Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ýmis réttindamál óskýr í nýjum samningum

09.11.2019 - 12:21
Innlent · BHM · kjaramál
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ýmis réttindamál í nýjum samningi starfsfólks stjórnarráðsins voru óskýr að mati Friðriks Jónssonar, formanns hagsmunaráðs utanríkisþjónustunnar. Margir treysti ekki ríkinu til að þau komi til fullra framkvæmda. Stjórnarráðið felldi nýjan kjarasamning gegn ríkinu í gær.

Breytingar á orlofsrétti var það helsta sem stóð í starfsfólki stjórnarráðsins í nýjum kjarasamningi. „Okkur finnst held ég öllum frekar sérstakt að refsivendillinn sé á starfsmenn. Ef starfsmenn taki ekki fríin sín, komast ekki í frí að sumri til, þá fá þau það ekki bætt ef þau taka það frekar að vetri,“ segir Friðrik Jónsson formaður hagsmunaráðs utanríkisþjónustunnar.

„Ef þau komast alls ekki í frí þá hreinlega fyrnist frítökurétturinn án nokkurra bóta. Eins og það virtist vera samkvæmt þessum nýja samningi,“ segir Friðrik. Atkvæðagreiðslu um samninginn lauk í gær. Starfsmenn stjórnarráðsins var eina BHM félagið af fimm sem voru í samfloti sem felldi samninginn með tæplega 58% greiddra atkvæða. 38% samþykktu. 

Friðrik segir að fólk hafi ekki verið ósátt með launalið samningsins en ýmis útfærsla réttindamála hafi verið óskýr. Eins og styttingu vinnuvikunnar og breytingar á fastri yfirvinnu. Hjá mörgum hafi þetta snúist um traust til samninganefndar ríkisins. „Þess vegna vilja menn hafa samningana mjög skýra. Þegar samningur liggur fyrir og hann er kynntur á ákveðinn hátt. Þegar kemur að framkvæmdinni sé hann jafnan túlkaður jafn minimalískt og hægt er,“ segir Friðrik.

Starfsmenn stjórnarráðsins þurfa að snúa aftur að samningaborðinu. Auk þeirra eiga 17 félög BHM eftir að semja við ríkið. „Ég hugsa reyndar að rök okkar hvað varðar orlofið séu ekki sérlega ósanngjörn. Ég efast ekki um að menn geti talað vel saman um þetta og ef ekki, þá tekur þetta kannski eitthvað aðeins lengri tíma. Ég kvíði því ekki að við lendum aftur í gerðardómi eins og 2015, það er líka alltílagi.“

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV