Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ýmsir möguleikar á myndun ríkisstjórnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staðan á myndun ríkisstjórnar er opin og í raun mun opnari en í fyrra, að mati Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. „Forsetinn byrjaði á því strax eftir kosningar að gefa þessu andrými. Hann gæti gert það aftur núna,“ segir Eiríkur. Rætt var við hann í sjónvarpsfréttum klukkan 22:00.

Í dag slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks. Fjöldi samsetninga á flokkum eru mögulegar núna, að sögn Eiríks. Ekki er þó hægt að segja neitt um það hvaða flokkar eru líklegastir til að ná samstöðu. „Nú fer Framsókn úr úr þessu. Þá getur auðvitað verið að Vinstri græn og Samfylking bjóði Sjálfstæðisflokki og líklega Viðreisn með, það er möguleiki,“ segir hann. Einnig sé hægri íhaldsstjórn fjögurra flokka möguleg en Eiríkur bendir á að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, hafi tekið dræmt í þá hugmynd. 

Greinilegt sé að Sigurður Ingi sjái fyrir sér ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, telur Eiríkur, og vísar í viðtal við hann í Kastljósi í kvöld. „Þá er Framsókn í miðjunni og gæti í krafti þess gert kröfu um forsætisráðherrastólinn. Ætli það séu ekki margir sem teikna málin þannig að henti sér best, það er mannlegt að gera það,“ segir Eiríkur.