og umræðu í Bandaríkjunum og skotið talsmanni stefnunnar, Alexandria Ocasio-Cortez, yngstu þingkonu Bandaríkjanna upp á stjörnuhimininn; sumir hafa jafnvel spáð því að hún gæti orðið næsti forseti Bandaríkjanna. Freyr Eyjólfsson í New York.

Hugtakið Green New Deal, nýja græna samkomulagið, kom fyrst fram í grein í New York Times eftir Thomas Freidman, 2007. Ákall um að Bandaríkin þyrftu að móta nýja efnahagsstefnu á 21. öldinni sem væri byggð á grænum og vistvænum leiðum. Að byggja upp nýtt, grænt hagkerfi sem væri ekki bara vistvænna – heldur líka hagkvæmara á allan hátt. Stór og dýr umhverfisslys, öll gróðurhúsaáhrifin væru mjög dýr og kostnaðarsöm. Þessar hugmyndir voru þróaðar enn frekar af Sameinuðu þjóðunum í nýrri umhverfisáætlun sem kom út 2008 undir nafninu Global Green New Deal. Bandaríski Græningjaflokkurinn hefur verið með þessa yfirskrift og stefnu síðast liðin ár sem birtist í kosningabaráttu forsetaframbjóðandans, Jill Stein, 2016. Það má því segja að Demókratar hafi stolið þessu slagorði og stefnu af Græningjum fyrir síðast liðnar þingkosningar í nóvember. Það var þó meira í orði en borði og rétt eftir kosningarnar kom hópur aðgerðasinna saman fyrir framan skrifstofu þingforsetans Nancy Pelosi og kallaði eftir því að hún og félagar hennar í Demókrataflokknum, einbeittu sér frekar að umhverfismálum. 18 þingmenn Demókrata stukku strax á vagninn í lok síðasta árs, og vinna hófst við að semja nýja stefnu Demókrata til þess að breyta umhverfis- og efnahagsstefnu Bandaríkjanna á næstu árum.

Stefna Repúblikana og forsetans Donald Trump, um að auka olíu- og kolavinnslu, draga sig frá Parísar-sáttmálanum og draga alfarið úr öllum viðvörunum og umræðu um gróðurhúsaáhrif  hefur vakið mikil viðbrögð. Það er ákall um breytingar og þann tíunda janúar síðast liðinn sendu 600 bandarísk samtök og stofnanir bréf til bandaríska þingsins um að bregðast við varðandi losun gróðurhúsaloftegunda. Að Bandaríkin fari að vinna að því að hætta alfarið að nota jarðefnaeldsneyti,  nota frekar vistvænni orkugjafa og auka almenningssamgöngur.

Tillögurnar eru róttækar og algjör andstæða við alla stefnu Donalds Trump og Repúblikana. Þetta er vinstri græn stefna sem fjallar um að nota einungis endurnýjanlega orkugjafa, innleiðingu rafbíla, breyttar almannasamgöngur og nýja hugsun í vegakerfi landsins. Draga úr notkun kola, auka umsvif hins opinbera og skapa ný störf í nýju, breyttu, grænu hagkerfi. Hið nýja græna kerfi á koma til móts við fátæka, með lágmarkslaunum, með því auka opinbera þjónustu, styrkja heilbrigðiskerfið og koma í veg fyrir fákeppni á mörkuðum.

Konan sem kynnti þetta nýja, græna samkomulag er hin 29 ára gamla Alexandria Ocasio-Cortez, yngsta þingkona í sögu Bandaríkjanna. Hún kemur frá Bronx hverfinu í New York og flaug inn á þing með bravör í síðustu þingkosningum, þykir afar róttæk og hikar ekki við að kalla sig sósíalista, sem hefur verið hálfgert bannorð í bandarískum stjórnmálum. Cortez fékk mikil viðbrögð eftir blaðamannafund á föstudag, þar sem hún kynnti nýju tillögurnar. Reynsluboltar í stjórnmálum komu fram og gagnrýndu hana fyrir reynsluleysi og óraunhæfar hugmyndir. Ekki lægi fyrir nein kostnaðaráætlun, svona framkvæmdir myndu kosta þúsundir milljarða og tæma bandaríska ríkisskassann. Þetta væru því galnar tillögur, og að þær gerðu lítið úr raunhæfum hugmyndum og aðgerðum til þess að stemma stigu við gróðurhúsaáhrifum  

Alexandria Ocasio-Cortez hefur sem sagt fengið yfir sig harða gagnrýni en hefur gert sitt besta til þess að svara því. Jafnvel sjalfur þingforsetinn Nancy Pelosi kallaði þessa stefnu græna draumóra – en Cortez hefur svarað því til að þetta sé vissulega draumur - og það sé gott að láta sig dreyma – það sé upphaf alls.

Eftir helgina sendi Ocasio-Cortez fjölmiðlum bréf, þar sem algengum spurningum, villum og misskilningi var svarað. Þetta hefur örlítið dregið úr málstað hennar og gagnrýnendur keppast við að gera lítið úr henni og hugmyndum hennar. Trump forseti líktu þessum tillögum við vonlausa menntaskólaritgerð. Því má telja fullvíst að þessi tillaga fari ekki í gegnum bandaríska þingið – alla vega ekki að þessu sinni. Margir íhaldssamir Demókratar eru áhyggjufullir að flokkurinn sé með þessu að stíga enn lengra til vinstri, sé að verða róttækari – sem sé hættuleg stefna – og gulltryggi áframhaldandi setu Donalds Trump í Hvíta húsinu.

 Í viðbótarplaggi sem Ocasio-Cortez  sendi á mánudag var líka finna örlitla viðbót við sjálfa áætlunina, um atvinnuleysisbætur og að nota kjarnorku, um tíma, í stað jarðefnaeldneytis. Þetta eru vissulega róttækar hugmyndir, hefðbundnir Repúblikanar súpa hveljur, þetta er jafnvel umdeilt meðal Demókrata, en samt sem áður hafa þá þegar fleiri en 70 þingmenn í fulltrúadeildinni og 12 öldungadeildarþingmenn í þeirra röðum skrifað upp á plaggið.  Þetta er kanónur eins og Kamala D. Harris, Elizabeth Warren og Kirsten Gillibrand sem hafa tilkynnt forsetaframbjóð sitt fyrir næsta ár. Sem verður að teljast mikilvægur stuðningur fyrir þessar nýju hugmyndir en ekki síst stuðningur við Ocasio-Cortez sjálfa, sem er nú afar vinsæl á meða ungs fólks og margir eru farnir að þrýsta á hana  að hún skelli sér í slaginn á næstu árum. Eins og sakir standa hefur hún ekki aldur til. Aldurstakmarkið til þess að bjóða sig fram er 35 ára, en hún gæti mögulega skellt sér í slaginn 2024. Það er auðvitað allsendis óvíst hvort Ocasio-Cortez geri það, en línur eru farnar að skýrast fyrir næsta ár og minn spádómur er sá að það verði aftur kona sem mæti Donald Trump á lokametrunum í nóvember 2020.

Það gæti verið öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar frá Minnesota sem tilkynnti á sunnudag að hún hygðist taka þátt í forkosningum Demókrataflokksins um forsetaefni, en hún er fimmta konan sem boðar þátttöku í forvali Demókrata fyrir forsetakosningarnar, og hafa þær aldrei verið fleiri. Auk hennar hafa öldungadeildarþingkonurnar Elizabeth Warren, Kamala Harris og Kirsten Gillibrand tilkynnt framboð, og sömuleiðis fulltrúadeildarþingkonan Tulsi Gabbard. Hver sem verður í framboði – þá er líklegt að Demókratar eru að fara í kosningaslag á næsta ári með róttækari og grænni stefnumál og hugmyndir en nokkru sinni áður.