Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“

Mynd: Samsett mynd / hi.is

„Yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“

29.09.2017 - 18:06

Höfundar

Orlandó er sjötta skáldsaga breska rithöfundarins Virginíu Woolf. Persóna Orlandó er byggð á henni sjálfri, sem og vinkonu hennar, og ástkonu, Vitu Sackville-West. Sagan kemur út eftir helgi í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur.

Æviferill sem spannar margar aldir og ferðalag milli kynja

Orlandó er karl, hún er kona, hán, ferðast í gegnum rúmlega þrjár aldir og hugleiðir um tímann, skáldskapinn, ástina, mannsandann, mannúð, náttúruna, kynhlutverk og kynvitund. Orlandó ber undirtitilinn ævisaga, enda segir sagan frá ævi karakters að nafni Orlandó. Æviferillinn er þó ekki með hefðbundu sniði samkvæmt gangi lífs og náttúru. Æviferill Orlandó spannar rúmlega þrjár aldir og það sem meira er, Orlandó ferðast milli kynja, sem og kyngervis. Hann fer úr því að vera karlmaður, líffræðilega, yfir í að verða líffræðileg kona. En hugmyndir um kynvitund eru einnig á reiki, þ.e.a.s. það hvernig Orlandó upplifir eigið kyn.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Smith College
Lokapróförk Orlandós. Sjá má handskrifaðar lagfæringar Woolfs sjálfrar

Virginía Woolf skrifar söguna og gefur út árið 1928 – Hvað þýðir það að vera kona? Hvað þýðir það að vera karlmaður? Kynjatvíhyggja; sú staðlaða og úrelda hugmynd um kyn sem takmarkar möguleikana við karlkyn og kvenkyn, er meðal efna sem Woolf veltir upp í Orlandó.

Kvikmyndin Orlando í leikstjórn Sally Potter er byggð á samnefndri skáldsögu Woolf. 

„Lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“

Persóna Orlandó er byggð á vinkonu Virginíu Woolf, vinkonu sem var þó einnig ástkona hennar. Vita Sackville-West hét hún, aðalskona og rithöfundur. Nigel Nicolson, sonur Vitu, hefur skrifað talsvert um Sackville-West fjölskylduna en í bókinni Portrait of a Marriage: Vita Sackville-West & Harold Nicolson kallar hann verkið Orlandó „lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna.“ Það má deila um hvað sé yndislegasta ástarbréf bókmenntanna – nokkur hafa fengið á sig þann sama merkimiða, t.d. De Profundis, Úr djúpunum, eftir Oscar Wilde – 50,000 orða ástar (og þó, einnig haturs) bréf til fyrrum elskhuga hans Alfreds Douglas.

Ástarbréf þeirra Virginíu og Vitu 

Virginía og Vita hittust fyrst í desember árið 1922. Um þann fund skrifar Vita, í bréfi til eiginmanns síns, sem vel að merkja, festi sig ekki heldur við eina kynhneigð – enda samband þeirra og samskipti gagnsæ og opin er kom að hinseginleika. Í bréfi til hans skrifar hún:

„Ég er gjörsamlega dolfallin af Virginíu Woolf. Þú myndir einnig falla fyrir sjarma hennar og þokka. Hún kemur manni fyrir sjónir sem eitthvað stórt. Hún er blátt áfram, tilgerðarlaus og laus við íburði og glamúr. Fatastíll hennar er hræðilegur – Fyrst um sinn, fær maður á tilfinninguna að hún sé venjuleg en svo leggst yfir mann andleg fegurð hennar og að horfa á hana er töfrum líkast. Hún er bæði afskiptalaus og mannleg, þögul þar til hún vill segja eitthvað, og þegar hún vill segja eitthvað, þá segir hún það vel. Ég held að hún heillist af mér. Hún hefur boðið mér til Richmond í heimsókn til sín. Yndi, hún hefur stolið hjarta mínu“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Vita Sackville-West og Virginía Woolf.

Vita þáði heimboð Virgínu og úr varð vinátta, sem þróaðist yfir í ást, og flakkaði síðan á milli vinabanda og ástarhanda, ef marka má bréfaskriftir kvennanna sem gefin hafa verið út; Lestin mælir með samantekt bréfaskrifta þeirra sem gefnin var út 1985, The Letters of Vita Sackville-West to Virginía Woolf. Meðal bréfa sem fóru þeirra á milli eru eftirfarandi tvö: 

21. janúar 1927, Milanó, ítalía
Vita Sackville-West til Virginíu Woolf

„Ég er orðin að þeim þætti í mér sem þráir Virginíu. Ég skrifaði fallegt bréf til þín í draumi en nú er það allt farið: Ég bara..sakna þín, á afar mannlegan og örvæntingafullan hátt. Þú, og þín fáguðu bréfaskrif, þú myndir aldrei skrifa mér á svo frumstæðan máta; kannski myndiru ekki einu sinni finna/skynja á svo frumstæðan máta. Og þó, trúi ég því að þú finnir slíkt –þú klæðir tilfinningar þínar bara svo einstökum afburðafáguðum búningi að þær missa stundum sjónar af raunveruleikanum.Ég sakna þín meira en mig hefði geta grunað, og ég sem hafði undirbúið mig fyrir söknuð. Bréf þetta er óp sársaukans. Það er ótrúlegt hve mikilvæg þú ert orðin mér. Fjandans þú, ég fæ þig harla til að elska mig meir með því að gefa svo mikið af mér  – en ástin mín, ég get ekki verið skynsöm og snjöll þegar það kemur að þér: ég elska þig of mikið til þess. Ég sem hef náð fullkomnu valdi fálæti, því að halda mig frá fólki. Þú hefur brotið niður varnir mínar. Og mér sárnar það ei.“

1927
Virginía Woolf til Vitu Sackville-West

„Sjáðu til, Vita – gleymdu manni þínum um stund og förum saman til Hampton Court. Snæðum miðdegisverð við lækinn og göngum saman um garða í tungslljósi og komum heim síðla kvölds og gerumst hífaðar af víndreitli og ég.. segi þér allt það sem í huga mínum situr, miljónir, óragrynni hugsana – hugsanir sem vakna aðeins í myrkrinu við lækinn. Hugsaðu um þetta, gleymdu manni þínum um stund, segi ég og komdu!“

Mynd með færslu
 Mynd: Smith College
Opna úr Orlandó. Ljósmynd af Vitu Sackville-West, tekin 1927.

Orlandó byggir á Vitu 

Ást, bréfaskrifir, innblástur og ævintýri Vitu og Virginíu stóðu yfir þar til Virginía gekk í sjóinn 28 mars 1941. Eins og áður segir, byggir sagan Orlandó á Vitu, og því varla furða að hún tileinki henni verkið einnig. Í verkinu, rannskar Virginía Woolf, Vitu niður í kjölinn og eins og Nigel Nicolson segir í áðurnefndri bók: „Hún vefur hana saman við aldirnar, sveiflar henni úr einu kyninu yfir í annað, leikur sér að henni, klæðir hana í loðfeldi, blúndur og gimsteina, stríðir henni, daðrar við hana, sveipar hana þokumóðu og endar á að taka af henni mynd í moldarflagi hjá Long Barn, með hundana sína.“ Soffía Auður Birgisdóttir þýddi texta Nicolson sen hún þýðir Orlandó sem Opna gefur út eftir helgi. Lestin ræddi við Soffíu um tilurðarsögu þýðingarinnar, söguna sjálfa og framúrstefnulegar hugmyndir Woolf. 

Var yfir tíu ár að þýða bókina

„Virginía Woolf hefur lengi verið minn uppáhalds rithöfundur. Af hennar bókum þá er þetta kannski uppáhalds bókin. Að mínu mati er Orlandó hennar skemmtilegasta bók, um leið og hún er mjög merkileg. Hún er ólík öðrum bókum hennar, að því leytinu til að það er svo mikill léttleiki í stílnum. Bókin er fjörug og skemmtileg. Flestar aðrar bækur hennar eru mun þyngri, heimspekilegri, alvarlegri enda kallað sagðist hún sjálf hafa verið í rithöfundarfríi þegar hún skrifaði hana,“ segir Soffía Auður um Orlandó. Soffía Auður er ekki þýðandi að atvinnu og hefur þýðingarvinnan tekið yfir tíu ár. „Þetta er búið að pússast mikið og svo hef ég haft góða yfirlesara,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að verkið hafi tekið sinn tíma, hafi henni ekki leiðst eina einustu sekúndu. „Þetta er svo skemmtilegur texti. Hann er flókinn, hún er með flóknar langar setningar enda þekkt fyrir að hafa innleitt ásamt James Joyce og Proust, þetta svokallaða vitundarstreymi, þannig að maður þarf að lesa og endurlesa og endurlesa, til að virkilega ná í öll blæbrigðin af því hvað hún er að segja,“ segir Soffía og bætir við að Orlandó hafi verið verk einfaldlega krafðist þessa tíma.

Framsýnt og nútímalegt verk 

Framúrstefnulegar hugmyndir og vangaveltur koma fyrir í verkinu. Má þar nefna hugmyndirnar um kyn, kynvitund og kynjatvíhyggju. „Ef við hugsum um að hún kemur út 1928, þá er hún ótrúlega framsýn og nútímaleg. Og enn í dag finnst manni hún vera nútímaleg þegar maður les hana,“ segir Soffía . 

Soffía Auður Birgisdóttir var í ítarlegu viðtali í Lestinni og ræddi tilurðarsögu þýðingarinnar, söguna sjálfa og framúrstefnulegar hugmyndir Virginu Woolf.

Tengdar fréttir

Tónlist

Túlkar verk Virginiu Woolf með tónlist