Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Yfirheyrðu ekki viðtakendur minnisblaðs

03.05.2014 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögregla krafðist þess að fréttastjóri mbl.is upplýsti hvernig fjölmiðlinn fékk margumrætt minnisblað um hælisleitanda, án þess að hafa fyrst tekið skýrslu af innanríkisráðherra og öðrum sem fengu minnisblaðið sent í tölvupósti. Þeir voru yfirheyrðir eftir að héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn.

Lögregla rannsakaði tölvukerfi innanríkisráðuneytisins og benti rannsóknin til þess að hverfandi líkur væru á að minnisblað um hælisleitanda hefði verið sent úr tölvupóstkerfi ráðuneytisins. Lögreglan taldi að ekki væri hægt að afla upplýsinga um þann sem ábyrgð bar á lekanum nema með því að krefjast þess að fréttastjóri mbl.is upplýsti hvernig fjölmiðillinn fékk minnisblaðið.

Í niðurstöðu Héraðsdóms, sem birtist á vef Hæstaréttar í gær, kemur fram að margumrætt minnisblað, sem lekið var til fjölmiðla, um tiltekinn hælisleitanda og konur honum tengdar, var samið í innanríkisráðuneytinu, að beiðni skrifstofustjóra. 

Samkvæmt úrskurðinum var skjalið vistað á tölvudrifi sem allir starfsmenn ráðuneytisins höfðu aðgang að. Jafnframt sendi skrifstofustjórinn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, tveimur aðstoðarmönnum hennar og ráðuneytisstjóranum minnisblaðið í tölvupósti, 19. nóvember klukkan 17:17.
Morguninn eftir birtist frétt á mbl.is þar sem vitnað var í minnisblaðið.

Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms hefur rannsókn á tölvukerfi innanríkisráðuneytisins leitt í ljós að minnisblaðið hafi ekki verið sent af netfangi ráðuneytisins. Ekkert kemur fram um hvernig það barst fjölmiðlum.

Lögreglan krafðist þess að fréttastjóri mbl.is upplýsti hvernig minnisblaðið hefði komist í hendur mbl.is. Fréttastjórinn hafnaði því og bar við trúnaði við heimildarmenn. Bæði Héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu lögreglunnar. Í niðurstöðu Héraðsdóms kemur fram að engar skýrslur hafi verið teknar af ráðherra og öðrum sem fengu minnisblaðið sent í tölvupósti og ekki verið leitað heimildar til að afla upplýsinga um símnotkun þeirra á þeim tíma sem minnisblaðið barst úr ráðuneytinu. Lögreglan hafi því ekki leitað allra leiða sem færar voru til þess að upplýsa málið áður en farið var fram á að fréttastjórinn upplýsti hvernig minnisblaðið barst mbl. Því var kröfu lögreglunnar hafnað. Eftir að Héraðsdómur kvað upp úrskurðinn voru hins vegar teknar skýrslur af þessu fólki.

Lögreglan hélt því fram fyrir Héraðsdómi að rannsókn málsins væri komin á það stig að ekki væri hægt að afla upplýsinga um þann sem lak minnisblaðinu nema með því að fréttastjórinn gæfi þær upplýsingar sem lögreglan krafðist. Í raun lægju allir starfsmenn ráðuneytisins undir grun, en óraunhæft væri að lögregla aflaði sér heimilda til húsrannsókna hjá öllum þessum starfsmönnum og skoðaði einkatölvur þeirra og síma.

Leiðrétt: Í fyrri útgáfu af þessari frétt var sagt að lögregla hefði komist að því að minnisblaðið hefði ekki verið sent úr tölvupóstkerfi ráðuneytisins. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms útilokaði rannsóknin ekki að minnisblaðið hefði verið sent úr tölvupóstkerfi ráðuneytisins heldur benti til þess að hverfandi líkur væru á því.