Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Yfir 50.000 undirskriftir komnar

27.01.2016 - 02:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, þar sem sett er fram sú krafa að alþingi verji árlega 11 prósentum af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins, hefur nú náð ríflega 50.000 undirskriftum á þeim 5 sólarhringum sem söfnunin hefur staðið yfir.

Í grein sem Kári skrifaði í Fréttablaðið í desember síðastliðnum hótaði hann að safna 100.000 undirskriftum fólks sem lofaði að kjósa aldrei aftur ríkisstjórnarflokkana, ef fjárlagafrumvarpinu yrði ekki breytt og mun meira fé varið til Landspítalans en þar var ráð fyrir gert.

Í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 skömmu síðar sagðist hann ætla sér að reyna að fá meirihluta þjóðarinnar, jafnvel allt að 80% hennar, til að skrifa undir kröfuna um að í kringum 11% vergrar landsframleiðslu færu til heilbrigðismála. Þannig mætti „handjárna" næstu ríkisstjórn þannig að hún yrði „að setja það fé í heilbrigðismálin sem eðlilegt má teljast," sagði Kári.

Segja má að Kári sé ríflega hálfnaður að því markmiði sínu að fá 100.000 undirskriftir, þótt yfirlýsingin sem undirrituð er innihaldi engin loforð þeirra sem undir hana rita um að kjósa aldrei aftur ríkisstjórnarflokkana. Kári er enn töluvert frá því markmiði að frá meirihluta þjóðarinnar til að skrifa undir, en á móti kemur að söfnunin hefur aðeins staðið í 5 sólarhringa, sem fyrr segir.

Sex sinnum hefur tekist að fá fleiri borgara til að skrifa undir áskoranir til stjórnvalda í sögu lýðveldisins. 

Lengstu undirskriftalistarnir fram til þessa

  • Reykjavíkurflugvöllur (2013) 69.637
  • Icesave II ( 2010) 56.089
  • Varið land (1974) 55.522 
  • Áframhaldandi ESB-viðræður (2014) 53.555
  • Makríll (2015) 51.296
  • Sals HS-veitna (2011) rúm 47.000
  • Gegn vegatollum (2011) rúm 41.000
  • Almenn skuldaleiðrétting (2011) 37.743
  • Icesave III (2011) rúm 37.000
  • Breytt veiðigjald (2013) 34.882

Uppfært 10:49. Rúmlega 83.000 skrifuðu undir lista til að mótmæla beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum. Hann var afhentur breska þinginu 17. mars 2009.