Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Yfirlögregluþjónn vill gæslumann í Reynisfjöru

09.02.2016 - 08:24
Mynd með færslu
Ítrekað hafa verið birtar myndir af ferðamönnum sem eru hætt komnir í Reynisfjöru. Þessi mynd er úr safni. Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshar - RÚV
Íslendingar verða að hætta að stinga höfðinu í sandinn og átta sig á því að hér eru ferðamenn allt árið. Við því þurfi að bregðast og byggja upp almennilega öryggisþjónustu. Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Hann vill fá gæslumann í Reynisfjöru.

Á ruv.is var í gærkvöld hægt að sjá myndir af erlendum ferðamönnum sem voru hætt komnir í Reynisfjöru á laugardag. Myndirnar tók Magnús H. Jóhannesson, sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Mudshark. Hann sagði í samtali við fréttastofu að eitthvað yrði að gera. „Þetta gengur ekki.“

Þetta eru ekki fyrstu myndirnar úr fjörunni þar sem ferðamenn stefna sjálfum sér í voða - fjöldi mynda og myndskeiða hefur birst á samfélagsmiðlum að undanförnu.  

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að þeir hafi séð nokkrar svona myndir og myndskeið en bendir á að ýmislegt hafa verið gert til að bæta öryggi á þessum stað. „Við létum útbúa betri skilti við gönguleiðina fyrir tveimur árum. Og svo var farið í það að afmarka bílastæðið betur með bandi þannig að fólk myndi frekar fara gönguleiðina inn með hlíðinni og fram hjá skiltinu. En það virðist ekki breyta því að fólk er að leika sér í flæðarmálinu og fara sér að voða.“

Sveinn segir að þeir hafi miklar áhyggjur af þessu enda Reynisfjara orðinn einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. „Og þarna erum við bara komnir með gott dæmi um að við þurfum standandi gæslu.“

Sú hugmynd hafi áður verið rædd en allt snúist þetta um peninga. Sveinn segir að nú verði að gera eitthvað - erlendir ferðamenn séu úti um allt. „Landið þarf að fara að vakna við það að hér eru ferðamenn allt árið og við þurfum að byggja öryggisþjónustu í samræmi við það. Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og vonast til að allt fari vel.“

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshar - RÚV
Nokkrir ferðamenn voru hætt komnir í Reynisfjöru á laugardag.