Orlandó byggir á Vitu
Ást, bréfaskrifir, innblástur og ævintýri Vitu og Virginíu stóðu yfir þar til Virginía gekk í sjóinn 28 mars 1941. Eins og áður segir, byggir sagan Orlandó á Vitu, og því varla furða að hún tileinki henni verkið einnig. Í verkinu, rannskar Virginía Woolf, Vitu niður í kjölinn og eins og Nigel Nicolson segir í áðurnefndri bók: „Hún vefur hana saman við aldirnar, sveiflar henni úr einu kyninu yfir í annað, leikur sér að henni, klæðir hana í loðfeldi, blúndur og gimsteina, stríðir henni, daðrar við hana, sveipar hana þokumóðu og endar á að taka af henni mynd í moldarflagi hjá Long Barn, með hundana sína.“ Soffía Auður Birgisdóttir þýddi texta Nicolson sen hún þýðir Orlandó sem Opna gefur út eftir helgi. Lestin ræddi við Soffíu um tilurðarsögu þýðingarinnar, söguna sjálfa og framúrstefnulegar hugmyndir Woolf.
Var yfir tíu ár að þýða bókina
„Virginía Woolf hefur lengi verið minn uppáhalds rithöfundur. Af hennar bókum þá er þetta kannski uppáhalds bókin. Að mínu mati er Orlandó hennar skemmtilegasta bók, um leið og hún er mjög merkileg. Hún er ólík öðrum bókum hennar, að því leytinu til að það er svo mikill léttleiki í stílnum. Bókin er fjörug og skemmtileg. Flestar aðrar bækur hennar eru mun þyngri, heimspekilegri, alvarlegri enda kallað sagðist hún sjálf hafa verið í rithöfundarfríi þegar hún skrifaði hana,“ segir Soffía Auður um Orlandó. Soffía Auður er ekki þýðandi að atvinnu og hefur þýðingarvinnan tekið yfir tíu ár. „Þetta er búið að pússast mikið og svo hef ég haft góða yfirlesara,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að verkið hafi tekið sinn tíma, hafi henni ekki leiðst eina einustu sekúndu. „Þetta er svo skemmtilegur texti. Hann er flókinn, hún er með flóknar langar setningar enda þekkt fyrir að hafa innleitt ásamt James Joyce og Proust, þetta svokallaða vitundarstreymi, þannig að maður þarf að lesa og endurlesa og endurlesa, til að virkilega ná í öll blæbrigðin af því hvað hún er að segja,“ segir Soffía og bætir við að Orlandó hafi verið verk einfaldlega krafðist þessa tíma.
Framsýnt og nútímalegt verk
Framúrstefnulegar hugmyndir og vangaveltur koma fyrir í verkinu. Má þar nefna hugmyndirnar um kyn, kynvitund og kynjatvíhyggju. „Ef við hugsum um að hún kemur út 1928, þá er hún ótrúlega framsýn og nútímaleg. Og enn í dag finnst manni hún vera nútímaleg þegar maður les hana,“ segir Soffía .
Soffía Auður Birgisdóttir var í ítarlegu viðtali í Lestinni og ræddi tilurðarsögu þýðingarinnar, söguna sjálfa og framúrstefnulegar hugmyndir Virginu Woolf.