Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Yfir hundrað flóttamenn til landsins í ár

19.09.2015 - 15:39
epa04936593 Migrants gather at a temporary shelter under the roof of a petrol station as they wait for trains bound for Zagreb, in Beli Manastir, Croatia, 18 September 2015. More and more migrants arrive in Croatia on alternative routes to enter the
 Mynd: EPA
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er hvergi minnst á fjölda flóttamanna sem Ísland ætlar að taka við. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir erfitt að segja nákvæmlega til um fjöldann - hann eigi þó allt eins von á því að Ísland taki við yfir hundrað flóttamönnum á þessu ári.

 

Ríkisstjórnin hafði áður tilkynnt að hún ætlaði að taka við fimmtíu kvóttaflóttamönnum.

Sú ákvörðun var gagnrýnd nokkuð og var ráðherranefnd skipuð til að fara yfir málið. Ríkisstjórnin fór yfir tillögur nefndarinnar á fundi sínum í dag og klukkan 15 var boðað til blaðamannafundar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er hvergi nefnd nein tala yfir þann fjölda flóttamanna sem ríkisstjórnin ætlar að taka við. Í yfirlýsingunni segir að á þessu ári verði einum milljarði verði varið „til að taka á móti fyrsta hópi flóttafólks frá Sýrlandi, til fjárstuðnings við alþjóðastofnanir og borgarasamtök á vettvangi og til að bregðast við óvenju mikilli fjölgun hælisleitenda á þessu ári en fyrir liggur að umtalsverður hluti þeirra hlýtur stöðu flóttamanna hér á landi.“  

Í yfirlýsingunni segir enn fremur að ráðgert sé að fyrsti hópurinn komi til landsins í desember á þessu ári. Kostnaður við hvern flóttamann á ári nemur um 4 til 5 milljónum á ári. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV