Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu draga úr útgjöldum ríkisins

10.12.2019 - 03:05
Saudi Finance Minister Mohammed al-Jadaan, adjusts his Keffiyeh as he speaks during a press conference to announce Saudi Arabia's annual budget at the finance ministry, in Riyadh, Saudi Arabia, Monday, Dec. 9, 2019. (AP Photo/Amr Nabil)
 Mynd: AP images
Yfirvöld í Sádi-Arabíu ætla að draga úr útgjöldum ríkisins vegna aukins halla á ríkissjóði. Konungur Sádi-Arabíu segir að með þessu séu hægt að tryggja fjármagn fyrir framtíðarsýn konungsveldisins sem krónprinsinn Mohammed bin-Salman stendur fyrir.

Fjármálaráðherra Sádi-Arabíu kynnti fjárhagsáætlun næsta árs á blaðamannafundi í gær. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir halla upp á rúmlega fimmtíu milljarða bandaríkjadala árið 2020. Sádi-Arabar hafa glímt við halla á ríkissjóði frá því að olíuverð tók dýfu árið 2014. Síðustu ár hefur eyðsla samt aukist ár hvert - þar til nú. Olía er langstærsta tekjulind Sádi-Arabíu.

Yfirvöld hafa sett fram metnaðarfulla áætlun sem ber heitið Framtíðarsýn 2030. Hún gengur út að auka fjölbreytni í efnahagslífinu og draga þannig úr mikilvægi olíunnar. Samkvæmt áætluninni á meðal annars að reyna að blása lífi í ferðamannaiðnaðinn. Í því skyni hefur krónprinsinn Mohammed bin-Salman unnið hörðum höndum að því að fegra ímynd landsins út á við. Konum var í marga áratugi bannað að keyra í landinu en í fyrra var því banni aflétt. En á sama tíma og sádi-arabísk stjórnvöld hreyktu sér fyrir að leyfa konum loks að hald út í umferðina var fjöldi kvenna handtekinn og fangelsaður fyrir það að krefjast aukinna mannréttinda. Margar þeirra sitja enn í fangelsi.