Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfirfall Hálslóns bara einu sinni verið meira

27.09.2017 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Rennsli í fossinum Hverfandi, sem myndast þegar vatn rennur á yfirfalli úr Hálslóni Kárahnjúkavirkjunar, hefur aðeins einu sinni í sögunni verið meira en nú. Vatnsborð Hálslóns hefur hækkað um 30 sentimetra á síðustu tólf tímum og nú vantar aðeins 15 sentimetra upp á að það nái methæðinni frá 2012, þegar það fór hæst í 626,46 metra.

Frá þessu segir í frétt á vef Landsvirkjunar. Þar segir að Hálslón hafi fyllst 19. ágúst og vatn runnið á yfirfalli síðan þá. Miklir vatnavextir undanfarinn sólarhring hafi leitt til þess að rennslið sé nú með mesta móti. Rennsli í Hverfandi sé 45-500 rúmmetrar á sekúndu.